RHÍ Fréttir

nr. 28 febrúar 1996

  

  

Fjölgun tölva og tölvuvera á vegum RHÍ

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Í byrjun janúar var opnað nýtt tölvuver í Lögbergi. Í tölvuverinu eru 12 HP Vectra VE 5/75, sem eru 75 megariða Pentium tölvur. Með tölvunum eru 15 tommu SVGA skjáir og 500 megabæta harðir diskar og í þeim er 16 MB minni

Hugbúnaður sem er aðgengilegur í Lögbergi er að mestu leyti sá sami og í öðrum tölvuverum Reiknistofnunar. Þó er þar að finna hugbúnað sem ekki er uppsettur annars staðar, s.s. Lagasafn Íslands.

Í tölvuverinu er geislaprentari ásamt nálaprentara.

Opnunartími tölvuversins í Lögbergi er ákveðin af stjórn hússins.

Á þriðju hæð í Odda var sett upp enn eitt tölvuver Reiknistofnunar og eru þau nú orðin átta talsins ásamt tölvustofum í Eirbergi, Vitastíg og á Grensási.

Á þriðju hæðina var settur búnaður sem áður var í stofu 103 í Odda. Þar eru 18 Silicon Valley 40 megariða 386 tölvur, með SVGA skjám, 80 MB hörðum diskum og 4 MB í innra minni.

Hugbúnaður á þessu tölvuveri er sá sami og í Árnagarði.

Bæði geisla- og nálaprentarar eru væntanlegir í tölvuverið.

Mikil fjölgun
Síðustu 12 mánuði hafa verið keyptar 62 Pentium tölvur. Eldri tölvurnar voru notaðar í ný tölvuver og tölvustofur. Á tímabilinu 1.feb 95 - 31.jan 96 voru alls sett upp 3 ný tölvuver (í VR-II, í Lögbergi og á 3. hæð í Odda) og tvær tölvustofur (Eirberg og Vitastígur). Skipt var um vélbúnað í báðum stofum í Odda auk annarrar stofunnar í Vetrarhöll. Tölvum sem nemendur hafa aðgang að fjölgaði um 60, eða um tæp 80%.

Nýr netþjónn
Í janúar var skipt um netþjón í Odda. Í stað gamla Eldfells kom ný Ultra Sparc tölva frá Sun Microsystems. Nýja tölvan heitir Oddi og er margfalt hraðvirkari en Eldfellið. Þessi nýja vél var forsenda fyrir því að hægt væri að setja upp tölvuverið á þriðju hæð þar sem Eldfell gat ekki annað fleiri vélum.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Önnur fréttabréf RHÍ