RHÍ Fréttir |
nr. 28 febrúar 1996 |
|
|
|
|
Samnet Pósts og síma, ISDNSæþór L. Jónsson Hvað er þetta nýja kerfi sem Póstur og sími ætlar að bjóða upp á um miðjan febrúar og kallað hefur verið Samnet eða ISDN (Integrated Services Digital Network)? Í stuttu máli er Samnetið heiti á þeirri margvíslegu þjónustu sem hægt verður að bjóða upp á nú þegar íslenska símakerfið er orðið algerlega stafrænt. For-sendan fyrir notkun þessarar þjónustu er þó sú, að fengin sé þessi stafræna Samnetstenging heim í hús. Munurinn á hinu almenna talsíma-kerfi og Samnetinu er best skýrður með dæmi um hvernig einmenningstölva tengist móðurtölvu eftir því hvort kerfið er notað. Í hliðræna kerfinu verður að nota mótald til að breyta stafræna bitastraumnum frá tölvunni í hliðrænan bitastraum, frá notenda til símstöðvar. Þegar kemur að símstöðinni er bitastraumnum breytt aftur frá hliðrænum yfir í stafrænan þar sem símkerfið er stafrænt. Síðan eru bitarnir fluttir eftir símakerfinu á stafrænu formi að símstöð móttakanda, þar sem bitastraumnum er aftur breytt yfir í hliðrænan straum sem liggur að mótaldinu. Í móttökumótaldinu er hliðræna straumnum aftur breytt yfir í stafrænan þannig að móðurtölvan geti tekið á móti honum. Þetta virðist nokkuð flókið og það er það einmitt. Á leiðinni eru margir þættir sem þarf að stilla saman. Í Samnetinu er þessu þannig varið að bitastraumurinn er óbreyttur alla leiðina, frá einmenningstölvunni eftir Samnetinu, milli símstöðva og að móðurtölvunni. Þetta bæði einfaldar málið og gerir samskiptin mun öruggari auk þess sem tengitíminn styttist, enda er Samnetsbúnaður mun betur staðlaður en hliðrænn. Þá er ýmis annar munur á þessum kerfum. Með grunntengingu við Samnetið fást tvær sjálfstæðar burðarlínur (B-línur) og ein lína sem notuð er til stýringar (D-lína). En það er einmitt þessi stýrilína sem gerir það kleift að veita þá þjónustu sem Samnetið býður upp á. Á meðan báðar símalínurnar eru uppteknar er stýrilínan laus og getur komið boðum til skila. Þá er einnig hægt að fá svokallaða stofntengingu við Samnetið. Í stofntengingu eru 30 B-rásir og 1 D-rás.
Með tengingu við samnetið fær notandinn svokallaðan netmarkabúnað (NT), en hann er tengdur við bæjarsímann með tveimur vírum eins og venjulegur talsími. Hinsvegar þarf fjóra víra frá netmarkabúnaðinum að þeim Samnetstækjum sem við hann eru tengd. Hægt er að tengja allt að átta tækjum samtímis, hliðrænum sem stafrænum við netmarkabúnaðinn. Það er þó ekki hægt að nota nema tvö þeirra samtímis með grunntengingu (tvær B-línur). Þá er einnig til búnaður sem leyfir að nota báðar línurnar samtímis, ef flutningsþörfin er meiri en ein lína flytur. Flutningsgeta á Samnetslínum er meiri en á hliðrænum talsímalínum. Hvor burðarlína flytur 64 Kbit/s, en til samanburðar flytur venjuleg talsímalína 28,8 Kbit/s. Þessu til viðbótar kemur síðan þjöppunin sem er háð þeim endabúnaði sem notaður er. Hér verður ekki reynt að gera þeirri margvíslegu þjónustu skil sem Samnetið býður, en aðeins skýrt með dæmi hvernig nota má Samnetstengingu sem nettengingu hópa við Háskólanetið. Fyrirhugað er að gera tilraun með að tengja Tilraunastöðina á Keldum við háskólanetið með Samnetstengingu. Til þess verða notaðir 2 Cisco-rúterar (leiðstjórar), ásamt þeim netmarkabúnaði sem fylgir samnetstengingunni (sjá mynd). Tengist annar rúterinn við háskólanetið, en hinn verður staðsettur á Keldum. Rúterarnir eru stilltir þannig að þeir opna fyrir Samnetslínurnar einungis ef verið er að sækja nauðsynlega þjónustu á HInet og leggja síðan á eftir ákveðinn tíma. Þegar flutningsþörfin fer upp fyrir ákveðið hlutfall af flutningsgetu annarar línunar, er opnað fyrir seinni línuna. Tilraunin felst meðal annars í því að finna út hve langan tíma á að halda línunni eftir að samband er komið á. Þetta ræðst af gjaldskrá Samnetsins, en einnig af því notkunarmynstri sem notendur á Keldnanetinu valda. Gjaldskrá Samnetsins birtist í Stjórnartíðindum B 116-117 með auglýsingu nr. 663/22.12.95. Þar kemur fram að stofngjald fyrir grunntengingu er 26.612,- og ársfjórðungsgjald 6.910,-. Notkunargjöld fyrir hverja B-rás eru þau sömu og fyrir samsvarandi notkun í almenna símakerfinu með þeirri undantekningu að ekki er notuð skrefamæling, heldur tímamæling með samsvarandi gjaldi á sekúndu. Fast gjald fyrir hvert símtal er kr. 3,32 eins og í talsímanetinu en að auki kemur uppkallsgjald kr. 1,66 sem greiðist fyrir hvert uppkall milli tveggja Samnetsnotenda, hvort sem uppkallið heppnast eða ekki. Þetta þýðir að hvert uppkall milli rúteranna kostar kr. 4,98, hvort sem þeir ná sambandi eða ekki. Hver upphringing jafngildir því 6 mínútna tengingu, ef miðað er við dagtaxta, kr. 0,83 á mínútu. |
|
Notendaþjónusta RHÍ, 16. febrúar 2000 |
Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ