RHÍ Fréttir

nr. 33 mars 1998

 

Hvað er þetta Java?

 

Kristján Þór Kristjánsson         Chabane Ramdani
kiddi@hi.is                                  chr@hi.is

 


Þegar verið er að hlaða inn vefsíðum má oft sjá neðst á þeim 'Starting Java...'. Í framhaldi af því hafa eflaust einhverjir velt fyrir sér orðinu 'Java' og hvað það feli í sér. Og hvað er þetta Java? Hér á eftir verður stuttlega greint frá forsögu Java og grundvallaratriðum þess. Þá verður einnig skoðað hvernig þessi nýjung gæti nýst í tengslum við UKSHÍ - Upplýsingakerfi Stjórnsýslu Háskóla Íslands.


Forsagan í grófum dráttum

Árið 1990 var maður að nafni Patrick Naughton orðinn leiður á starfi sínu hjá tölvufyrirtækinu Sun í Banda-ríkjunum. Hann hafði fengið nóg af að þjónusta og uppfæra hundruð mismunandi hugbúnaðareiningar fyrir fjölmarga notendur og hafði því ákveðið að hætta. Yfirmaður hans og vinur vildi reyna að halda honum í starfi og bað hann um að skrifa skýrslu um þau vandamál sem hann stæði frammi fyrir og koma síðan með tillögu að lausn þeirra "eins og hann væri Guð". Þessi skýrsla rataði til æðstu yfirmanna og var samþykkt að stofna vinnuhóp sem hefði það eina markmið að skila af sér einhverju sem væri bæði nýtt og "svalt".

Vinnuhópurinn hófst handa við að þróa nýtt hlutbundið forritunarmál (byggt á C++) sem í fyrstu var nefnt Oak, en breyttist seinna í Java, eftir kaffitegund sem var vinsæl hjá hópnum. Árið 1994 þegar Internetið var að stíga sín fyrstu spor var ákveðið að nota tækifærið og útfæra Java fyrir Vefinn og láta forrit og forritlinga í Java keyra í Vefskoðurum í stað þess að takmarka þau við ákveðna tegund vélbúnaðar. Síðan hefur þróunin haldið áfram og sér ekki fyrir endann á henni.


Grundvallaratriði Java

Það sem gerir Java frábrugðið öðrum forritunarmálum er að það er óháð vélbúnaði. Sama Java forritið keyrir á öllum vélum (PC, Macintosh, ...) svo framarlega sem vélin hefur vefskoðara (e. web browser) sem styður Java (e. Java-enabled). Allir algengustu vefskoðarar í dag styðja Java.
Lykillinn að því að Java forrit keyri á mismunandi vélbúnaði er svo kallaður Java túlkur. Þegar Java forrit er skrifað og þýtt (e. compile), gerist það að Java þýðandinn umbreytir ekki forritskóðanum í vélamál sem vélbúnaður við-komandi tölvu skilur, heldur í vélamál fyrir hina svokölluðu Java sýndarvél (e. Java Virtual Machine). Java sýndarvélin er hugbúnaður og keyrir sem forrit á vélbúnaði tölvunnar. Það er því hlutverk Java túlksins að aðlaga vélamál Java sýndarvélarinnar að vélamáli þeirrar tölvu sem notuð er. Þetta gerir það auðvitað að verkum að hver tegund tölva hefur sinn eigin Java túlk.
Til eru aðallega tvær tegundir af Java forritum, Java forritlingur (e. Java script) og Java forrit (e. Java application). Java forritlingar eru lítil forrit sem sinna litlu og afmörkuðu hlutverki á vefsíðum, en Java forrit eru hins vegar heildstæð og geta í raun allt það sem forrit skrifuð í öðrum forritunarmálum geta, auk þess að keyra á öllum tegundum vélbúnaðar.


Java og UKSHÍ

Áramótin 1996-1997 voru gerðar athuganir á hvernig Java gæti nýst Reiknistofnun fyrir þróun á UKSHÍ. Í fyrstu leit út fyrir að Java gæti innihaldið lausn á mörgum vandamálum sem hugbúnaðarþróun í biðlara/miðlara umhverfi glímir við. Má þar helst nefna hugtakið "léttur biðlari" (e. thin client), sem felur í sér að vélbúnaður notanda þarf aðeins að sjá um birta gögn, en viðfangsþjónn (e. application server) og gagnagrunnsþjónn sjá um útreikninga og miðlun gagna. Þessi létti biðlari gæti keyrt á meðalgóðum
tölvum og væri ekki kröfuharður á vélbúnað. Einnig yrði viðhaldskostnaður lægri þar sem allar uppfærslur á forritum yrðu á einum stað, í stað þess að þurfa að uppfæra hjá hverjum og einum notanda. Þá má einnig taka til aðra
kosti Java forritunarmálsins. Um er að ræða framtíðar forritunarmál sem er hlutbundið og óháð vélbúnaði. Java forrit bera ekki með sér vírusa og hægt er að þróa það á einum stað og keyra alls staðar. Java vext hratt og hafa helstu tölvufyrirtæki og hugbúnaðarhús heims lýst yfir stuðningi við það.

Þrátt fyrir marga kosti Java var ákveðið að fresta frekari þróun og tilraunum á UKSHÍ í því. Ástæður þess eru nokkrar. Helst má nefna að þróun á JDBC (Java DataBase Connectivity) miðbúnaði (e. middleware) var skammt á veg komin. JDBC er sá hugbúnaður sem sér um tengingu Java forrits við gagngrunn. Sjálft forritunarmálið Java var enn á þróunarstigi og virtist ekki keyra eins á mismunandi vélum notenda RHÍ. Loks má nefna að þróunarumhverfi Java var að nokkru leyti gallað og þau forrit sem smíðuð voru reyndust mjög þung í keyrslu á venjulegum vinnustöðvum.

Það var því ljóst að til að keyra Java þyrfti öflugri vélbúnað en notendur okkar voru með. Þá þyrfti einnig að fjárfesta með kaupum á miðbúnaði frá þriðja aðila (auk hugbúnaðar frá þróunaraðila Java þróunarumhverfis og frá gagnagrunnsframleiðanda) til að nálgast UKSHÍ gagnagrunninn á Informix. Miðbúnaður þessi var eingöngu fyrir PC vélar og auk þess var óljós framtíð fyrirtækisins sem seldi búnaðinn. Niðurstaða þessarar athugunar var því að fresta þróun í Java fyrir UKSHÍ þar til Java væri búið að slíta barnsskónum.


Að lokum

Java er í dag notað af mörgum stórum fyrirtækjum og til mismunandi verkefna. Dæmi um kerfi sem forrituð eru í Java er ráðstefnukerfi á vegum American Information Systems. Þá var í tengslum við ferð Pathfinders til Mars útbúinn hermir sem leyfir notendum Vefsins að setjast við stýri könnunarjeppans og fara í sinn eigin könnunarleiðangur á Mars.

Nú er Java í útgáfu 1.1.5 og hefur margt breyst til betri vegar frá útgáfu
1.0. Einnig eru JDBC reklar að verða áreiðanlegri.

Hugmyndin í kringum Java er mjög góð. Það er því rétt að fylgjast vel með því sem er að gerast í Java heiminum því komandi tímar lofa góðu.

 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð