Þorkell Heiðarsson
thorkell@rhi.hi.is
Viðmælandi fréttabréfsins að þessu sinni er Dóra Hafsteinsdóttir, deildarstjóri
í Íslenskri málstöð. Annar titill hennar er orðabankastjóri, en hún er ritstjóri
orðabanka Íslenskrar mál-stöðvar.
Breytt tölvunotkun
Dóra hefur starfað hjá málstöðinni á þriðja ár og segir hún tölvunotkun sína
hafa breyst mikið. Fyrst var um dæmigerða ritvinnslunotkun að ræða, tölvan var
einskonar ritvél með skjá. Nú verður samskipta-notkunin sífellt fyrirferðarmeiri.
Orðabókagerðin sem áður var unnin í umbrotsforritum og gefin út á pappír hefur
nú færst yfir á netið. Dóra segist ekki eiga tölvuáhugann langt að sækja og hafi
hún lært snemma að hræðast ekki þessi tæki. Faðir hennar fór við þriðja mann
til Noregs að læra á tölvu þegar verið var að gangsetja Skýrsluvélar upp úr
1950. Sennilega voru þetta fyrstu Íslendingarnir sem lærðu á tölvu.
Hún segist oftast vita hvað hún vilji fá fram með tölvunotkun sinni. Þannig sé
lokatakmarkið ljóst, en leiðin þangað krefjist stundum aðstoðar sérfræðinga.
Gott dæmi um þetta sé orðabankaverkefnið þar sem hún hafi notið aðstoðar
Magnúsar Gíslasonar starfsmanns RHÍ við lausn vandamálanna.
Orðabankinn
Þann 15. október síðastliðinn var orðabanki Íslenskrar málstöðvar síðan
opnaður á netinu. Í honum er nú þegar að finna 15 íðorðasöfn (fræðiorðasöfn)
og meira en 60.000 flettiorð. Sem dæmi um orðasöfnin sem þarna er að finna má nefna
Bílorðasafn, Ættaskrá háplantna, Tölfræðiorðasafn, Orðalista LÍSU,
Íðorðasafn lækna, Sjávardýra-orðabók, Tölvuorðasafn og orðaskrá úr uppeldis
og kennslufræði. Á næstunni er síðan væntanleg Orða-skrá um eðlisfræði og
Raftækni-orðasafn. Í orðabankanum er síðan nýtt tölvuorðasafn sem mikill akkur er
í, enda bætist sérstaklega hratt við tölvuorðaforðann um þessar mundir.
Þægilegt viðmót
Orðabankinn skiptist í birtingarhluta og vinnsluhluta. Í birtingarhlutanum geta
notendur flett upp orðum og gert fyrirspurnir í þar til gerðum gluggum. Í
vinnsluhlutanum geta þeir sem vilja skrá inn ný orðasöfn eða breyta eldri söfnum
gert það í gegnum einkar notendavænt viðmót á vefnum. Þannig geta menn um allan
heim unnið að sama orðasafninu á mjög þægilegan máta. Dóra segir þetta
raunhæfan möguleika, nýlega hafi verið gerður samningur um samnorrænt orðasafn þar
sem hver þjóð vinnur að sínum hluta með því að nota áðurnefnt viðmót.
Vefnaður starfsmanna
Starfsmenn málstöðvarinnar hafa einnig ofið vef fyrir stofnunina. Að sögn Dóru
hefur þetta verið gert á síðastliðnum tveimur árum. Í fyrstu hafi þetta verið
nokkuð flókið, notað var telnet forrit og síðurnar skrifaðar beint á html máli,
en þetta hafi breyst mikið. Upp á síðkastið hafi hún notað Netscape Gold vefara,
en nú leiti hún að arftaka þess forrits þar sem henni þyki það vera orðið
nokkuð takmarkað. Hún segist hafa það að leiðarljósi við vefsíðugerð að vera
spör á grafíkina, enda finnist henni hraðinn skipta mestu máli.
Að lokum fara síðan nokkrar vefsíður sem vert er að gefa gaum að mati
Dóru:
www.ismal.hi.is/ob
Þetta er vefsíða orðabanka íslenskar málstöðvar.
www.ismal.hi.is
Hér er síðan heimasíða Íslenskrar málstöðvar. Þar má meðal annars finna
ráðgjöf um íslenskt mál og lista yfir orðanefndir og íðorðasöfn.
www.logos.it/
Hér er að finna mjög góðan alþjóðlegan orðabanka staðsettan á Ítalíu.
www.uwasa.fi/comm/eng/index.html
Á þessum vef er orðasafnabanki Vasa háskólans í Finnlandi.
|