RHÍ Fréttir | nr. 33 mars 1998 |
Hvað er þetta Java? |
|
Eftir Mark Weiser
|
|
Permission to make digital/hard copy of part or all of this work for personal or classroom use is granted without fee provided that copies are not made or distributed for profit or commercial advantage, the copyright notice, the title of the publication and its date appear, and notice is given that copying is by permission og ACM, Inc. To copy otherwise, to republish, to post on servers, or to redistribute to lists requires prior specific permission and/or fee. Birt með leyfi ACM Inc.
|
|
Hér á eftir birtist grein sem tekin er úr nýjasta tölublaði Communications of the ACM. Þessi athyglisverða grein fjallar um framtíð tölvunotkunar í háskólaumhverfinu og þróun þess hingað til. Ritstj. Þráðlaus samskipti verða mikið notuð við að tengja saman hina fjölbreytilegu starfsemi óteljandi tölva allt í kringum okkur. Háskólaumhverfið er að öllu jöfnu vel afmarkað og það ætti að auðvelda þá samtengingu mikið. Brátt ríður yfir okkur þriðja holskefla tölvubyltingarinnar miklu. Óhætt er að fullyrða að háskólamenn hafi frá upphafi verið í fylkingarbrjósti tölvubyltingarmanna. Við getum sagt sem svo að fyrsta bylgjan hafi riðið yfir okkur með stórtölvunum. Háskólarnir urðu sér úti um tölvur hið bráðasta og komu þeim fyrir í miklum vélasölum með glerveggjum svo að stúdentar, háskólakennarar, rannsóknarmenn, skrifstofufólk og stjórnendur gætu haft gagn af hinni nýju tækni sem fyrst. Háskólarnir notuðu stór-tölvurnar við stundaskrárgerð og voru á undan flestum greinum iðnaðar við að hagnýta þær við smíði eðlisfræðilegra líkana. Þjónusta var áberandi þáttur í sambúð okkar og tölvanna á þessu sviði: Þær voru dýrar, þær voru óvíða til og við þjónuðum þeim. Segja má að önnur bylgjan hafi kaffært okkur algerlega og að langur tími muni líða þar til hún verði gengin yfir. Önnur bylgjan er að sjálfsögðu innreið einmenningstölvanna. Tölvur (ásamt skjám) vega nú í mesta lagi örfáa tugi kílóa en voru áður tugir tonna. Námsmenn og háskóla-kennarar hafa yfirleitt ráð á að minnsta kosti einni einmenningstölvu og auk þess hafa þeir flestir aðgang að mörgum tölvum á víð og dreif um húsakynni háskólanna. Stundum finnst okkur reyndar að við séum of háð tölvunum. Við óskum þess að við kæmumst af án þessarar nýju tækja sem eru bæði erfið í meðförum, hávaðasöm, óáreiðanleg og - ómissandi. Fæstir háskólar hafa enn lagað sig að fullu að þeim nýju aðstæðum sem fylgja öllu þessu og á því er ekki nokkur vafi að tölvubylgjan á eftir að rísa hærra áður en hún fer að sjatna. Kennurum og nemendum er nota fistölvur við dagleg störf fjölgar statt og stöðugt. Þriðja aldan er rétt um það bil að rísa, en þar er um að ræða fjölnotkun tölvanna. Nú er þegar svo komið að tölvur eru algengar í úrum, brauðristum, bílum, ofnum, peningaveskjum og meira að segja í sumum kennikortum (ID cards) sem notuð eru í háskólum. Við sjáum það fyrir að tölvurnar muni flæða yfir allt, þær muni tala saman og mynda einhverskonar bakgrunn eða undirstöðu ótal fyrirbrigða er snerta daglegt líf okkar. Tengsl okkar við tölvurnar verða alveg öfug við það sem var á tímum stórtölvanna, þær verða ódýrar, þær verða allsstaðar og þær munu þjóna okkur. Háskólarnir verða tvímælalaust alveg sérstaklega heppilegir staðir fyrir fjölnotkun tölva. Þráðlaus samskipti verða mikið notuð við að tengja saman hina fjölbreytilegu starfsemi óteljandi tölva allt í kringum okkur. Háskólaumhverfið er að öllu jöfnu vel afmarkað og það ætti að auðvelda þá samtengingu mikið. Einn öflugasti hvatinn að fjölnotkun verður án efa alnetið. Vefurinn er í rauninni aðferð sem menn hafa sameinast um fyrir tjáskipti tölva. Tölvunotendur verða að kunna skil á TCP/IP, http og html. Nú á dögum dugir tölva búin 8 bita örgjörva ágætlega sem netþjónn fyrir sérhæfðar vefsíður. Kostnaðurinn er á milli 700 og 800 krónur. Vegna tilkomu þessa samskiptaháttar má gera ráð fyrir að kostnaður við að koma upp sérhæfðum vefþjónum eigi enn eftir að skreppa mikið saman. Eftir 10 ár kostar það að öllum líkindum ekki nema örfáa tugi króna. Fyrstu merkin um fjölnotkun tölva eru þegar sýnileg. Litlar handtölvur eru um það bil að flæða yfir heimsbyggðina. Þær geta ekki eins margt og forverar þeirra fyrir nokkrum árum, en þær eru ódýrari og það sem þær kunna gera þær miklu betur. Til að átta okkur á því hvernig það getur verið kostur að geta minna, skulum við hugsa okkur eldhús með einu tæki sem gerir allt sem þar fer fram, sýður og steikir, lagar te og kaffi, hnoðar deig og bakar, sker lauk og hakkar kjöt og fisk, ristar brauð og sér um uppþvottinn. Þetta tæki yrði óhjákvæmilega mjög flókið og þungt og hætt er við að húsmóðirin yrði fljótt gigtveik. Auðséð er að það er miklu betra að hafa mörg tæki í eldhúsinu, eins og alltaf hefur verið. Þannig verður þetta einnig með tölvurnar. Hundruð mismunandi tölva munu þjóna okkur dyggilega. Hver þeirra verður hönnuð þannig að hún ræður bara við eitt eða örfá verkefni, en hún leysir þau hins vegar afar vel af hendi. Inni í hverri þeirra verður venjulegt, ósérhæfð tölvuverk, en allur ytri búnaður verður, öfugt við heimilistölvur vorra tíma, alveg greinilega hannaður fyrir eitthvert ákveðið verkefni. Við berum á okkur peningaveski með krítarkortum, debetkortum og afsláttarkortum hvert sem við förum. Hugsum okkur, rétt sem snöggvast, að á hverju þessara korta sé bjartur skjár með skýrri og fallegri mynd og meðfram einni röndinni séu nokkrir takkar. Hvaða gagn væri hægt að hafa af slíku korti? Sá sem væri með ratkort háskólans upp á vasann þyrfti aldrei að vera í vafa um hvar hann væri staddur í húsakynnum skólans og fyndi fljótt þá staði sem hann þyrfti að komast á. Hann gæti sem hægast látið boð berast inn á ratkort sem vinur hans væri með í sínum fórum og þá gætu þeir mælt sér mót. Stundaskrárkort væri þarfur gripur. Með því væri ævinlega hægt að komast að því í hvaða stofu þessi eða hin kennslustundin á að vera. Það gerði ekkert til þótt tiltekinn kúrs væri í ýmsum stofum sitt á hvað. Allar slíkar breytingar verða auðveldar og átakaminni þar sem tölvuvæðing er fullkomin og nemendurnir komnir með stundakrárkort sér til hagræðis. (Þessi breyting er af sama tagi en gengur lengra en sú breyting sem sumsstaðar hefur þegar orðið, þ.e. að kenna allar greinar í einni kennslustofubyggingu samkvæmt tölvuvæddu og miðstýrðu skipulagi, í stað þess að kenna hverja grein í sinni kennslustofu eða stofu viðkomandi deildar). Matarkort myndi ekki einungis gagnast við matarkaup, heldur gæti það komið að góðu gagni við að skipuleggja persónulegan matseðil. Á því væri hægt að lesa matseðilinn á veitingahúsunum í grenndinni. Þar væri einnig hægt að sjá hve lengi þyrfti að bíða eftir borði. Slíkt kort gæti gagnast bæði vertinum og viðskiptavininum. Hver nemandi á tilteknu námskeiði í háskóla fengi sérstakt kort því tilheyrandi sem gæti hjálpað honum á ýmsa vegu: Hann kæmist að því hvað hann ætti að læra undir næsta tíma, hvenær hann ætti að mæta og svo gæti hann komist í samband við aðra í hópnum. Nemendur yrðu minntir á próf í tæka tíð og kortið gæti sem hægast beint upplýsingum um næsta heimaverkefni þráðlaust inn á heimatölvur þeirra. Kort í veskjum nemenda yrðu ekki einu ummerkin um fjölnotkun tölva í háskólunum. Gera má ráð fyrir skjám sem þekja heila veggi og rafeindapennum sem margir geta notað. Slíkur útbúnaður gæti gagnast mjög vel fyrir hugmyndaflæðisfundi á síðkvöldum. Hægt væri að varpa hinum stórkostlegu hugmyndum upp á vegg og allir hefðu gagn af. Eitt af lykilatriðunum í sambandi við fjölnotkun tölva er sá möguleiki að draga úr streitu og margskonar óþægindum í umhverfinu. Ýmislegt, sem fer í taugarnar á okkur í daglega lífinu (langar biðraðir, það að koma of seint í tíma eða missa af heimaverkefnum, að finna ekki vini sína sem maður átti von á að hitta), gerist að öllum líkindum sjaldnar þegar þessi nýja tækni verður komin í gagnið. En ef það á að takast, verður að vera hægt að halda tækninni í bakgrunni. Við getum sagt sem svo að tæknin og útbúnaðurinn megi taka ákveðið rými í útjaðri skynjunar okkar en megi ekki færast inn á sviðið. Við eigum að geta beint athyglinni óhindrað að því sem við erum að fást við, hvort sem það er verkefni fyrir næstu kennslustund eða samtal við kunningja, meðan tölvan vinnur sín verk í kyrrþey. Jafnframt því sem allur aðgangur að upplýsingum verður greiðari, má búast við að kröfur um að umhverfið sé bæði fallegt, þægilegt og viðkunnanlegt verði háværari. Fyrir háskólana kann þetta að tákna að það afdrep sem þeir veita og mótvægi það er þeir bjóða gegn daglegu amstri viðskiptalífs og heimilislífs verði það sem veitir þeim mest aðdráttarafl á komandi tímum. Háskólakennarar geta, fyrir tilstilli tölvutækninnar, flutt fyrirlestra sína á einum stað þótt nemendurnir séu dreifðir víða. En það sem tölvurnar geta ekki miðlað eru þægilegir stólar, notalegt andrúmsloft bókasafnanna og samræður yfir kaffibolla eftir að fyrirlestri lýkur, þar sem menn bera saman bækur sínar og tileinka sér lærdóminn fyrst að gagni. Því er ekki að neita að fjölnotkun tölva getur haft í för með sér ýmsar hættur. Ein sú skæðasta er að sjáfsögðu sú að friðhelgi einkalífsins kynni að fara fyrir lítið. Tölvurnar í kringum okkur munu í framtíðinni vita miklu meira um það hvar við höldum okkur og hvað við aðhöfumst heldur en nú er. Sá sem þá hefur áhuga á að fylgjast með ferðum okkar á auðveldan leik ef ekkert er gert til að tryggja öryggi. Tæknilega séð er enginn vandi að ábyrgjast leynd upplýsinga, en að því er lítið gagn ef viljann vantar til að hagnýta tæknilegar lausnir í öllum tölvum. Við verðum að tryggja vandlega leynd allra persónulegra upplýsinga í öllum tölvum án tillits til þess hverjir eiga þær. Ef háskólinn kemur sér upp búnaði fyrir fjölnotkun tölva, verður að vera tryggt að upplýsingar kerfisins um mig séu mín eign og einskis annars. Í dag er engin trygging fyrir slíku. Á næstu tveimur áratugum eða svo má gera ráð fyrir að fjölnotkun tölva ryðji sér til rúms um víða veröld og að tímabil einmenningstölvanna líði í aldanna skaut. Mikil áhersla verður lögð á friðhelgi einkalífsins. Um þau mál munu fjalla framsýnustu menn háskólanna, þeir sem beita sér í mannúðarmálum og fyrir stjórnmálalegri endurreisn. Að lokum munu einmenningstölvurnar hverfa af sjónarsviðinu sem persónulegir þjónar okkar og upplýsingar verða hvarvetna aðgengilegar. Ætla má að aðstaða til að miðla þekkingu, svo og lífsskilyrði okkar yfirleitt, batni að einhverju marki. |
|