RHÍ Fréttir

nr. 28 febrúar 1996

  

  

Breytt og betri gjaldskrá

Douglas Brotchie

Stjórn Reiknistofnunar hefur verið að vinna að því reglulega síðustu ár að endurskoða og laga gjaldskrá stofnunarinnar að nýjum aðstæðum, lækkun á verði aðfanga, aukinnar samkeppni í framboði á Internet upphringiaðgangi og aukinnar eftirspurnar eftir aðgangi að takmörkuðum gæðum. Einnig hefur verið unnið markvist að því að gera gjaldskrána einfaldari og auðskiljanlegri, og að gera hana nútímalegri.

Til að tryggja að hún haldist í takt við tímann hefur verið ákveðið að fella burt gjaldtöku fyrir verkliði sem voru þýðingarmiklir fyrir nokkrum árum, en hafa orðið úreltir með breytingum á síðustu misserum.

Á sama tíma er að sjálfsögðu gætt fjárhagslegrar ábyrgðar í rekstri, þar sem stofnuninni er gert að afla að stórum hluta rekstrarkostnaði með sértekjum, sem sagt með því að selja út þjónustu, hvort sem um er að ræða þjónustu starfs-manna, tölvanna, nets eða annars búnaðar.

Gjaldskrárbreytingar voru ræddar á stjórnarfundum í desember og janúar og voru megin niðurstöður að gera lagfæringar, nokkrar fínstillingar, en einnig þýðingarmiklar breytingar á uppbyggingu gjaldskrárinnar og taka upp gjaldtöku fyrir nýjan tekjustofn. Breytingarnar koma til með að taka gildi 1. apríl næstkomandi.

Breytingarnar eru í meginatriðum eftirfarandi:

1. Allir notendur utan Háskólans verða settir á taxta 2, sem leiðir af sér hækkun á mánaðarlegu fastagjaldi. (Hingað til hafa fyrirtæki í Tæknigarði og nemendur utan HÍ verið af sögulegum ástæðum reiknisfærð samkvæmt taxta 1, sem er ætlaður fyrir notkun háskólamanna, og notið þar af leiðandi afsláttarkjara. Breytingin sem hér um að ræðir er gerð til að einfalda uppbyggingu gjaldskrár.)

2. Gjald fyrir tengitíma innan HÍ verður fellt niður (var áður 100 kr/klst, þó með 50 klukkutíma hámarksgreiðslu) og fyrir notendur utan HÍ verður gjaldið lækkað úr 150 kr. í 20 kr.

3. Fast mánaðargjald á taxta 2, sem sagt fyrir notendur utan háskólann, verður hækkað úr 1.320 í 1.760 kr. á mánuði.

4. Gjald fyrir disknotkun í taxta 2 verður lækkað um helming í 120 kr/mán fyrir hvert MB.

5. Tekið er upp tengigjald við HInet, 500 kr. á mánuði fyrir hvert tæki (IP-tölu).

6. Fyrir hvert netlén (subdomain) skal greiða 1000 kr./mán. og fyrir hvert "subnet" umfram eitt skal einnig greiða 1000 kr./mán. Þessi gjaldskrárliður er innleiddur til að gæta samræmis milli útgjalda stofnunarinnar til Internets á Íslandi og tekna.

Til nánari glöggvunar má útskýra breytingarnar þannig:

Tengitími er ekki lengur reikningsfærður fyrir notendur á vegum skólans og hann er lækkaður svo um munar fyrir aðra notendur, en þó ekki felldur niður að öllu leyti.

Öllum notendum Reiknistofnunar utan skólans er gert jafn hátt undir höfði og ekki er lengur gerður greinarmunur á fyrirtækjum eftir staðsetningu. Mánaðarlegt fastagjald er hækkað lítilega í samræmi við markaðsaðstæður. Leigugjald fyrir diskgeymslurými er lækkað fyrir notendur utan skólans til að endurspegla lækkun á verði aðfanga.

Stærsta nýjungin í gjaldskránni er nettengigjald. Þetta gjald er lagt á öll IP-netvistföng sem er úthlutað af Reiknistofnun og eru skráð í DNS (Domain Name Server). Sérstaklega skal vakin athygli á að gjald þetta verður tekið af öllum tækjum sem tengd eru við háskólanetið, nettengdum prenturum jafnt sem tölvum. Þetta fyrirkomulag er haft á til að reyna að tryggja að gjaldtakan sé eins einföld og kostur er á.

Tilkoma þessarar gjaldtöku er fyrst og fremst viðbrögð við breyttum viðskiptaháttum milli háskólans og IntÍs. Reiknistofnun ber nú allan kostnað af Internet sambandi deilda og stofnanna Háskólans sem tengjast Interneti yfir háskólanetið; þeir aðilar borga ekki lengur til IntÍs. Þessi nýja gjaldtaka Reiknistofnunar kemur í staðinn fyrir það gjald. Á þá notendur sem ekki hafa verið í viðskiptum við IntÍs en hafa í staðinn notað Internetþjónustu í gegnum Reiknistofnun leggst nýtt gjald, en niðurfelling á tengitíma gerir meira en að vega upp á móti því. Hugmyndin á bak við breytinguna er að eitt gjald gangi yfir alla, sem sagt að notendum sé ekki mismunað og hægt er að sjá fyrirfram hvaða kostnað ákveðin tenging hafi í för með sér.

Hjá nánast öllum aðilum koma þessar breytingar í heild sinni til með að þýða lækkuð heildarútgjöld fyrir sömu þjónustu.

Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá forstöðumanni.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ