RHÍ Fréttir

nr. 28 febrúar 1996

  

  

Windows 95 á Háskólanetinu

Jörg P. Kuck
Guðmundur Bjarni Jósepsson

Eins og allir hafa eflaust tekið eftir sendi Microsoft frá sér í ágúst nýja útgáfu af Windows hugbúnaðinum sem kallast Windows 95. Stefna Microsoft er að Windows 95 muni taka við af DOS stýrikerfinu og Windows 3.x notendaviðmótinu sem hafa verið allsráðandi á PC tölvum undanfarin ár.

Tilgangur þessarar greinar er að veita notendum innan háskólans aðstoð við að ákveða hvort þeir eigi að skipta yfir í hið nýja stýrikerfi, eða halda sig við það umhverfi sem þeir hafa núna og þekkja vel.

Vélbúnaður sem þarf
Microsoft segir að lágmarksvélbúnaður sem þarf fyrir Windows 95 sé tölva með 20 megariða 386DX örgjörva, 4 MB vinnsluminni (8 MB til að keyra fleiri en eitt 32 bita forrit í einu), 20 MB á hörðum diski auk rýmis fyrir "swapfile". Einnig þarf VGA skjá og mús.

Á þessum vélbúnaði eru afköstin álíka og hjá dauðri skjaldböku. Því er mælt með a.m.k. 33 megariða 486 örgjörva, 8-16 MB vinnsluminni, 70 MB á hörðum diski og SVGA skjá. Stærð vinnsluminnis skiptir höfuðmáli varðandi afköst Windows 95 en segja má að það keyri álíka vel í 16 MB og Windows 3.x gerir í 8 MB. Einnig skal bent á að flest notendaforrit sem eru skrifuð fyrir Windows 95, þurfa mikið pláss á diski og mælum við með að harði diskurinn sé ekki minni en 500 MB.

Er Windows 95 betra?
Windows 95 er hlaðið kostum umfram eldri útgáfur af Windows. Hér á eftir verður stiklað á stóru og farið yfir nokkur atriði.

Notendaviðmótið er mun þægilegra og auðveldara í notkun en Program Manager í Windows 3.x. Þeir sem hafa notað Macintosh munu eiga auðvelt með að tileinka sér hið nýja notendaviðmót. Skráasöfn eru orðin að möppum og skrár birtast sem táknmyndir í þeim. Auðvelt er að gera aðgerðir eins og að afrita, klippa, líma og ritfæra skjöl, auk þess sem hægt að draga þau í endurvinnslutunnuna (recycle bin) þar sem þau eru geymd þar til tunnan er tæmd.

Hægt er að stytta sér leið að skjölum og forritum sem eru grafin djúpt í skráakerfið með því að draga táknmynd þeirra á skjáborðið. Með því að smella á táknmynd fyrir skjal opnast skjalið í því forriti sem það var búið til í. Með því að smella með hægri músarhnappi nánast hvar sem er í notendaviðmótinu bjóðast ýmsar aðgerðir sem leiða notandann áfram við vinnu sína. Þetta fyrirbæri þekkist til dæmis í Excel og öðrum Microsoft notendaforritum.

Notendur DOS og Windows hafa alltaf þurft að búa við miklar takmarkanir hvað varðar skráanöfn. Í Windows 95 er þetta breytt og er leyfilegt að nota skráanöfn sem eru allt að 255 stafir og mega innihalda séríslenska bókstafi. Skrá sem áður hét "fh951012.doc" getur nú heitið "Fundargerð háskólaráðs 12. október 1995.doc".

Uppsetning nýs hug- og vélbúnaðar er einfölduð til muna með töframönnum (e. wizards) sem Microsoft hefur þróað á undanförnum árum og notendur hafa séð í öðrum notendaforritum. Til að útskýra notkun töframanns skulum við taka dæmi um notanda sem ætlar að setja upp prentara. Eftir að hafa tengt prentarann við tölvuna sína ræsir notandinn "Add Printer Wizard". Töframaðurinn spyr nokkurra spurninga sem notandinn getur svarað einfaldlega með því að nota músina. Í lokin býður töframaðurinn notandanum upp á að prenta prufusíðu og sést þá strax hvort uppsetningin hafi heppnast. Ef eitthvað er að, kemur töframaðurinn með tillögur til úrlausnar.


Mynd 1. Hér sést hvernig notandi velur prentararekil me Add Printer Wizard

Almennt séð er Windows 95 stöðugra en fyrirrennarar þess. Hvaða Windows notandi þekkir ekki villuboðin "General Protection Fault" og tilheyrandi vandræði? Oftast er eina lausnin að endurræsa tölvuna þegar notendaforrit hagar sér illa. Windows 95 ræður betur við slíkar uppákomur. Ef forrit er að stríða notanda getur hann stutt á Ctrl+Alt+Del samtímis til að fá upp glugga sem býður honum að slökkva á forritinu.

Windows 3.x býður upp á það sem á ensku er kallað "task switching". Slíkt gerir notendum kleift að keyra mörg forrit í einu en þegar skipt er úr forriti A í forrit B stöðvast vinnsla í forriti A. Windows 95 er er fjölverka og fjölþráða. Það þýðir að forrit A getur haldið áfram að vinna þó skipt sé yfir í forrit B og forrit A getur jafnvel verið að gera fleiri en einn hlut í einu.

Einn kostur við Windows 95 er að hægt er að keyra flest þau forrit sem voru skrifuð fyrir Windows 3.x og DOS. Eldri 16 bita Windows forrit eru þó í flestum tilfellum hægvirkari undir Windows 95 en Windows 3.x en allir helstu hugbúnaðarframleiðendur eru nú að vinna að 32 bita uppfærslum sem koma til með að keyra hraðar og öruggar undir Windows 95. Gömul DOS forrit er hægt að keyra í glugga en í sumum tilfellum gæti þurft að ræsa tölvuna í DOS ham til að tryggja hámarksafköst þeirra.

Windows 95 á HIneti
Hverjar eru þarfir hins almenna PC notanda sem vill tengjast háskólanetinu? Þær eru tvenns konar:

1. Notfæra sér Internet
2. Tengjast netdiskum og prenta á nettengda prentara

Með Windows 95 fylgir 32 bita TCP/IP nethugbúnaður til að tengjast Interneti. Notandi sem keyrir Windows 95 og er með nettengda tölvu getur því notfært sér forrit á borð við Netscape, Eudora, Internet Explorer og fleiri án þess að setja upp sérstakt netstýrikerfi. Þennan búnað er hægt að nota án vandræða á háskólanetinu. Starfsmenn RHÍ hafa reynslu af þessum búnaði og geta aðstoðað notendur við uppsetningu hans ef þörf krefur.

Vilji notandi notfæra sér netdiska og nettengda prentara þarf hann að setja upp hjá sér sérstakt netstýrikerfi. Með þessu er átt við að notandinn geti vistað á netdiska og prentað beint úr Windows (eða DOS) án þess að þurfa að nota til þess skráaflutningskerfi á borð við FTP. Hingað til hefur RHÍ notað og mælt með uppsetningu netstýrikerfis frá SunSoft sem heitir PC-NFS. Sú útgáfa af PC-NFS (5.1a) sem er útbreiddust á háskólanetinu í dag er að verða tveggja ára gömul og keyrir í DOS.

Þetta tvennt, 32 bita nethugbún-aðurinn og PC-NFS, keyrir ágætlega hvort í sínu lagi. Hins vegar koma upp vandamál þegar keyra á þetta tvennt samtímis. Microsoft segir að þetta muni ekki ganga saman og tilraunir okkar staðfesta það. Þetta þýðir til dæmis að nýjustu útgáfurnar af Netscape (2.0bx) og Internet Explorer ganga ekki með gamla 16 bita PC-NFS. Þar fyrir utan styður PC-NFS ekki löng skráanöfn á nettengdum diskum.

Í dag verða Windows 95 notendur á háskólaneti því að velja annað hvort:

1. 32 bita TCP/IP nethugbúnað sem er sérstaklega sniðinn fyrir Windows 95 og býður hraðvirkari Internetaðgang en hingað til, eða
2. 16 bita hugbúnað fyrir DOS sem býður upp á svipuð afköst á Interneti og hingað til ásamt aðgangi að nettengdum diskum og prenturum.

Leiðir til úrlausnar
Reiknistofnun hefur sett á fót vinnuhóp sem vinnur að því að finna hentuga lausn á þessu vandamáli, bæði hjá einstökum notendum og í tölvuverum.

Lausnin felst í nýju netstýrikerfi, sem er 32 bita og er hannað sérstaklega fyrir Windows 95. Slíkir pakkar hafa ekki verið fáanlegir hingað til en þeir fyrstu komu á markað um jólin. Þegar þetta er skrifað hafa tveir nýir NFS pakkar verið skoðaðir og lofar annar þeirra að mörgu leyti mjög góðu. NFS búnaður frá fleiri framleiðendum er í pöntun eða beta prófun. Reiknistofnun mun tilkynna þegar heppilegt netstýrikerfi hefur verið ákveðið.

Brýnasta verkefnið sem Windows 95 hópurinn þarf að leysa er að finna leið til að koma Windows 95 upp í tölvuverum Reiknistofnunar. Stefnan er að Windows 95 verði komið upp á öllum Pentium tölvum í haust nema óyfirstíganleg vandamál komi upp. Vandamálin við að koma Windows 95 upp í tölvuverum eru fleiri en hjá einstökum notendum enda um margþætt fjölnotendaumhverfi að ræða þar sem huga þarf að hlutum á borð við öryggi, viðhald og ræsingu yfir net.

Framtíðin
Windows 95 er stórt skref fram á við fyrir PC notendur. Í umhverfi á borð við háskólanetið ber þó margs að gæta og ekki má grípa skyndilausnir án þess að íhuga málin vel. Windows 95 er ennþá ungt og í raun mætti segja að um útgáfu 1.0 sé að ræða. Notendaforritum fyrir Windows 95 fer fjölgandi og með aukinni reynslu ætti að vera hægt að ráða við flesta "barnasjúkdóma". Á háskólanetinu, sem og annars staðar, er Windows 95 komið til að vera.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ