RHÍ Fréttir

nr. 33 mars 1998

 

Um stöðu og þróun UKSHÍ

 
Kristján Þór Kristjánsson         Chabane Ramdani     Sigfús Jóhannesson
kiddi@hi.is                                  chr@hi.is                      sigfusj@hi.is


Hér á eftir verður gert grein fyrir helstu kerfum sem eru í þróun eða er viðhaldið hjá hugbúnaðardeild RHÍ. Saman mynda þessi kerfi UKSHÍ - Upplýsingarkerfi Stjórn-sýslu Háskóla Íslands. Þá verður stuttlega litið á þróunarumhverfið.

Yfirlit yfir kerfi

Hjá Reiknistofnun Háskólans er starfandi hugbúnaðardeild sem sér um þróun og viðhald á sérsmíðuðum kerfum stjórnsýslu HÍ. Þessi kerfi tengjast innbyrðis og því má líta á þau sem eitt heildar upplýsingakerfi. Helstu kerfin eru eftirfarandi:

Nemendakerfi

Á vegum kennslusviðs er unnið að þróun og viðhaldi nemendakerfis (NKHÍ). Kerfið heldur utan um allar námskeiðaskráningar nemenda í öllum deildum HÍ. Nemendakerfið samanstendur af nokkrum einingum, t.d. gjaldakerfi sem heldur utan um sölu yfirlita, vottorða, skólagjalda o.fl., og kerfi sem úthlutar nemendum notendanöfnum og aðgangsorðum.

Þá er sérstakur skoðunaraðgangur fyrir deildir, þar sem starfsmenn deilda geta skoðað námsframvindu nemenda og keyrt út lista. Einnig hafa starfsmenn LÍN aðgang að upplýsingum um nemendur sem taka lán hjá LÍN.

Nemendur geta nálgast upplýsingar um námskeiðaskráningar sínar á
vefslóðinni:
http://www.hi.is/HI/Stjorn/Kennsl/skraning.html
og einkunnir á slóðinni:
http://www.hi.is/HI/Stjorn/Kennsl/einkunn.html
Einkunnir eru uppfærðar tvisvar á dag en skráningar einu sinni á dag. Þegar fram líða stundir er stefnt að því að nemendur geti skráð sig í námskeið á Vefnum.

Starfsmannakerfi

Á vegum starfsmannasviðs er kerfi sem inniheldur upplýsingar um starfsmenn Háskólans, t.d. varðandi upphaf og lok ráðningar og framgang launa. Starfsmenn eru flokkaðir sem fastráðnir kennarar, stundakennarar, sérfræðingar osfrv. Kerfið heldur einnig utan um vinnuframlag kennara. Eins og fram kemur hér að neðan eru þessar upplýsingar síðan notaðar á UKSHÍ Vefnum

Handbók Háskólans

Samskiptasvið heldur utan um símakrá og aðsetur starfsmanna Háskólans. Þessar upplýsingar eru síðan notaðar fyrir útprentun á handbók Háskólans. Upplýsingar í handbókinni eru aðgengilegar á /Stjorn og eru þær uppfærðar daglega.

Þjóðskrárkerfi

Hægt er að skoða upplýsingar í þjóðskrá með sérstöku þjóðskrár-forriti. Einnig er komin vefútgáfa þjóðskrárforrits á UKSHÍ-Vefinn. Þjóðskráin er uppfærð 7.-10. hvers mánaðar. Reiknistofnun veitir aðgang að þjóðskrá.

UKSHÍ Vefurinn

Til að tengja saman gögn mismunandi kerfa HÍ var UKSHÍ Vefurinn smíðaður. Hér eru gagnagrunnarnir tengdir og hægt er að framkvæma fyrirspurnir þar sem tvö eða fleiri kerfi vinna saman. Að nota Vefinn á þennan hátt er mjög hentugt. Þannig er hægt á auðveldan hátt að búa til heildarkerfi sem er óháð vélbúnaði notenda og er bæði ódýrt og öflugt. UKSHÍ Vefurinn er nýtt kerfi sem veitir notendum skoðunaraðgang að upplýsingum úr starfsmannakerfi, þjóðskrá, nemendakerfi og bókhaldi.

UKSHÍ Vefurinn er í þróun og eru ekki allir hlutar þess tilbúnir. Í dag er t.d. hægt að skoða upplýsingar í þjóðskrá, fletta launafærslum starfs-manna og skoða kostnað á námskeið. Framundan er því þróun á uppflettingu upplýsinga um nem-endur, starfsmenn og námskeið.

Uppfletting á launafærslum og nám-skeiðskostnaði eru á vegum starfsmannasviðs og aðgangur að þeim hluta er veittur af þeim. Launafærslur starfsmanna eru uppfærðar mánaðarlega. Launa-færslur ásamt vinnuframlag kennara á námskeiði eru notaðar til að reikna út námskeiðskostnað. Til að reikna kostnað á þreytta einingu sækir kerfið upplýsingar um námskeiðaskráningar til kennslusviðs.

Á vegum fjármálasviðs er nú þegar í þróun uppfletting á bókhaldsgögnum og verður það tilbúið til notkunar innan skamms. Kerfið er langt komið og munu gögn verða uppfærð frá fjármálasviði daglega. Notendur UKSHÍ Vefsins eru starfsmenn allra deilda, sviða og stofnana Háskólans. Til þess að fá aðgang að kerfinu þarf að fá samþykki viðkomandi sviða, þar sem þau eru eigendur gagnanna.

Námsráðgjöf

Kerfi námsráðgjafar heldur utan um skráningu nemenda og annarra einstaklinga sem leita til náms-ráðgjafar. Þetta kerfi er á vegum námsráðgjafar og er einungis notað af þeim.


Þróunarumhverfi

Fyrir þá sem áhugasamir eru um tæknilegu hliðina eru hér helstu upplýsingar er varða þróunar-umhverfið. Nemendakerfið er þróað í Informix 4gl og keyrt á Unix og eru gögnin geymd á Informix Online Workgroup Server gagnagrunni á Solaris. Starfsmannakerfið er þróað og keyrt á 4th Dimension undir Macintosh og eru gögnin geymd í Informix gagnagrunni undir Unix. 4th Dimension á Macintosh og Informix eru tengd með 4D DAL á Macintosh og DAL Server sem keyrir á AIX.

UKSHÍ vefurinn er þróaður og keyrður með Informix 4gl ásamt Informix 4gl CGI library (Informix Webkits) undir Unix og eru gögnin geymd á Informix gagnagrunni undir Solaris.


Lokaorð

Ekki er hlaupið að því að finna eitt sameiginlegt notendaumhverfi fyrir öll undirkerfi UKSHÍ. Kemur þar helst til að bæði PC og Macintosh tölvur eru notaðar af deildum, sviðum og stofnunum Háskólans. Til að einfalda málið þyrfti helst að hafa eina tegund einkatölva eða að kerfin væru óháð vélbúnaði. Sem lausn á því vanda-máli var UKSHÍ Vefurinn smíðaður. Þar geta allir notendur skoðað upplýsingar án tillits til vélbúnaðar. En þar eru þær takmarkanir að einungis er um skoðunaraðgang að ræða. Í framtíðinni þyrfti að vera hægt að skrá upplýsingar jafnframt því að skoða þær.

Eins og staðan er í dag er Upplýsingakerfi Stjórnsýslu Háskólans mikið notað og með þeim viðbótum við UKSHÍ Vefinn sem fyrirhugaðar eru, verður myndin heildrænni og því þægilegt fyrir notendur að nálgast öll gögn á einum stað.

 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð