RHÍ Fréttir

nr. 32 desember 1997

  

  

Ragnar Stefán Ragnarsson
ragnarst@rhi.hi.is
Þorkell Heiðarsson
thorkell@rhi.hi.is

Notendaþjónusta RHÍ
Ýmislegt um starfsemina

Póstþjónusta

Eins og flestir starfsmenn Háskólans vita (en þó ekki allir) er hægt að fá notendaþjónustu í gegnum tölvupóst hjá Reiknistofnun. Með því að senda póst til Notendaþjónustunnar (help@hi.is) er hægt að koma spurningum, ábendingum og verkbeiðnum á framfæri. Miðað er við að þessum skeytum sé svarað innan tveggja daga frá því að þau berast. Í flestum tilvikum berast þó svörin fyrr.

Aukinn tölvupóstur

Það hefur orðið mikil aukning á póstsendingum til Notendaþjónustunnar undanfarið ár. Nemendur hafa verið sérstaklega duglegir við að nýta sér þessa þjónustu. Sem dæmi má nefna að í október mánuði fóru yfir 500 bréf til og frá help@hi.is, en október telst til hefðbundins mánaðar hvað álag snertir.

Hvernig er best að kalla á hjálp?

Til þess að auðvelda okkur starfið er vert að hafa nokkur atriði í huga þegar hjálparpóstur er sendur:

  1. Staðsetning (heima, tölvuver eða skrifstofa)
  2. Gerð tölvu (PC eða MAC)
  3. Stýrikerfi (Windows95, Windows 3.11 o.s.fv.)
  4. Lýsing á vandamáli/villu (skipulega framsett)

Algengar spurningar

Út frá þessum hjálparpósti hefur verið búinn til listi yfir “svör við algengum spurningum" (faq) sem hægt er að finna á vefslóðinni:

http://www.rhi.hi.is/faq/

Á þessum vefsíðum er hægt að finna svör við mörgum algengum spurningum sem berast Notendaþjónustunni. Hér koma nokkur dæmi um spurningar sem svarað
er á þessum vefsíðum:

  • Hvernig breyti ég lykilorðinu mínu?
  • Hvernig finn ég póstfang einhvers hjá Háskóla Íslands?
  • Hvernig set ég upp heimasíðu?

Þessar síður eru uppfærðar reglulega og reynt er að láta þær endurspegla þau vandamál sem uppi eru hverju sinni.

Aðrar vefsíður

Ýmsar aðrar vefsíður sem innihalda upplýsingar tengdar Háskólanetinu er að finna á vef Reiknistofnunar http://www.rhi.hi.is

Þar má nefna “Nýtt og Breytt" síðuna, en á henni er að finna upplýsingar um nýjungar sem tengjast tölvumálum Háskólans:

http://www.rhi.hi.is/nytt/

Síðan “Atburðaskrá" inniheldur upplýsingar og tilkynningar um bilanir, fyrirhugaðar lokanir og aðrar truflanir á Háskólanetinu.

http://www.rhi.hi.is/atburdaskra/index.html

Að lokum má nefna síður Tölvuvera RHÍ, þar sem meðal annars er að finna upplýsingar um bókanir í tölvuverum og ýmislegt fleira.

http://www.rhi.hi.is/tver/index.html

Ráðgjöf

Notendaþjónustan veitir starfsfólki Háskólans ráðgjöf varðandi tölvur og hugbúnað. Þessa þjónustu hafa sífellt fleiri notendur nýtt sér t.d. þegar verið er að kaupa tölvur fyrir stofnanir og deildir Háskólans. Í þeim tilfellum tryggir þetta að búnaður sem keyptur er, sé samhæfður netumhverfi Háskólans auk þess sem mikilvægt er að nýr búnaður falli vel að eldri búnaði á viðkomandi stað. Aukin áhersla hefur verið lögð á ráðgjöf vegna vefsíðugerðar í kjölfar aukinnar eftirspurnar eftir þess konar þjónustu. Í þessu felst meðal annars ráðlegging um hugbúnað og vinnutilhögun við vefsíðugerð.

Símaþjónusta og heimsóknartími

Reiknistofnun býður uppá símaþjónustu alla virka daga á milli kl: 9 og 12 árdegis. Á þessum tíma er einnig hægt að sækja notendaþjónustuna heim í Tæknigarð. Sími notendaþjónustunnar er: 4222. Þessi gerð þjónustu er ekki veitt utan fyrrgreinds tíma.

Verkbeiðnir

Verkbeiðnir sem berast Reiknistofnun eru teknar fyrir í þeirri röð sem þær berast. Biðtími fer nokkuð eftir álagi hverju sinni, er oftast nokkrir dagar, en getur þó verið lengri. Í september og október bárust Notendaþjónustunni um 160 verkbeiðnir auk fyrirspurna, aðstoðar á staðnum, í gegnum hjálparpóst og í síma. Álagið hefur aukist mikið á undanförnum árum, enda fer tölvunotkun hratt vaxandi innan Háskólans. Sem dæmi um það má nefna að á árabilinu 1994 til 1996 fjölgaði notendum á Háskólanetinu úr rúmlega fjögurþúsund í rúmlega sexþúsund. Starfsmönnum Notendaþjónustu hefur því miður ekki fjölgað að sama skapi. Um þessar mundir eru um 2,5 stöðugildi við Notendaþjónustu RHÍ.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð