Eftirfarandi grein birtist í 50 ára afmælisútgáfu RHÍ frétta 2014.
Saga Reiknistofnunar Háskóla Íslands og tölvuvæðingar hér á landi er samofin. Segja má að tölvuöld hefjist á Íslandi árið 1964 með komu fyrstu tölvunnar til landsins. Sama ár hóf Reiknistofnun starfsemi. Hlutverk hennar hefur hins vegar breyst mikið í tímanna rás. Stofnunin er ekki lengur einungis reiknimiðstöð þjóðarinnar, heldur er hún orðin að þekkingar- og þjónustumiðstöð með aðaláherslu á þjónustu við háskóla-samfélagið. Magnús Gíslason, deildarstjóri kerfisdeildar, gaf sér tíma til að stikla á stóru um sögu stofnunarinnar, en sjálfur hóf hann störf þar árið 1978.
Háskólinn fær heila
Framkvæmdabankinn ákvað árið 1964, í tilefni af 10 ára afmæli sínu, að gefa Háskólanum svokallaðann rafheila af gerðinni IBM 1620. Ármann Snævarr, þáverandi háskólarektor, sagði við afhendingu gjafabréfsins að þetta væri ein stærsta gjöf sem Háskólanum hefði nokkru sinni borist. Reiknistofnun hóf starfsemi sína þetta sama ár. „Vakti þetta mikla eftirtekt og forvitni manna var vakin með fyrisögnum í dagblöðum um fyrirbærið rafheila og annað slíkt. Fyrirsögnin sem birtist í Morgunblaðinu „Háskólinn fær heila“ var því ekki svo fráleit. Rafheilinn var settur upp í desember 1964 í kjallara húss Raunvísindastofnunar sem þá var enn í byggingu. Þar voru bæði vélasalur og aðstaða starfsfólks. Vélinni var einungis ætlað það hlutverk að reikna en þaðan er nafn Reiknistofnunar fengið“, segir Magnús.
Tölvan verður íslensk
Með komu vélarinnar var brotið blað í sögu Háskóla Íslands. Hún þótti bylting og þó hún hafi verið fyrirferðamikil og í þremur hlutum sparaði vélin mikinn kostnað og tíma. Í byrjun störfuðu einungis tveir verkfræðingar við rafheilann í 50% starfi og tók það heilann einungis tvær klukkustundir að vinna það sem áður tók tvo verkfræðinga rúma tvo mánuði að vinna. Magnús bendir á til glöggvunar að þegar IBM 1620 var fyrst sett upp, var hún með 40.000 stafa minni sem samsvarar 40 kílóbætum (0,04 MB). Inntaks/úttakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari, en hvorki seguldiskar eða prentari voru komnir til sögunnar.
Ekki var hægt að kalla tæki þetta tölvu þar sem það orð hafði ekki enn verið fundið upp í íslenskri tungu. Ýmis nöfn voru notuð um þetta nýja tæki líkt og rafreiknir, rafeindareiknivél o.fl. Til gamans má geta þess að orðið tölva kom fyrst fram árið 1965 í samtali milli Sigurðar Nordals þáverandi prófessor við HÍ og Magnúsar Magnússonar, sem var fyrsti forstöðumaður stofnarinnar. Stungið hafði verið upp á nafninu valva, en þegar Magnús sagði Sigurði frá því sagði hann: „Það er ekki valva, heldur völva, - en því ekki tölva?“.
Þar með var þetta ágæta orð komið. Orðið er talið samsett af orðunum „tala“ sem vinnur úr tölum og „völva“ sem sér fyrir óorðna hluti. Festist nafnið fljótt við rafheilann og hefur verið notað æ síðan.
Tölvunotkun innleidd
„Í byrjun voru hin ýmsu kynningarnámskeið haldin fyrir forstjóra og aðra yfirmenn til að sýna þeim gagnsemi tölvunnar. Margir þessara starfsmanna urðu áhugasamir og færir notendur tölvunnar,“ segir Magnús er hann rifjar upp sögu Reiknistofnunar. Einnig voru valnámskeið haldin fyrir verkfræðistúdenta, en frá vetrinum 1967- 1968 varð Háskóli Íslands einn af fyrstu háskólum á Norðurlöndum sem settu tölvuforritun sem skyldugrein í námsskrá. Áttu því þessir nemendur mikinn þátt í að innleiða tölvunotkun í verkfræði og raunvísindum hér á landi.
Fyrstu verkefni RHÍ
Á fyrstu starfsárum RHÍ fengust starfsmenn við margvísleg verkefni, bæði stór og smá. Sum þeirra urðu upphafið að viðamiklum verkefnum sem byggð voru upp og þróuð á stærri og öflugri tölvum. Önnur fengu litlar undirtektir og var því smám saman hætt. Enn önnur reyndust ekki framkvæmanleg með þeirri takmörkuðu reiknigetu sem tölvan hafði. Í eldri fréttabréfum Reiknistofnunar, þar sem drepið er á sögunni, kemur fram að fyrsta verkefnið sem stofnunin vann fyrir Háskólann, var að reikna Almanak hins íslenska þjóðvinafélags í tölvunni. Almanakið var síðan aukið og endurbætt með töflum um sólargang á nokkrum stöðum á landinu.
Fljótlega fóru hinar ýmsu stofnanir atvinnulífsins að nota tölvuna. Starfsmenn landbúnaðarins notuðu tölvuna m.a. til að para saman hrúta og ær og við tölfræðilega úrvinnslu tilrauna. Á Hafrannsóknastofnun var unnið að úrvinnslu síldargagna og sömuleiðis notaði Veðurstofan tölvuna við að vinna úr upplýsingum um veðurfar. Verkfræðingar hjá borgarverkfræðingi hófu vinnu við hönnun og lagningu gatna í Reykjavík, líkt og verkfræðingar hjá Vegagerð ríkisins sem reiknuðu út og hönnuðu Keflavíkurveginn í tölvunni ásamt starfsmönnum RHÍ. Þá var tölvan notuð við úrvinnslu landmælingagagna, auk þess að grundvöllur var lagður að því fasteignamati sem notast er við í dag.
Sérsamningur um endurgjaldslaus afnot
Árið 1976 hefst nýr kafli í ævisögu Reiknistofnunar, en þá komu IBM 360/30 vélar. Með sérsamningi við IBM á Íslandi fékk Reiknistofnun endurgjaldslaus afnot af tölvunni í fjögur ár. Vélin var sett upp í tölvusal sem komið hafði verið fyrir í VR I, húsi verkfræði- og raunvísindadeildar. Skipulagi stofnunarinnar var breytt sama ár og ný reglugerð var gefin út af menntamálaráðuneytinu um starfsemi hennar. Þar var hlutverk hennar skilgreint í þremur liðum sem fólst m.a. í að annast rekstur reiknimiðstöðvar við Háskóla Íslands, annast reikniþjónustu fyrir aðila utan Háskólans og gangast fyrir námskeiðum og kynna nýjungar á opnum fyrirlestrum.
Bruni í kjölfar skipulagsbreytinga
Á þessum tíma hafði flest starfsfólkið aðstöðu í timburhúsi við suðurenda VR I, hús sem var í daglegu tali kallað Sumarhús. Tilurð þeirrar nafngiftar má rekja til að Húsasmiðjan hóf að fjöldaframleiða sumarbústaði árið 1963 og er húsið eitt af þeim. Árið 1977 kviknaði eldur í húsinu og gjöreyðilagðist skrifstofan, vinnusalir og götunaraðstaða. Nokkur reykur komst í vélasalinn, en allur vélbúnaður slapp óskemmdur úr eldinum. Tjónið var ekki meira en svo að þjónustan hófst aftur að mestu óskert á öðrum virkum degi. Magnús segist muna vel eftir brunanum, enda var hann sjálfur nemandi á þessum tíma. Hafði þetta mikil áhrif á byggingar og aðstöðu nemenda þar í kring. Um íkveikju var að ræða en brennuvargurinn fannst aldrei.
Í tímans rás var svo allri kjarnastarfsemi stofnunarinnar (vélasal og skrifstofuhúsnæði) komið undir eitt þak í nýreistum Tæknigarði í nóvember 1988. Þá störfuðu 12 starfsmenn við stofnunina. Haustið 2009 flutti hún aðsetur sitt að Sturlugötu 8, í hús Íslenskrar Erfðagreiningar, en eins og fram kemur í grein forstöðumanns RHÍ fremst í blaðinu eru flutningar framundan. Reiknistofnun Háskólans flyst á næstunni að Neshaga 16 og verður þar til húsa næstu árin að minnsta kosti.
Aukið hlutverk RHÍ
Ný reglugerð var sett árið 1990. Í henni er hlutverkið útvíkkað nokkuð og við tekur ný skilgreining í átta liðum. Meðal annars bættist þar við hlutverk stofnunarinnar að vera háskólaráði, fræðasviðum og deildum til ráðuneytis um upplýsinga- og tölvutækni og leggja reglulega fram tillögur um skipulag og framkvæmd upplýsingamála. Einnig að fylgjast með alhliða þróun í tölvutækni. Stofnuninni ber að koma upp og reka, í samráði við fræðasvið og deildir, aðstöðu fyrir nemendur allra deilda til kennslu og náms í greinum þar sem notkunar tölvu er þörf. Þá ber stofnunni að annast hugbúnaðar- og tækniþjónustu fyrir aðila utan háskólans, þó þarfir háskólans hafi forgang við val verkefna. Stofnuninni ber einnig að hafa yfirsýn yfir eign, notkun og þekkingu Háskóla Íslands á tölvubúnaði og stuðla að hagstæðum og samræmdum innkaupum svo eitthvað sé nefnt.
Mikið breyst á hálfri öld
Reiknistofnun er ekki lengur reiknimiðstöð þjóðarinnar, heldur er hún orðin að þekkingar- og þjónustumiðstöð sem leggur aðaláherslu á þjónustu við háskólasamfélagið. Magnús segir að starfsemin hafi breyst mikið á síðastliðnum 50 árum. „Í upphafi snérist hlutverkið í kringum vísindaleg og verkfræðileg rannsóknaverkefni og störfuðu einungis tvo starfsmenn í kringum eina tölvu í hlutastarfi. Vísindamenn unnu við að reikna það sem erfitt var að reikna í höndunum, forrita líkön og önnur gögn, auk þess að sinna kennslu á forritun.
Í dag starfa u.þ.b. 35 manns hjá stofnuninni í hinum mismunandi deildum, þ.e kerfisdeild, hugbúnaðarþróun, notendaþjónustu og í vefhóp.“ segir Magnús. Þar að auki sér Reiknistofnun um að veita öfluga þjónustu við aðrar ríkisstofnanir og deildir. „Fyrst og fremst er stofnunin þó tölvuþjónusta fyrir nemendur og starfsmenn skólans og rekur allt tölvu-, net- og símkerfi Háskóla Íslands“, segir Magnús.
Alþjóðlegt samstarf
Reiknistofnun hefur ávallt verið í miklum alþjóðlegum samskiptum við fyrirtæki og stofnanir hér og þar í veröldinni. Stofnunin er meðal annars aðili að NORDUnet, samtökum mennta- og rannsóknaneta á Norðurlöndum. Fyrir þremur árum var árleg ráðstefna NORDUnet haldin í Háskóla Íslands og hafði RHnet og HÍ veg og vanda af ráðstefnuhaldinu með dyggri aðstoð starfsmanna Reiknistofnunar og NORDUnet ásamt HR, Landgræðslu ríkisins og nokkrum nemendum HÍ. Þótti hún takast vel og hana sátu 220 manns. Ári seinna, í nóvember 2012, var haldin önnur árleg ráðstefa, Terena samstarfsvettvangs rannsókna—og háskólaneta í Evrópu. Þetta var í fyrsta sinn sem ráðstefnan var haldin hér á landi, en hún er ein sú stærsta og virtasta á sínu sviði í Evrópu. Á sjötta hundrað innlendir og erlendir sérfræðingar í net- og upplýsingakerfum sóttu ráðstefnuna.
Ritað af Drífu Viðarsdóttur, meistaranema í blaða- og fréttamennsku við HÍ 2014