Douglas Brotchie
ClariNews
UseNet notendur hjá okkur hafa flestir eða allir tekið eftir því að komið er inn
nýtt safn af fréttagrúppum (umræðuhópar, tölvuskrafþing) aðgengilegar undir
UseNet (sem sagt í gegnum forritin nn, Newswatcher o.þ.h.). Þessar grúppur, sem bera
allar heiti sem byrjar á clari. eru hluti af ClariNews fréttaþjónustu sem
Reiknistofnun hefur fengið áskrift að fyrir háskólann allan.
Fjölmargar grúppur
Sem stendur er fjöldi fréttagrúppa í ClariNews yfir fjögur hundruð og fjalla þær
um hið fjölbreytilegasta efni, en öll tilheyrandi fréttaefni líðandi stundar. Við
höfum eingöngu lesaðgang að þessum grúppum og því er hvorki ætlast til né
mögulegt fyrir notendur að birta greinar þar.
Fyrst með fréttirnar
Með því að vera áskrifandi í UseNet að valinkunnum ClariNews fréttagrúppum er
hægt að fá fréttatilkynningar frá Reuters, Associated Press og fleiri, degi eða
dögum áður en þær birtast í dagblöðum hér heima (sem koma þó með þær
þýddar yfir á íslensku, en oft styttar í leiðinni).
Hraðvirkt, einfalt, fljótlegt
Sem sagt við fáum hraðvirkan aðgang að fréttaupplýsingum, og með því að gerast
áskrifandi eða fella burt áskrift á ákveðnum grúppum er hægt að skapa
fréttaflutning sérsmíðaðan að sínu eigin áhuga- eða ábyrgðarsviði. Ef þú
vilt fá upplýsingar um tennis, Tíbet og efnahagslífið í Singapore er það nú
auðsótt mál.
ClariNet Communications Corporation, sem býður upp á þessa þjónustu, setur ýmis
skilyrði fyrir notkun sem mikilvægt er fyrir notendur að kynnast. Aðal skilyrðið er
það að ekki má nota þessar fréttagrúppur til að reka eða styðja við
fréttaþjónustu.
Takmarkanir
Einnig eru ýmsar takmarkanir settar á það að hve miklu leyti er leyfilegt að
áframsenda eða endurbirta greinar sem birtast í ClariNews fréttagrúppum. Það má
umorða og einfalda þessi skilyrði og segja að ClariNews fréttagreinarnar séu fyrir
einkanotkun og óleyfilegt sé að endurbirta eða að nota þær í viðskiptalegu
samhengi eða erindi.
Notkunarreglur
Nákvæmari notkunarreglur fást hjá Reiknistofnun og er einnig að finna í gopher undir
leitarslóðinni:
Reiknistofnun/hugbúnaður/Unix hugbúnaður/ClariNet.
|