RHÍ Fréttir

nr. 26 október 1995

  

  

Sæþór L. Jónsson

Endurbætur í tölvuverum

Í sumar hafa verið gerðar róttækar endurbætur á tölvuverum Reiknistofnunar. Tölvukostur hefur verið endurnýjaður, eða fluttur til og lagnir endurnýjaðar. Þá hefur sá háttur verið tekin upp að tölvur í tölvuverum ræsa sig af netþjóni þannig að fræðilega séð gætu vélarnar verið disklausar. Þetta er þó ekki gert, þar sem æskilegt er að Windows stýrikerfið sé til staðar á vélinni.

Nýtt tölvuver var sett upp í VR-II og var það fyrirmynd að þeim endurbótum sem gerðar voru í tölvuverunum. Tölvurnar eru allar tengdar með snúnum vír (Twisted Pair) beint við miðeiningu (Hub) og mynda stjörnulaga net í stað þess að vera tengdar í seríu með miðása vír (Coax). Þetta gerir vélarnar óháðari hverri annari, þannig að þó ein bili hefur hún ekki áhrif á aðrar vélar. Þegar vélarnar voru tengdar í seríu þurftu aðeins ein samskeyti, eða eitt netkort að bila til þess að allt tölvuverið varð sambandslaust við netþjón og vélarnar „frusu“.

Þá er nú á haustdögum verið að ganga frá tölvustofum fyrir Námsbraut í hjúkrunarfræði í Eirbergi og fyrir Námsbraut í sjúkraþjálfun að Vitastíg 8, en þangað voru fluttar tölvur sem áður höfðu verið í Árnagarði. Á næstu vikum verður skipulagt nýtt tölvuver Reiknistofnunar í Lögbergi.

Tölvuver RHÍ í VR-II
Tölvuverið í húsnæði Verkfræði- og Raunvísindastofnunar, VR-II sem er á annari hæð í stofu 256 er búið 10 Hyundai 90 MHz Pentium tölvum með 16 MB innra minni og 17” skjám. Hönnuð voru sérstök tölvuborð fyrir verið sem fela allar lagnir og voru þau smíðuð af innlendri smíðastofu. Þá voru lagnir lagðar eftir fölsku lofti stofunnar og faldar í lagnastaurum. Netþjónninn Eldhaf er staðsettur inni í stofunni og myndar þar vinnuhóp. Fyrirhugað er að setja upp 100 Mbit/s ethernet í tölvuverið, en það hefur tafist nokkuð vegna skorts á hugbúnaði til að setja upp svokallað BootProm fyrir netkortin, en það mál er nú leyst.

Flott mynd

Tölvuver RHÍ í eystri stofu Vetrarhallar
Tölvur í eystri stofu Vetrarhallar voru endurnýjaðar með 12 Hyundai 90 MHz Pentium tölvum með 16 MB innra minni og 15” skjám. Tölvuborðin voru endurnýjuð með svipuðum borðum og í VR-II. Lögnum var breytt í snúinn vír og tölvurnar stjörnutengdar. Netþjóninn Eldey þjónar báðum tölvuverum RHÍ í Vetrarhöll.

Tölvuver RHÍ í vestari stofu Vetrarhallar
Tölvur í vestari stofu Vetrarhallar eru af gerðinni HP Vectra 486 DX með 8 MB innra vinnsluminni og 17” skjám. Tölvuborðin voru endurnýjuð með samskonar borðum og í eystri stofunni. Lögnum var breytt í snúinn vír og tölvurnar stjörnutengdar.

Tölvuver RHÍ í Odda stofu 103
Tölvur í Odda 103 voru endurnýjaðar með 10 Hyundai 90 MHz Pentium tölvum með 16 MB innra minni og 15” skjám. Tölvuborðin voru endurnýjuð með svipuðum borðum og í Vetrarhöll, nema í stað beykispóns var valin Oregon fura í samræmi við þann við sem er ráðandi í byggingunni. Sett var upp miðeining undir prentaraborðið og lagnir faldar í leiðslustokkum undir borðunum. Lögnum var breytt í snúinn vír og tölvurnar stjörnutengdar. Netþjóninn Eldfell þjónar báðum tölvuverum RHÍ í Odda.

Tölvuver RHÍ í Odda stofu 102
Tölvur í Odda-102 voru endurnýjaðar með 18 HP Vectra 75 MHz Pentium tölvum með 16 MB innra minni og 15” skjám. Tölvuborð hafa verið hönnuð af arkitekt hússins og eru þau nú í smíði. Borðaraðir verða tvær, bogalaga og borðin tengd saman. Þar sem lagnaleiðir eru mjög takmarkaðar í Odda verða miðeiningar staðsettar undir hvorri borðaröð og lagnir faldar í leiðslustokkum undir borðunum. Lagt verður með snúnum vír og tölvurnar stjörnutengdar.

Tölvuver RHÍ í Árnagarði
Tölvur í Árnagarði voru endurnýjaðar með 18 Hyundai Super-386SE 16 MHz tölvum með 4 MB innra minni og 14” skjám. Notuð voru gömlu tölvuborðin og tölvurnar tengdar áfram með miðása kapli í seríu. Netþjóninn Eldvatn þjónar tölvuveri RHÍ í Árnagarði.

Tölvustofa RHÍ í Eirbergi
6 IBM PS/2-70 16 MHz 386DX tölvur úr Árnagarði og 6 Hyundai Super-386SE 16 MHz úr Odda, hvort tveggja með 4 MB innra minni og 14” skjám voru settar upp í tölvustofu í Eirbergi. Tölvuborð sem verið höfðu í Vetrarhöll fylgdu með. Tölvurnar eru nettengdar með sameiginlegan útprentunarmöguleika í huga.

Tölvustofa RHÍ á Vitastíg 8
8 IBM PS/2-70 16 Mhz tölvur með 4 MB innra minni og 14” skjám voru fluttar úr Odda og settar upp í tölvustofu á Vitastíg 8. Tölvuborð sem verið höfðu í Vetrarhöll fylgdu með. Tölvurnar eru nettengdar með sameiginlegan útprentunarmöguleika í huga.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ