Eyða póstreglu í Outlook

Stundum kemur það fyrir að óprúttnir aðilar komast yfir aðgangsupplýsingar notanda og skrá sig inn á pósthólfið hans til þess að senda út ruslpóst. Þegar notandinn hefur breytt lykilorðinu sínu og endurheimt aðganginn kemur oft í ljós að póstregla er virk í pósthólfinu sem gerir það að verkum að öll innkomin skeyti fara beint í ruslið eða áframsendast á annað netfang.

Leiðbeiningarnar hér fyrir neðan sýna hvernig hægt er að fjarlægja óæskilegar póstreglur. Þetta þarf að gera í Outlook á vefnum frekar en í póstforriti af því að póstforrit hafa ekki aðgang að öllum stillingum pósthólfsins.

1) Opnaðu vafra og farðu inn á outlook.hi.is. Skráðu þig inn ef þú ert ekki nú þegar innskráð/ur.

2) Smelltu á tannhjólið uppi í hægra horninu og svo neðarlega á „Sjá allar stillingar í Outlook“:

Myndin sýnir hvar stillingarnar eru opnaðar á outlook.hi.is. Smellt er á tannhjólið efst á síðunni til hægri, þá opnast stillingavalmynd beint fyrir neðan, mjög neðarlega í þeirri valmynd er hægt að smella á "Sjá allar stillingar í Outlook."

3) Þá opnast stillingavalmyndin. Veldu þar „Póstur“ og svo „Reglur.“ Þarna birtast allar póstreglur sem eru uppsettar í pósthólfinu þínu. Ef þú sérð einhverja óæskilega reglu sem þú vilt losna við geturðu ýtt á ruslafötuna til að eyða henni:

Myndin sýnir hvar stillingar fyrir póstreglur eru staðsettar í stillingavalmyndinni á outlook.hi.is. Smellt er á "Póstur" í lista til vinstri og svo "Reglur" í næsta lista til hægri, þá opnast valmynd sem sýnir allar póstreglur sem eru uppsettar í pósthólfinu.

4) Ýttu á "Í lagi" til að staðfesta að þú viljir eyða reglunni:

Myndin sýnir lítinn glugga sem birtist þegar smellt er á ruslafötuna til að eyða reglu. Glugginn biður um staðfestingu frá notanda um að hann vilji örugglega eyða reglunni, valmöguleikar eru "Í lagi" og "Hætta við."

5) Núna ætti reglan að vera farin út og mun ekki lengur hafa áhrif á pósthólfið. Athugaðu að breytingin er ekki afturvirk þannig að póstur sem reglan gæti hafa flutt í ruslmöppu mun ekki færast sjálfkrafa í innhólfið.