RHÍ Fréttir

nr. 28 febrúar 1996

  

  

Nýir starfsmenn hjá Reiknistofnun

Douglas Brotchie

Eins og sagt var frá í síðasta hefti Fréttabréfsins stóðu yfir nokkrar breytingar á starfsliði stofnunarinnar í kringum síðustu áramót.


Chabane Ramdani hóf störf hjá stofnuninni 1. desember. Hann kemur til okkar með óvenju fjölbreytta menntun og víðfengna reynslu. Hann hóf háskólamenntun sína í Tizi Ouzou í Alsír og þaðan fór hann til University of Nottingham. Hann vann að doktorsrannsóknarverkefni í tölvunarfræði við háskólann í Aberystwyth í Wales og vann svo í fimm ár á Hvanneyri, fyrst við hagþjónustu landbúnaðarins og seinna meir bættist við starf fyrir bændaskólann á staðnum.


Helgi Hálfdánarson kom til Reiknistofnunar frá Landmælingum Íslands. Hann var reyndar búinn að vera hér viðloðandi fyrir áramótin, en byrjaði fyrst í fullu starfi hjá okkur 1. janúar. Hann hefur tekið við af Einari Indriða-syni og sér um kerfisstjórn og kerfisskipulag, aðallega fyrir verkfræðideild. Helgi er verkfræðingur að mennt en eftir að háskólamenntun lauk hefur hann öðlast fjölbreytta reynslu á sviði hugbúnaðargerðar, tölvu- og netrekstrar auk umsjónar og skipulagningar.


Kristján Þór Kristjánsson er B.Ed. frá Kennaraháskólanum. Að náminu loknu og eftir hálft annað ár við eðlisfræðikennslu í Vestmannaeyjum ákvað hann að snúa við blaðinu og fór út til Árósa í nám í kerfisfræði. Þegar náminu var lokið lá leiðin beint til Reiknistofnunar. Kristján Þór og Chabane koma til með að starfa við kerfisgreiningu og kerfisgerð fyrir stjórnsýslu skólans, við frekari þróunarvinnu í kringum UKSHÍ (UpplýsingaKerfi Stjórnsýslu Háskóla Íslands). Framundan er vinna við ýmsar þýðingarmiklar nýjungar í því kerfi.

Bæði Chabane og Kristján Þór stunda íþróttir ýmsar af miklu kappi með áherslu á knattspyrnu. Því má gera ráð fyrir að knattspyrnuiðkun hjá starfsmönnum stofnunarinnar taki mikinn kipp í kjölfar þessara nýju ráðninga og fótboltalið stofnunarinnar kemur vafalítið til með að marka spor í íþróttalífi borgarinnar þegar fram líða stundir. Starfsmennirnir voru að vísu ekki ráðnir með þetta í huga en ekki sakar það.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ