RHÍ Fréttir

nr. 24 febrúar 1995

  

  

Douglas Brotchie

Svör við jólagetraun

Fyrsta hendingin á frönsku ("Que j'aime à faire apprendre ...") var, eins og glöggir frönskumælandi stærðfræðingar hafa séð, minnishjálp fyrir pí. Fjöldi stafa í hverju orði gefur töluna í samsvarandi sæti í pí (3,14159...). Spyrja mætti þó hvort ekki sé einfaldara að kalla þetta fram í vasareiknivél eftir þörfum. En fyrir frönskumælandi fólk sem þarf einhverra hluta vegna að muna þrjátíu stafi af pí þá er hér komið hjálpartæki.

Þær sex tilvitnanir sem fylgdu þar á eftir voru mjög svo persónulegt val, og að hluta til ætlað að vekja athygli og ef til vill áhuga notenda í heimspekideild, sem að öðru leyti fá ekki mikið fyrir sinn smekk í Fréttabréfi RHÍ.

Mér hefur alltaf fundist undarlegt hvernig stutt orðasamband, stundum aðeins tvö eða þrjú orð, getur verið svo gott sem einstakt í heimsbókmenntunum. Dæmi um slíkt er norska tilvitnunin "Gå udenom" sem kemur að sjálfsögðu úr Peer Gynt. ("Að sjálfsögðu?" Já, ef þú lesandi hefur sama smekk á bókmenntum og sá sem þetta skrifar ...) Þetta kemur úr þeim þætti þar sem Peer mætir Bøjg ("den store Bøjgen") - og fær þessa minnisstæðu ráðleggingu um raunsæi og gagnsemishyggju.

Þýskan ("Ich fühle Luft von anderem Planeten") er eftir Stefan George, úr kvæðinu Entrückung. Mér hefur alla tíð fundist það eftirminnilegt eins og tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins finnst greinilega einnig þegar hann vitnaði í þessa sömu orðhendingu í blaðinu 7. janúar (en náði því ekki alveg rétt, því miður). Hver veit nema hann hafi séð Fréttabréf Reiknistofnunar í desember og hugmyndin læðst að honum þá.

Ítalskan ("E quindi uscimmo a riveder le stelle") er síðasta línan í L'Inferno eftir Dante, og má segja að hún sé lofsöngur til lífsins og hamingjuvæntingar við dögun á páskasunnudegi. Línan inniheldur lof og óm af ólýsanlegri fegurð og fyrir mig er það næg ástæða til að kalla línuna aftur fram í hugann.

Í Brekkukotsannál notar Laxness tilvísanir úr latínu, dönsku og þýsku (að minnsta kosti). "Þegar hún Lykla okkar er borin" er yfirskrift átjánda kafla og kemur fyrir, margendurtekið, í kveðjulagi sem konan frá Landbroti raular, og eru andlátsorð hennar.

"Le silence éternel de ces espaces m'effraie" kemur úr Pensées Blaise Pascals, þessa snillings, heimspekings og uppfinningamanns sem er ekki alveg gleymdur af tölvuáhugamönnum eftir að Niklaus Wirth skýrði vinsælt forritunarmál í höfuð honum. Pascal skrifaði niður, að því er virðist, hverja einustu hugdettu sem hann fékk - og þær voru ekki fáar. Eftir andlát hans voru þær teknar saman og gefnar út, raðaðar og tölusettar.

Og loks rekur lestina englendingurinn (eða var hann bandaríkjamaður?) T S Eliot sem skrifaði í kvæðinu Journey of the Magi þegar vitringarnir eru loksins komnir á fæðingarstað Jesú "It was (you may say) satisfactory", þessi frábærlega stuttorðu ummæli sem eru án alls flúrs eða merkilegheita.

Ef lesendur hafa áhuga á gætum við haft framhaldsgetraun, þorragetraun: hver þeirra erlendu verka sem hér koma fram hafa verið þýdd á íslensku og hver þeirra hafa verið notuð við tónsmíðar?

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ