RHÍ Fréttir

nr. 35 apríl 1999

 

Nýr innhringibúnaður fyrir nemendur

 

Verið er að taka í notkun nýjan inn-hringibúnað fyrir nemendur. Þessi búnaður er mjög fullkominn og hraðvirkur. Hann styður m.a. ISDN tengingu (samnet). Innhringilínur í þessum búnaði eru mun fleiri en í þeim gamla, þannig að notendur eiga nánast alltaf að fá samband í fyrstu tilraun.

Notagildi

Með því að nýta sér innhringisamband við Háskóla Íslands geta nemendur hans tengst háskólanetinu/Internetinu frá sínum heimilum. Með þessari tengingu geta notendur nýtt sér þá netþjónustu sem Reiknistofnun býður upp á eins og t.d: tengingu við heimasafn, vefsíðusvæði, tölvupóst, veraldarvefinn, fréttagrúppur (Use-net), skráarflutning með FTP og telnet. 

Verð

Hver hálftími sem nemandi er tengdur við innhringikerfið kostar eina einingu (sjá uppl. fyrir neðan). Sama verð er á mótaldstengingu og samnetstengingu (ISDN). 

Einingar

Nemandi fær 100 einingar fríar í fyrsta skipti sem hann skráir sig í Háskólann. Fyrir þessar einingar er bæði hægt að prenta út á geislaprentara í tölvu-verum Reiknistofnunar sem og hringja í innhringikerfi Reiknistofnunar. Hver eining kostar tæpar 10 krónur og gildir sem annað hvort eitt útprentað blað eða sem tenging í hálftíma í innhringisambandinu. 
Hægt er að kaupa einingar hjá Nemendaskrá Háskólans, fyrstu hæð í Aðalbyggingu. Það verður að kaupa lágmark 50 einingar (tæplega 500 krónur) í hvert skipti. 

Nánari upplýsingar er að fá á:

http://www.rhi.hi.is/net/innhringi/index.html

Kennsluskrá HÍ Í UKSHÍ

 
Kristján Þór Kristjánsson
kiddi@rhi.hi.is
 
Gerðar hafa verið þær breytingar í UKSHÍ, Upplýsingakerfi Stjórnsýslu
Háskóla Íslands, að þar er nú hægt að geyma námskeiðaupplýsingar kennsluskrár HÍ. Áður voru ein-göngu grunnupplýsingar varðandi námskeið geymdar þar en nú hefur verið bætt við svæðum til að varðveita gögn kennsluskrár (lýsingar á námskeiðum, kennarar, námsmat og fleira). Þetta gerir það að verkum að starfsfólk nemendaskrár og deildaskrifstofa geta haldið til haga nýjustu upplýsingum um námskeið og fært þær í gagnagrunninn. Þetta þýðir að að einungis þarf að gera breytingar á námskeiðum einu sinni. 
Áfram verður það þó eingöngu í höndum nemendaskrár að stofna ný námskeið og eyða þeim sem þarf.

Aðgangur deildaskrifstofa að kennsluskrárupplýsingum er í gegnum deildahluta nemendakerfis og hefur verið bætt við kerfið forritseiningu sem leyfir notendum að uppfæra upplýsingar í námskeiðaskrá kerfisins. Allar nánari upplýsingar eru að finna í Handbók Nemendakerfis HÍ fyrir deilda-skrifstofur, sem dreift hefur verið til allra notenda kerfisins.

Á UKSHÍ vef (https://keilir.rhi.hi.is) hafa samsvarandi breytingar átt sér
stað. Þar sem áður var hægt að skoða grunnupplýsingar um nám-skeið er nú að auki hægt að skoða kennsluskrárupplýsingar (sjá mynd 1), svo fremi sem þær hafa verið settar inn. Fjölbreyttari valmögu-leika á að velja námskeið hefur einnig verið bætt  inn. Áfram verður hægt að keyra einkunnalista nemenda frá námskeiðum.

Þegar námskeiðalýsingar hafa verið settar inn munu nemendur síðan geta nálgast kennsluskrána á háskólavefnum. Slóðin verður auglýst síðar.
Nemendur munu hins vegar ekki hafa beinan aðgang í gagnagrunninn til að fletta upp námskeiðum, heldur verða á hverri nóttu lesnar kennsluskrárupplýsingar í skrá sem nemendur geta síðan nálgast í gegnum vefinn. Þannig er best hægt að tryggja öryggið. Kennsluskrá sem nemendur skoða á vefnum verður því aldrei meira en dagsgömul.

 

Efnisyfirlit Fyrri síða Næsta síða Útgáfuyfirlit