Stundum kemur það fyrir að óprúttnir aðilar komast yfir aðgangsupplýsingar notanda og skrá sig inn á pósthólfið hans til þess að senda út ruslpóst. Þegar notandinn hefur breytt lykilorðinu sínu og endurheimt aðganginn kemur oft í ljós að póstregla er virk í pósthólfinu sem gerir það að verkum að öll innkomin skeyti fara beint í ruslið eða áframsendast á annað netfang.
Leiðbeiningarnar hér fyrir neðan sýna hvernig hægt er að fjarlægja óæskilegar póstreglur. Þetta þarf að gera í Outlook á vefnum frekar en í póstforriti af því að póstforrit hafa ekki aðgang að öllum stillingum pósthólfsins.
1) Opnaðu vafra og farðu inn á outlook.hi.is. Skráðu þig inn ef þú ert ekki nú þegar innskráð/ur.
2) Smelltu á tannhjólið uppi í hægra horninu og svo neðarlega á „Sjá allar stillingar í Outlook“:
3) Þá opnast stillingavalmyndin. Veldu þar „Póstur“ og svo „Reglur.“ Þarna birtast allar póstreglur sem eru uppsettar í pósthólfinu þínu. Ef þú sérð einhverja óæskilega reglu sem þú vilt losna við geturðu ýtt á ruslafötuna til að eyða henni:
4) Ýttu á "Í lagi" til að staðfesta að þú viljir eyða reglunni:
5) Núna ætti reglan að vera farin út og mun ekki lengur hafa áhrif á pósthólfið. Athugaðu að breytingin er ekki afturvirk þannig að póstur sem reglan gæti hafa flutt í ruslmöppu mun ekki færast sjálfkrafa í innhólfið.