RHÍ Fréttir

nr. 26 október 1995

  

  

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Endurútgáfa notendaleiðbeininga

Reiknistofnun hefur endurútgefið hluta af þeim notendaupplýsingum sem út hafa komið á vegum stofnunarinnar á undanförnum misserum.

Daði Kárason, sumarstarfsmaður hjá Reiknistofnun, hafði veg og vanda af því að endurskoða handbók sem nefnist Notkun PC tölva í tölvuverum. Fyrsta útgáfa af þeirri handbók kom út fyrir 2 árum síðan og var brýn þörf á að uppfæra hana þar sem upplýsingar um tölvubúnað úreldast nánast daginn sem þær eru gefnar út. Handbókin er fáanleg í Bóksölu stúdenta.

Leiðavísir að þjónustu Reiknistofnunar var einnig endurútgefinn, en fyrsta útgáfa af honum kom út í fyrra. Í leiðavísinum er að finna gagnlegar upplýsingar, bæði fyrir nemendur og starfsmenn, um það hvaða þjónustu Reiknistofnun býður upp á og hverjir veita hana. Bæklingurinn liggur frammi í tölvuverum, í nemendaskrá og á skrifstofu Reiknstofnunar. Bæklingurinn fæst ókeypis.

Nýjung í geymslutækni
Í sumar fékk Reiknistofnun að gjöf svokallað Fujitsu „optical“ drif frá EJS. Drifið notar diska sem eru áþekkir 3,5” disklingum í útliti en munurinn er sá að gögnin eru geymd með ljóstækni en ekki segultækni og hver diskur tekur um 230MB. Hægt er að taka diskana úr drifinu og setja í annað slíkt drif á svipaðan hátt og gert er með disklinga. Þessir diskar eru orðnir vinsælir í prentiðnaði þar sem oft þarf að færa mikið magn gagna til prentsmiðju.

Þessir optical diskar (stundum kallaðir „floptical“) hafa þann kost fram yfir geisladiska að hægt er að skrifa mörgum sinnum á þá en á venjulega geisladiska er einungis hægt að skrifa einu sinni.

Endurbætur á litaprentara
Reiknstofnun keypti fyrir nokkru litaprentara sem settur er upp fyrir almenna notkun. Nokkuð bar á því að notendur lentu í vandræðum við að prenta út stórar myndir sökum minnisleysis en nú hefur Reiknstofnun keypt meira minni í prentarann og eru nú 8MB af RAM í honum.

Prentarinn er auðkenndur sem tg5color og er hann staðsettur á skrifstofu Margrétar, ritara Reiknistofnunar og geta notendur sótt útprentanir sínar þegar hún er við.

Nýtt upplýsingakerfi
1. september var Upplýsingakerfi Stjórnsýslu Háskóla Íslands, UKSHÍ, tekið í notkun. Um er að ræða byltingarkennt upplýsingakerfi ætlað til notkunar á skrifstofum stjórnsýslunnar og deildarskrifstofum.

UKSHÍ er biðlara-miðlarakerfi. Það byggist á því að kerfið og gagnagrunnurinn er keyrt á Öskju, Unix tölvu stjórnsýslunnar, en notendur nota Macintosh tölvur til að hafa samskipti við kerfi. Í framtíðinni stendur til að PC notendur geti einnig notað kerfið.

Í UKSHÍ er steypt saman mörgum kerfum sem hafa verið í notkun í skólanum undanfarin ár. Í framtíðarútgáfum UKSHÍ verður meðal annars að finna nemendaskráningu, bókhald skólans, starfsmanna- og launabókhald, þjóðskráruppflettingu og fleira.

Kerfið hefur verið hannað og þróað starfsmönnum Reiknistofnunar, þeim Sigfúsi Magnússyni, verkefnisstjóra, Árna Jónssyni og Kristjáni Gauki Kristjánssyni.

Flutningar
Í kjölfar mikilla starfsmannabreytinga og deildaskiptingar innan Reiknistofnunar munu fylgja nokkrir flutningar á starfsmönnum. Stefnt er að því að þessum flutningum verði lokið fyrir 1. nóvember. Óhjákvæmilega verður nokkur röskun á þjónustu stofnunarinnar á meðan flutningunum stendur en reynt verður að halda henni í lágmarki. Nánari fréttir af nýju skipulagi munu birtast í næsta fréttabréfi.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ