RHÍ Fréttir

nr. 35 apríl 1999

Mörg verkefni framundan

 

Þorkell Heiðarsson
thorkell@hi.is


Á haustdögum tók Sæþór L. Jónsson við starfi forstöðumanns RHÍ af fyrirrennara sínum Douglas A Brotchie, sem gegnt hafði starfinu s.l. 7 ár. Ritstjóra RHÍ Frétta fannst tilvalið að taka Sæþór tali og ræða við hann um nýja starfið og kynna hann fyrir lesendum.

Bakgrunnur

Sæþór er verkfræðingur að mennt, en lauk fyrst prófi í vélvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1968 og í framhaldi BSc prófi í véltæknifræði frá tækniskólanum í Odense. Síðar tók hann BSc próf í orkuverkfræði frá háskólanum í Álaborg 1990 og lauk síðan MScEE námi í rafeindaverkfræði frá sama skóla 1992.
Sæþór vann í um 20 ár hjá Orkustofnun en byrjaði að starfa hjá RHÍ í árslok 1994. Þar var hann deildarstjóri net- og kerfisdeildar þar til hann tók við starfi forstöðumanns. Helstu áhugamál Sæþórs eru ljósmyndun og golf.

Þróunin síðustu ár

Sæþór segir að í upphafi starfa sinna hjá RHÍ hafi mikill tími farið í vinnu við bilanaleit og viðgerðir. Frá þeim tíma hafi verið unnið markvisst að endurbótum og uppbyggingu innviða háskólanetsins. Því sé ástandið nú gjörbreytt í þeim húsum þar sem endurbótum er lokið og starfsmenn RHÍ þurfi í raun aðeins að koma á staðinn til þess að tengja nýjar tölvur - þessu starfi sé þó enn ólokið og mikilvægt sé að ljúka endurbótum í sem flestum húsum sem fyrst.

Er staða netmála Háskólans ásættanleg í dag?

Að mati Sæþórs hefur Háskóla Íslands ekki tekist að fylgja eftir tækniþróuninni í netmálum að því leyti að netmænan (backbone) er enn með sömu afköst og í upphafi. Háskólinn búi að góðu grunn-ljósleiðaraneti, sem var myndarlegt verk frumkvöðlanna, en endurnýja þurfi endabúnað s.s. leiðstjóra (beinir) og netstjóra. Sæþór bendir á að í Evrópu og Bandaríkjunum séu flestir háskólar komnir með 100 eða 1000 mbit/sek skipt (swissed) grunnnet (campus backbone) á meðan Háskólinn sé enn með 10 mbita sameiginlegt (shared) grunn-net. Um þessar mundir eigi Háskólanetið 10 ára afmæli og því sé ekki að undra að búnaðurinn sé að verða úreltur. Hann telur að sérstaks átaks sé þörf af þessu tilefni og einnig sé nauðsynlegt að gefa því gaum að þessi búnaður er í fæstum tilfellum 2000 samhæfður.

Hvernig standa tölvumál nemenda í dag?

Sæþór bendir á að ástandið í tölvuverum háskólans hafi batnað mikið á síðustu 3-4 árum þótt enn sé langt í að eftirspurn sé annað. Þannig hafi fjöldi nemenda um hverja tölvu lítið breyst á þessu tímabili, en aðbúnaður og tölvu-kostur hafi batnað verulega. 

Stefnan í tölvumálum

Stefna háskóla í dag í tölvumálum er ekki eingöngu að fjölga tölvum í tölvuverum, heldur koma aðrar lausnir til, segir Sæþór. Hann bendir á að raunar séu til skólar sem eru að fækka tölvum í tölvuverum. Það sem áhersla er lögð á er að nemendur geti tengt sínar tölvur, t.d. fartölvur, ýmist í hópvinnuherbergjum, í fyrirlestrasölum undir fyrirlestri og sem víðast þar sem þeir hafa vinnuaðstöðu. Sæþór segir ástæðuna fyrir þessari þróun líklega vera hraða úreldingu tölvubúnaðar sem hafi valdið því að þessum skólum hafi ekki tekist að halda í við þróunina. Dæmi er um tækniháskóla í Bandaríkjunum sem miðar að fækkun fastra vinnustöðva á næstu árum og hefur gangsett svo kallað "Laptop program" (kjöltutölvuátak) sem á að gera stúdentum kleyft að eignast fartölvu á góðum kjörum í kjölfar útboðs. Sæþór bendir á að slíkt mætti hugsanlega gera hér, t.d. í gegnum innkaupastjóra háskólans. 
Sæþór segir þó ljóst að þessar nýju leiðir komi ekki í stað tölvuvera, en gætu minnkað þörfina fyrir sífellda fjölgun þeirra.

Nýjum áföngum náð

Sæþór segir að árum saman hafi verið unnið að því að koma á tengingu íbúða á stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta við há-skólanetið. Á vormánuðum muni þessu langþráða takmarki loks verða náð og muni það auka mjög mögu-leika þessara stúdenta á að stunda nám heiman frá sér. Þetta er samvinnuverkefni Félagsstofnunar stúdenta og HÍ, þar sem Háskólinn sér um ljósleiðaratengingu eins húss við Eggertsgötu og endabeini í það hús, en FS sér um dreifingu og rekstur netsins milli annara húsa. Unnið er að hönnun millihúsanetsins og gera má ráð fyrir að taka það í notkun í áföngum. Verulega verður treyst á íbúa stúdentagarðanna
með daglegan rekstur netsins. 
Nú sé einnig nýlokið því verki að stór-bæta innhringi-þjónustu nemenda en eldra innhringi-kerfi hafi verið gengið sér til húðar fyrir löngu. Nýja kerfið muni enn auka möguleika stúdenta á námi heima við.

Símamál Háskólans

Á háskólaráðsfundi 28 janúar s.l. var lagt til að RHÍ tæki við rekstri símakerfis Háskólans og að stefnt yrði að því að reksturinn stæði undir sér. Á síðastliðnu ári var tekið í notkun nýtt símkerfi, sem meðal annars gerði það kleyft að setja upp nýjan innhringibúnað fyrir starfsmenn og nemendur segir Sæþór. Kerfið er af gerðinni Alcatel 4400 og býður alla nýjustu tækni á þessu sviði. Sæþór segir að í framhaldi þessa hafi útstöðvar verið settar upp í nokkrum byggingum Háskólans og þær ljósleiðaratengdar sem gerði það að verkum að hægt var að segja upp fjölda leigulína á háskólasvæðinu. Þá hefur tekið til starfa á Reiknistofnun nýr símamaður Bjarni Guðnason, en Jóhannes Sigmarsson hætti störfum fyrir jól.

 

Efnisyfirlit Næsta síða Útgáfuyfirlit