RHÍ Fréttir

nr. 29 apríl 1996

  

  

Póstlistar - Majordomo

Magnús Gíslason

Nýlega var MajorDomo sett upp á póstþjón Reiknistofnunar. MajorDomo er kerfi til að hafa umsjón með póstlistum. Hægt er að skrá sig á póstlista og afskrá, sjá hvaða póstlistar eru til, hverjir eru á tilteknum póstlista, skoða umræður sem áður hafa farið fram á póstlista o.s.frv.

Í kjölfarið hafa verið settir upp nokkrir póstlistar sem hafa bæði innlenda og alþjóðlega dreifingu. Flestir þeirra eru fámennir, lokaðir umræðuhópar nokkurra einstaklinga en nokkrir eru opnir öllum sem áhuga hafa á viðfangsefni póstlistans. Þá eru umræður sem fram fara á sumum póstlistum geymdar til frambúðar ef menn vilja skoða gamlar umræður.

Notendur hafa samskipti við MajorDomo með því að senda tölvupóst til majordomo@rhi.hi.is og setja skipanir í texta skeytisins. Ekki þýðir að setja skipanir í Subject-línu skeytisins. Helstu skipanir eru þessar:

helpBiður um lista yfir skipanir og leiðbeiningar um notkun.
lists Biður um yfirlit yfir alla póstlista sem eru á skrá.
subscribe póstlistiÓskar eftir áskrift að póstlista.
unsubscribe póstlistiSegir upp áskrift að póstlista.

Sérstakur umsjónarmaður er með hverjum póstlista. Hann sér m.a. um að útbúa upplýsingar um póstlistann og veita samþykki fyrir áskrift ef póstlistinn er lokaður. Ekki er nauðsynlegt að umsjónarmaður póstlistans sé notandi hjá RHÍ heldur getur hann verið hvar sem er á Netinu enda fer umsjón hans fram með tölvupósti.

RHÍ setur upp póstlista endurgjaldslaust fyrir þá er þess óska en greiða þarf fyrir öll önnur verk sem starfsmenn RHÍ inna af hendi skv. taxta fyrir útselda vinnu, svo sem viðhald póstlistans, ef umsjónarmaður er starfsmaður RHÍ.

Þeir sem óska eftir því að fá uppsettan póstlista geta snúið sér til greinarhöfundar. Best er að sá sem biður um póstlista verði jafnframt umsjónarmaður með póstlistanum.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ