RHÍ Fréttir

nr. 29 apríl 1996

  

  

Einmenningstölvur og netvinnsla á háskólanetinu

Guðmundur Bjarni Jósepsson
Jörg P. K&uumlck

Á háskólanetinu í dag eru rúmlega 1.000 tölvur og tæki. Þetta eru PC, Macintosh og Unix tölvur, prentarar, netstýribúnaður og fleira. Til að þessi tæki geti öll talað hvert við annað og unnið saman þurfa þau að sjálfsögðu að vera tengd saman og einnig verða þau að geta talað sameiginlegt tungumál.

Tilgangur þessarar greinar er að varpa ljósi á háskólanetið og þann búnað sem er notaður þar.

Net á borð við háskólanetið, bæði minni og stærri, má finna í nær öllum fyrirtækjum og skólum víðs vegar um heiminn. Til er fjöldi samskiptastaðla (e. protocols) sem nær allir eru ósamhæfðir hver við annan. Meðal algengustu samskiptastaðla í dag eru IPX/SPX (Novell), AppleTalk, NetBEUI (Windows for Workgroups, LANManager) og TCP/IP.

Á háskólanetinu er notaður TCP/IP (Transmission Control Protocol/Internet Protocol) staðallinn. Fyrstu þrír staðlarnir voru þróaðir af stórfyrirtækjum á borð við Novell, Apple og Microsoft til að tengja saman einkatölvur á nærneti (LAN). TCP/IP þróaðist aftur á móti upp úr rannsóknarverkefni bandaríska hersins og var ætlað að tengja saman allar tegundir tölva óháð hvort þær væru á nærnetum eða víðnetum (WAN).

Þetta síðastnefnda, að TCP/IP er óháð einum ákveðnum framleiðanda, var ein aðal ástæðan fyrir því að ákveðið var að taka upp TCP/IP á háskólanetinu árið 1987 þegar fyrsta Unix tölvan kom til Reiknistofnunar.

Segja má að hönnuðir háskólanetsins hafi verið víðsýnir því mikilvægi TCP/IP staðalsins eykst nú dag frá degi á kostnað kerfa á borð við Novell Netware, eftir því sem mikilvægi upplýsingahraðbrautarinnar eykst.

Nærnet, víðnet, borgarnet
Netum er skipt í nærnet og víðnet. Tilgangur nærneta er að efla samvinnu og verkaskiptingu meðal tölvunotenda. Þessu er náð með því að veita notendum aðgang að sameiginlegum netþjónum og skráakerfum, aðgang að prentþjónustu auk þjónustu á borð við tölvupóst.

Nærnet takmarkast yfirleitt við herbergi eða byggingar. Þau eru töluvert einfaldari í uppsetningu en víðnet, bæði hvað varðar lagnir og rekstur. Til dæmis er hægt að tengja nokkrar einmenningstölvur í sama herbergi á nærnet á nokkrum mínútum. Til þess þarf einungis nokkra metra af kapli og e.t.v. netspjöld.

Víðnet tengja saman nærnet milli bygginga, borga og landa. Uppsetning slíkra neta er augljóslega mun flóknari. Grafa þarf kapla í jörðu, leigja línur frá símafyrirtækjum, setja upp loftnet og jafnvel leggja sæstrengi og skjóta upp gervitunglum. Allur búnaður til að tengja saman þessa mismunandi flutningsmiðla er einnig mun dýrari og flóknari í uppsetningu og rekstri en nærnetsbúnaður. Frægasta víðnet í dag er tvímælalaust Internetið.

Háskólanetið myndi flokkast bæði undir nærnet og víðnet og eru slík net stundum nefnd borgarnet (Metropolitan Area Network).

Internet og TCP/IP
Internetið er byggð upp á TCP/IP staðlinum en aðrir staðlar eru svo notaðir ofan á honum. Hver tölva á Internetinu hefur sitt einkvæma IP númer og nafn, t.d. 130.208.165.38 sem er hengill.rhi.hi.is. Í samskiptum er einungis IP númerið notað en nöfnin eru ætluð mönnum því þeir eiga auðveldara með að muna þau en IP númer. Með því að nota TCP/IP á háskólanetinu er hver tölva sem hefur IP númer orðin hluti af Internetinu.

TCP/IP ásamt netstýrikerfi er í raun eini raunhæfi staðallinn til að nálgast þá þjónustu sem notendur á háskólanetinu sækjast eftir, þ.e. aðgangi að sameiginlegum skráakerfum, prenturum auk tengingar við Internet. Staðlar á borð við IPX/SPX og AppleTalk henta ágætlega til tengingar við skráakerfi og prentara en ekki til tengingar við Internet.

Útfærsla TCP/IP á einmenningstölvum
Langflestar PC tölvur á háskólanetinu nota netstýrikerfið PC-NFS 5.1a til að fá aðgang að prenturum, skráakerfum og Internetþjónustu.

Eins og kom fram í síðasta fréttabréfi kemur TCP/IP hugbúnaður með Windows 95 og einnig dreifir Reiknistofnun TCP/IP hugbúnaði fyrir Windows 3.x sem kallast Trumpet Winsock. Slíkur hugbúnaður veitir notanda á háskólanetinu aðgang að Interneti en ekki að prenturum og skráasöfnum. Til þess þarf netstýrikerfi á borð við SunSoft PC-NFS, Hummingbird Maestro eða SAMBA.

Macintosh tölvur nota MacTCP eða Open Transport til að gera það sama og PC tölvur gera með Trumpet Winsock.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ