RHÍ Fréttir

nr. 26 október 1995

  

  

Sigfús Magnússon
Guðmundur Bjarni Jósepsson

Fjölgun upphringimótalda

Nokkuð hefur borið á því að ekki hafi verið hægt að ná sambandi við stofunina með mótaldi vegna þess að allar innhringilínurnar hafa verið uppteknar. Svo virðist sem sérstaklega sé erfitt að ná sambandi milli klukkan 22 og 2 á kvöldin.

Ástæðan fyrir því að Reiknistofnun hefur ekki boðið upp á fleiri innhringimótöld var sú að hún hafði ekki yfir fleiri símalínum að ráða, en eina símalínu þarf fyrir hvert mótald. Með breytingum á símanúmerum háskólans nú í sumar fjölgaði línum háskólans töluvert og skapaðist þar með grundvöllur fyrir því að Reiknistofnun fengi fleiri línur.

Stofnunin hefur nú fengið þessum línum úthlutað og stefnir að því að fjölga innhringimótöldum hjá sér á næstunni. Fyrir eru 9 lághraðamótöld (2400 bás) og 12 háhraðamótöld (14400 bás).

Reiknistofnun er þessa dagana að skoða 28800 bás mótöld og verða væntanlega 12 slík sett upp innan tíðar.

Samhliða fjölgun á innhringimótöldum hefur Reiknistofnun verið að skoða væntanlega ISDN þjónustu sem Póstur og sími er að hleypa af stokkunum.

Reiknistofnun vill ekki fjárfesta í dýrum búnaði fyrr en komið er á hreint hvernig gjaldskrá og fleiru varðandi ISDN verður háttað hjá Pósti og síma en litlar sem engar upplýsingar liggja fyrir um það.

Þar sem allt útlit er fyrir að verð á búnaði og afnotagjöld fyrir ISDN muni ekki virka hvetjandi á almenna notendur var ákveðið að fjölga mótöldunum nú.

Nánari fréttir um innhringimótöld og ISDN verða í næsta fréttabréfi.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ