RHÍ Fréttir

nr. 34 maí 1998

  

  

Helgi Hálfdánarson
helgiha@hi.is

Vinnuumhverfi kennara í verkfræðideild á vefnum 

Með tilkomu nýs forrits eftir greinarhöfund er vefsíðugerð kennara orðin mun þægilegri.

Vefurinn þjónar sífellt stærra hlutverki hjá tölvunotendum. Háskóli Íslands er með eitt stærsta tölvunetið á landinu. Þar hefur áhugi á vefsíðugerð verið mikill bæði hjá nemendum sem og kennurum.
Reiknistofnun HÍ hefur með uppbyggingu tölvunetsins reynt að styðja þann áhuga af fremsta megni. Vert er að fylgjast grannt með því, sem er að gerast í vefsíðutækni um þessar mundir því framfarir eru mjög örar.

Í dag þykir nauðsynlegt að hægt sé að nota öflug forritunarmál í vefsíðugerð. Mikil áhersla er lögð á það að forrit vefsíðunnar geti unnið úr fyrirspurnum sem það fær og geti sent til baka viðeigandi svar á máli sem netforritin (vefskoðarar) í tölvum notenda skilja (html).
Vefsíður sem verða þannig til að forrit útbýr ákveðinn html kóða og sendir notanda kallast kvikar (dynamiskar) síður. Áhugi kennara verkfræðideildarinnar á skipulegri uppbyggingu vefsíðna sinna leiddi til þess að þeir hafa nú fyrirkomulag sem býður upp á að þeir færi hluta af kennslunni út á vefinn þegar þeim hentar. Möguleikarnir sem svona unhverfi bíður upp á eru fjölmargir.

UPPSETNING VEFÞJÓNS

Settur var upp vefþjónninn IIS á NTþjón (NTserver) verkfræðideildar. Einnig kom til greina að nota vefþjóninn frá Netscape eða að vera með vefþjóninn APACHE á tölvu með Linux stýrikerfi.

Heimasvæði kennara hjá HÍ liggja miðlægt á Unix tölvum og afritataka fer fram einu sinni á sólarhring. Það er því vel við við hæfi að vera með vefsíðusvæði hvers kennara á hans heimasvæði.

Tengingar í þessi vefsíðusvæði eru síðan settar í eina möppu, sem er tengd yfir netið við NT þjóninn. Á unixtölvnni er netþjónn af gerðinni Samba, sem stjórnar því hvernig notendur geta náð sambandi við ákveðin svæði.
Uppsetningin á Samba gagnvart vefsíðuhlutanum á heimasvæðunum er eftirfarandi:

[heiti]
path = /notendur/kennarar/%u%/ vefsidusvaedi

Uppsetningin gerir það að verkum að hver kennari getur tengst sínu eigin vefsíðusvæði yfir netið og skilgreint það sem ákveðið drif í tölvunni sinni. Kennarinn fer sem sagt í Windows Explorer í Tool og í Map Network Drive.

Þar getur hann valið \\unixtölva\heiti og bókstaf á drifinu.
Eftir það getur hann t.d. vistað á nýja drifið og efnið birtist um leið á vefnum.

Á vefþjóninum er hægt að skilgreina hvaða svæði eiga að vera tengd. Vefþjónninn sér um að birta skjölin sem liggja á þeim svæðum.Það er t.d. hægt að láta hann vita hvaða skjöl eiga að vera sjálfgefin á svæðunum og í hvaða röð. T.d.

index.html
index.htm
default.html
default.htm
default.asp

Vefþjónninn er með virkt umhverfi, sem kallast ASP (Active Server Page).
Í því umhverfi er hægt að nota forritunarmál eins og VBScript og JavaScript og PerlScript.

ASP  UMHVERFIÐ

Í ASP umhverfinu er fjöldinn allur af breytum sem hafa að geyma ýmsar nytsamar upplýsingar, svo sem upplýsingar um tölvu vefþjónsins, tölvu vefskoðarans, vefskoðarann sjálfan o.s.frv.

VBScript er einföldun á Visual Basic frá Microsoft og JavaScript á í sjálfu sér ekkert skylt með Java foritunarmálinu. PerlScript er líkt Perl og hraðvirkt eins og það.

JavaScript getur bæði verið í vefsíðum sem eru geymdar á vefþjónum, en einnig á síðum sem eru hjá notandanum.

VBScript getur einungis unnið vefþjónsmegin því Netscape styður það ekki notandamegin.

Það fer eftir eðli vinnslunar hvort betra er að vera með forritið notenda (client) eða vefþjóns (server) megin. Vinnsluhraðinn hjá notandanum og álagið á þjóninum eru þeir þættir sem ráða þá úrslitum.
Ef opna á skyndiglugga ("popup") eða breyta útlitinu á vefskoðaranum hjá notandanum, er betra að vera með forritið notandamegin, en ef sækja á gögn í gagnagrunninn á vefþjóninum og vinna eitthvað úr þeim þá er forritið haft vefþjónsmegin.
Það er nánast hægt að gera sömu hlutina hvort heldur sem er í VBScript eða JavaScript, en sumt er auðveldara á einu málinu heldur en öðru.
Það er því mikill kostur að hægt er að blanda þeim saman.

Loks má nefna að hægt er að vera með ActiveX í ASP umhverfinu. ActiveX eru forritaeiningar sem hægt er að útbúa t.d. í Visual C++, Visual Basic eða í Pascal með Delphi.

MÖGULEIKAR

Forritunarmöguleikarnir á sviði kvikrar vefsíðugerðar í ASP umhverfi eru margir.

Kvikar vefsíður

Þetta eru skjöl með t.d. VBScript, JavaScript og/eða PerlScript, sem vefþjónninn notar til þess að búa til html skjöl sem fyrirspurnartölvan fær send, eftir því hvaða skipun eða fyrirspurn kemur frá henni.

Dæmi um kvika vefsíðu væru forrit, sem sendu mismunandi html eftir því hvernig vefskoðari væri á fyrirspurnartölvunni, og mismunandi kveðjur eftir því hvað klukkan væri og hvaða dagur væri.

Samskiptaforrit

Dæmi eru t.d. rabbhópar og póstkerfi.

Skjala og forritagerðarforrit (generator).

Dæmi um slíkt er t.d. kennslugagnagerðarforrit sem undirritaður er að smíða. Þ.e. forrit sem auðveldar kennurum að koma efni til skila á vefnum. Því verður nánar lýst hér á eftir.

Samskiptaforrit við gagnagrunna og birting á gögnum úr þeim.

Undirritaður hefur kappkostað við að sérhæfa sig á þessu sviði.

Dæmi um slíkt eru t.d. leitarvélar, gestabækur, innkaupakerfi o.fl.

KENNSLUGAGNAGERÐAR FORRITIÐ

Kennarar hafa undanfarið sýnt netkennslu mikinn áhuga og kynning hjá Háskólanum á vegum Námsnetsnefndar HÍ hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Upplýsingar um Námsnetsnefnd HÍ er að finna á netinu á slóðinni:

http://www.hi.is/~joner/eaps/nn_for3.htm

Þegar farið er inn í kennslugagnagerðarforritið er hægt að stofna nýtt fag eða grein eða fara í eitthvað sem þegar er búið að gera.
Þegar slegið er í innsláttarreiti fags eða greinar og ýtt á takkann "Skrá" býr vefþjónninn til html skjal sem inniheldur flettitakka, útlit skv. beiðni, prófspurningar o.fl.
Þannig þarf kennarinn ekki annað en að vera með kennslugagnagerðarforrit á heimasvæði sínu opna það síðan á netinu með lykilorðinu sínu og slá inn kennslugögnin til þess að þau birtist á netinu.
Hægt er að ákveða hvernig aðgang nemendur eigi að hafa með lykilorðum.
Síðan geta nemendur flett í gegnum kennslugögnin fram og til baka, svarað spurningum og fengið aðgang að næsta kafla, ef spurningum hefur t.d. verið svarað rétt.
Þeir gætu einnig sent fyrirspurnir eða skrifað glósur inn á heimasíðu kennarans sem kennarinn gæti svo leiðrétt.

Nánari upplýsingar um forritið fást á netinu undir slóðinni:

http://www.verk.hi.is/kennarinn

eða með því að senda fyrirspurn á helgiha@rhi.hi.is

LOKAORÐ

Það krefst mikils tíma og þolinmæði að útbúa fullkomin kerfi sem margir geta verið ánægðir með.

En það má heldur ekki gleymast að ef vel á að takast verður að leggja mikla áherslu á að fylgjast með sambærilegum kerfum og þróun almennt.

Vefþjónninn sem hér hefur aðeins verið lýst er einn af nokkrum algengum vefþjónum.
Hugsanlega verður einnig settur upp APACHE vefþjónn á tölvu með Linux stýrikerfi við hliðina á hinum.
Þar með gæfist tækifæri til þess að bera IIS saman við þennan mest notaða vefþjón á markaðinum í dag. Annar gæti fengið það hlutverk að vera til vara.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð