RHÍ Fréttir

nr. 28 febrúar 1996

  

  

Þráðlausar gagnasendingar á HIneti

Sæþór L. Jónsson

Háskólinn hefur tekið í notkun búnað til þráðlausra gagnasendinga milli Haga og HInets.

Á liðnu ári stóð RHÍ frammi fyrir því að auka þurfti samskiptahraða gagnasendinga milli Haga og Tæknigarðs, vegna mikillar fjölgunar starfsmanna í Haga og Neshaga 16. Neshagi 16 hafði þá verið tengdur með ljósleiðara við Haga og tenging þaðan við HInet var með 19.2 Kbit/s PC-upphringirúter. Í þessum tveimur húsum eru staðsettar meðal annars Rannsóknarstofa í lyfjafræði lyfsala, Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins, Orðabók Háskólans, Sjávarútvegsstofnun og hluti Heimspekideildar, svo nokkuð sé nefnt. Þá er verið að leggja síðustu hönd á frágang efstu hæðar Haga að sunnanverðu og þar verður fjöldi skrifstofa.

Hingað til hefur eini möguleikinn verið að kaupa meiri bandbreidd í formi fastrar leigulínu (64-2000 Kbit/s) frá Pósti og síma eða að leggja ljósleiðara milli bygginga. Gerð hafði verið kostnaðaráætlun um lagningu ljósleiðara sem hljóðaði upp á 6-7 milljónir og beiðni um að fá að nota ljósleiðararör Pósts og síma á svæðinu hafði verið hafnað. Vegna mikillar framþróunar í búnaði til þráðlausra gagnasendinga bættist sá valkostur við. Eftir nákvæma skoðun var ákveðið að festa kaup á slíkum búnaði (WavePoint frá AT&T).


Loftnetið sem tengir Haga við umheiminn. Ef vel er að gáð má sjá penna sem var settur til samanburðar

Í Haga hefur nú verið sett upp stefnuvirkt loftnet og WavePoint búnaður sem tengist beint inn á Ethernetið þar og samskonar búnaður var settur upp í Tæknigarði. Öryggi gagnasendinga fyrir utanaðkomandi hlustun er tryggt með því að setja svokallað ,"AES" (Advanced Encryption Scheme) í búnaðinn á báðum stöðum. Samskiptahraðinn er mjög mikill eða allt að 2Mbit/s og er því um hundraðföldun á bandbreidd að ræða. Þá fór umferðartíminn (round-trip) úr 300-500 msek í 3-5 msek. Búnaðurinn vinnur á tíðnisviði sem er 2,4GHz og byggir á svokallaðri ,,Spread Spectrum Modulation" tækni sem þykir mjög örugg og hefur lengi vel verið notuð í samskiptakerfum NATO herjanna. Sendistyrkur er einungis 100mW en þrátt fyrir það getur drægni sendinga orðið allt að 3 Km. Svipaðan örbylgjubúnað má einnig nota til þess að tengja saman þráðlausar tölvur í tölvuveri og er þá sett ISA samskiptakort fyrir þráðlaus samskipti í PC tölvurnar og einnig í prentarann. Einnig er hægt að fá slík kort fyrir PC-CARD tengiraufar ef nota á fistölvur.

Þar sem búnaðurinn uppfyllir staðla EES um þráðlaus samskipti (ETS 300- 328) þarf ekki að greiða nein leyfisgjöld. Ekki þarf heldur að sækja um leyfi til Fjarskiptaeftirlits ríkisins. Sótt hafði verið um leyfi Samgöngumálaráðherra til að stofna og reka fjarskiptasamband til gagnaflutnings milli Tæknigarðs og Haga án þess að tilgreina búnaðinn frekar og samþykki verið veitt.

Gera má ráð fyrir að kostnaður við örbylgjusambandið sé um 1 milljón króna þegar allt er talið. Á móti kemur að rekstrarkostnaður er óverulegur.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ