RHÍ Fréttir

nr. 24 febrúar 1995

  

  

Douglas Brotchie

Starfsmannabreytingar

Nokkrar breytingar urðu á starfsliði stofnunarinnar nú um áramótin. Helgi Jónsson og Sigurbjartur Guðmundsson kvöddu stofnunina eftir margra ára starf, í tilfelli Helga eftir áratuga starf. Þeim er þakkað mikilvægt og árangursríkt starf í þágu stofnunarinnar; mikið hefur áunnist í uppbyggingu tölvunets háskólans og í starfsemi einmenningstölvuvera undir þeirra umsjón. Í stað Helga og Sigurbjarts koma nýir menn.


Jörg Peter Kück kemur til stofnunarinnar úr vísindastarfi á sviði jarðfræði sem hann er menntaður á. Jörg kemur til með að hafa umsjón með tölvuverum Reiknistofnunar. Einnig hefur honum verið falið að bæta gæði þjónustunnar þar og áreiðanleika hennar. Þess er vænst að framtíðarstarfsvettvangur hans verði þó umfangsmeiri.


Richard Allen kemur til okkar frá Orkustofnun með gagnlega reynslu á sviði Unix kerfisstjórnunar og kemur til að starfa hjá okkur á þessum sama vettvangi.


Sæþór L. Jónsson kemur einnig hingað frá Orkustofnun. Hann er rafmagnsverkfræðingur og mun einbeita sér að framþróun háskólanetsins. Í burðarliðnum eru áherslu- og skipulagsbreytingar á því sviði til að ná hraðari tökum á útbreiðslu netsins, þessari mjög svo mikilvægu samgönguleið háskólamanna.

Finna má upplýsingar um tölvupóstfang og símanúmer nýrra starfsmanna á öftustu síðu Fréttabréfsins.

Einnig hefur orðið endurnýjun í liði leiðbeinenda í tölvuverum. Við þökkum þeim sem sinnt hafa þessu starfi í gegnum árin af dugnaði og kostgæfni. Lítið fer yfirleitt fyrir þessum hópi en þeir veita notendum í tölvuverunum dýrmæta aðstoð og hafa oft hjálpað til við að tryggja að mikilvæg ritgerð komist til skila í réttu formi á réttum tíma. Nú hafa gengið til liðs við okkur Atli Þorbjörnsson, Berglind Guðmundsdóttir og Jónas Ingi Ragnarsson sem öll eru nemendur í tölvunarfræði. Þau bætast við Þórirana tvo, Þóri Magnússon og Þóri Sigurgeirsson.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ