RHÍ Fréttir

nr. 32 desember 1997

  

  

Notkun lýsigagna (metadata) á vefsíðum fyrir kennsluefni

Aðilar innan háskólans hafa sýnt áhuga verkefnum sem miða að því að staðla að einhverju leyti notkun lýsigagna í vefsíðum. Í víðasta samhengi má segja að lýsigögn séu gögn sem lýsa öðrum gögnum. Í tengslum við vefinn eru slík gögn notuð sem einskonar valfrjáls stikkorð sem gjarnan eru falin inni í vefsíðum og eru þessi stikkorð ætluð leitarvélum á vefnum. Þannig er hugmyndin að gera leitir á internetinu markvissari með því að láta vefsíður innihalda staðlaðar upplýsingar eða lýsigögn um innihald síðanna.

Enn sem komið er má segja að notkun slíkra leitarorða á vefsíðum sé algjörlega frjáls, en þetta frelsi takmarkar einmitt gagnsemi þeirra og notagildi. Með því að samræma og staðla notkun þeirra er hægt að auka til muna gagnsemi vefleitarvéla. Þau lýsigögn fyrir texta sem virðast ætla að ná útbreiðslu nefnast Dublin Core Metadata Element Set og ganga almennt undir nafninu Dublin Core eða DC. Nafnið er dregið af Dublin í Ohio í Bandaríkjunum, en þar var fyrsta ráðstefnan um þetta efni haldin að frumkvæði OCLC (Online Computer Library Center) og NCSA (National Center for Supercom-puting Applications). Slóðin að vefsíðum Dublin Core er: http://purl.oclc.org/metadata/dublin_core

Nokkur verkefni eru í gangi sem miða að samræmingu þessara gagna, byggða á Dublin Core staðlinum. Má þar nefna samnorrænt verkefni sem styrkt er af NORDINFO, en frekari upplýsingar um það er að fá á eftirfarandi slóð: http://linnea.helsinki.fi/meta/index.html

Annað slíkt samræmingarverkefni er unnið um þessar mundir á vegum Educom í Bandaríkjunum, en verkefni þetta er hluti stærra verkefnis er nefnist Educom's Instructional Management System project. Slóðin er: http://www.imsproject.org

Þeir sem áhuga hafa á þessum málum eru hvattir til að kynna sér fyrrnefndar vefsíður.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð