RHÍ Fréttir

nr. 31 maí 1997

  

  

Endurbættu Windows95 sjálf(ur)

Ýmislegt má gera til þess að bæta Windows95 umhverfið með tilliti til ýmissa þátta. Má þar nefna hraða, útlit, aðgengi og lagfæringu á ýmsum göllum sem fylgja stýri-kerfinu. Einnig má á einfaldan hátt auka hraða kerfisins og síðast en ekki síst ná sér sjálfur í ýmsa nytsamlega hluti í þessum tilgangi úti á vefnum.

Útgáfur af Windows95

Frá því að Windows95 kom fyrst á markað hefur því sáralítið verið breytt eða bætt. Nýlega kom þó út ný útgáfa af stýrikerfinu svo kölluð OSR2 útgáfa. Í þessari nýju útgáfu Win95 hafa ýmsir gallar verið lagfærðir og endurbætur gerðar á öðrum þáttum. Þar má nefna skráarkerfið (FAT) sem nú á auðveldara með að meðhöndla stóra harða diska. Eins hefur inn-hringibúnaður og fleira smálegt verið lagfært. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að ekki er mögulegt að nálgast þessa útgáfu á heiðarlegan hátt nema með því að kaupa hana með nýrri tölvu. Hins vegar má á vefnum nálgast ýmislegt úr þessari nýju gerð stýrikerfisins og annað sem bætt getur eldri útgáfu þess.

2. mynd. Svona finnur þú kerfistólin (System Tools). Þar er að finna Disk Defragmenter til afslitrunar og ScanDisk til að athuga bilanir og týnda forritahluta á harða disknum. Þú velur bara forritið og síðan diskinn sem á að afslitra.

Þjónustupakkar

Á heimasíðu Microsoft má fá svo-nefnda þjónustupakka (service packs). Þeim er ætlað að bæta galla í Windows95 eða bæta einhverju við kerfið. Þar er nú að finna einn slíkan pakka (Service pack 1) auk pakka með ýmsum hlutum úr OSR2 útgáfu Windows95. Slóðin að þessari vef-síðu er: http://www.microsoft.com/ windows95/info/updatesx.htm

Hægt er að ganga úr skugga um hvora útgáfu Win95 tölvan notar með því að fara í DOS skelina og skrifa: ver (ENTER). Ef um eldri útgáfu er að ræða birtist 4.00 950, en annars 4.00 1111.

Þjónustupakka 1 ætti fólk innan háskólans tvímælalaust að setja upp til þess að bæta netöryggi við samnýtingu skráa.

Staðir sem vert er að sækja heim

Auk vefsíðna Microsofts sem áður voru nefndar er hægt að nálgast ýmislegt góðgæti fyrir Windows95 á öðrum vefsíðum. Helst má þar nefna vefsíðuna http:// www.windows95.com en en þar er að finna allt það helsta sem Windows95 notanda getur vanhagað um. Mörg góð forrit eru þar fáanleg, sem oft eru gefins eða fást til afnota til lengri eða skemmri tíma án endurgjalds. Þar má auk forrita nefna rekla (drivers), netbúnað og ýmsar ábendingar til að bæta notkun stýrikerfisins auk uppfærslna og þjónustupakkanna fyrrnefndu. Þessar vefsíður hafa einnig þægilegt viðmót og eru skipulega framsettar.

1. Mynd. Á vefsíðunni windows95.com er hægt að nálgast mikið úrval af ýmisskonar forritum (32 bit Shareware), uppfærslum á reklum (Drivers Updates) og vísbendingum (Tip and Tricks) um bætta notkun stýri-kerfisins. Á myndinni sjást aðal efnisflokkar síðnanna en þaðan er hægt að komast til margra undirflokka. Veljið það sem þið viljið hlaða niður með músinni og játið því síðan þegar vefrýnirinn (browser) spyr hvort vista eigi hlutinn á harða diskinn.

Bættur hraði

Rétt eins og bíll, þarfnast Windows95 viðhalds. Með tíð og tíma getur hægt nokkuð á vinnslu kerfisins vegna þess að harðir diskar slitrast (fragmentation) eða vegna þess að skrár tapa uppruna sínum.

Með Windows95 fylgja tól til lausnar þessu og er þau að finna undir Accessories - System Tools (2. mynd) Þar er forritið Disk Defragmenter sem keyra ætti reglulega til þess að afslitra harða diskinn. Getur þetta haft talsverð áhrif á vinnsluhraðann.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð