RHÍ Fréttir

nr. 24 febrúar 1995

  

  

Maríus Ólafsson

Útgáfa 6 af Internet samskiptaaðferðinni

Undanfarin fjögur ár hafa stjórnendur Internet* unnið að vali á samskiptaaðferð til að taka við af útgáfu 4 af IP. IPv4 er sú útgáfa sem notuð er í dag og gengur undir nafninu TCP/IP í daglegu tali. Vali nýrrar samskiptaaðferðar er nú lokið og verður hér gerð stutt grein fyrir hver hún verður.

Strax árið 1990 var fyrirséð að hin gríðarlega aukning á útbreiðslu Internet í heiminum myndi valda vandræðum við úthlutun einkvæmra viðfanga (addressa) á netinu. Þó svo að IPv4 geti náð til rúmlega 4 miljarða tækja á einu neti (32-bita viðföng), þá kemur uppbygging viðfanganna í veg fyrir að þetta nýtist nema að hluta. Þegar hafa verið gerðar breytingar á þessari uppbyggingu innan IPv4, en án þeirra hefðu komið upp vandræði strax á þessu ári (sjá RFC1519 „CIDR: Class-less Inter-Domain Routing“). Nú gera menn ráð fyrir því að IPv4 viðföng myndu hafa klárast einhverntíma á árunum 2005 til 2011.

Fjölmargar tillögur um nýjar samskiptaaðferðir á Internet hafa verið settar fram (sem RFC og draft-RFC) og ræddar af tækninefnd Internet (IETF eða „Internet Engineering Task Force“). Á síðasta ári settu stjórnendur Internet (IAB eða „Internet Architecture Board“) þrjár þeirra fram og fólu IETF að velja milli þeirra.

Endanlegt val stóð því á milli eftirfarandi tillagna:

  • CATNIP („Common Architecture for the Internet“). Tilgangur þessarar aðferðar er að sameina hinar ýmsu samskiptaaðferðir sem notaðar eru á staðar- og víðnetum í dag. M.a. á CATNIP að styðja CLNP (OSI), IPv4 og IPX (Novell). Viðföng þessarar aðferðar eru skv. OSI staðli (NSAP, 160 bita addressur).
  • TUBA („TCP/UDP over CLNP-Addressed Networks“). Hér er IP samskiptaaðferðinni einfaldlega skipt út fyrir OSI CLNP lagið. Engar aðrar breytingar eru gerðar. Viðföng þar með NSAP skv. OSI staðli.
  • SIPP (Simple Internet Protocol) Með þessari tillögu er reynt að þróa IPv4 áfram á eðlilegan hátt, bæði til að leysa viðfangavandann, og einnig til að bæta ýmislegt sem betur má fara í IP og búa í haginn fyrir frekari viðbætur. Ein aðalforsenda þessarar aðferðar er að hún geti keyrt samhliða IPv4 á netum og að hægt sé að flytja smám saman yfir. Enginn OSI tækni notuð (þ.e. „eign“ aðferðarinnar í heild er hjá IETF eins og með IPv4).

Á fundi IETF í ágúst 1994 var tekin ákvörðun um að velja SIPP sem IPv6. Þessi ákvörðun var tekin eftir mánaða rökræður, bæði á hinum ýmsu póstlistum á netinu og fundum IETF. Hinum tveimur aðferðunum var hafnað, aðalega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þóttu þær ekki tæknilega nægjanlega góðar (í þær vantar t.d. stoð fyrir flytjanleika, sjálfvirka uppsetningu og öryggismál). Hin ástæðan var að ekki þótti verjandi að framselja „eignarhald“ af grunnsamskiptaaðferð Internet til ISO (með því að gera Internet staðlana háða ISO stöðlum). Helstu eiginleikar IPv6 umfram IPv4 eru eftirfarandi:

  • 128 bita viðföng
  • styður sjálfvirka tengingu og uppsetningu netbúnaðar í vélum notenda („autoconfiguration
  • styður flytjanleika véla/neta („mobile computing
  • einföld þróun úr IPv4 í IPv6
  • styður rekjanleika, aðgangsöryggi og leynd á flutningslagi („authentication/encryptio>
  • stoð fyrir framtíðarviðbætur innbyggð í samskiptaaðferðina („extention headers“>

Nú er í gangi vinna við að skrifa lýsingar IPv6 (RFC) nægjanlega nákvæmlega til að byggja tæki og skrifa hugbúnað. Áætlað er að fyrstu tækin verði komin í prófanir í desember á þessu ári. Samkvæmt reglum Internet verða þessi RFC þó ekki að Internet stöðlum fyrr en til eru tvær óháðar útgáfur af hugbúnaði og notkun á þeim prófuð til hlítar á Internet sjálfu. Þeim sem vilja fræðast betur um IPv6 og þær aðferðir sem notaðar voru við val SIPP sem IPv6 er bent á að skoða
ftp://ftp.isnet.is/pub/Internet-info/ IPng/draft-ipng-recommendation-00.txt.

* þeir sem ekki eru til skv. íslenskum blaðamönnum og heimildarmönnum þeirra.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ