RHÍ Fréttir

nr. 23 desember 1994

  

  

Sigfús Magnússon

"System 7.5 sucks less"

Macintosh System 7.5 er nýjasta útgáfa kerfishugbúnaðar fyrir Macintosh tölvur. Í kerfinu er að finna yfir 50 endurbætur sem ætlað er að auka afköst notenda og að bæta vinnslu Macintosh tölva. Í mörgum tilfellum er í raun ekki um stórar endurbætur að ræða, en þær eru margar og það á víst að vega upp á móti smæð þeirra (sbr. málsháttinn: "Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi").

Að undanskildri Apple-leiðsögn og QuickDraw GX er hægt að fá allar hinar endurbæturnar með einhverju móti inn í fyrri kerfisútgáfur fyrir Macintosh. Markmið Apple með nýja kerfishugbúnaðnum er ekki að kynna nýjan búnað heldur að taka saman það sem gert hefur verið fyrir fyrri útgáfur af kerfishugbúnaði fyrir Macintosh og búa til eina hentuga útgáfu sem verður staðalbúnaður á öllum Macintosh tölvum. System 7.5 keyrir á öllum Macintosh tölvum með 4 MB RAM eða meira. System 7.5 er ekki fjölverka stýrikerfi og hefur heldur ekki minnisverndun en þær viðbætur koma í síðari útgáfum kerfishugbúnaðar fyrir Macintosh. Mun stærri hluti System 7.5 er "native" fyrir PowerMac heldur en í fyrri útgáfum kerfishugbúnaðar og verða Power Macintosh tölvur því nokkuð hraðvirkari með notkun nýju útgáfunnar.

Hér fyrir neðan verður fjallað um helstu nýjungar í System 7.5. Eins og áður sagði hefur mikið af "nýjungunum" System 7.5 verið til fyrir fyrri útgáfur kerfishugbúnaðar fyrir Macintosh. En nú eru þessar viðbætur hluti af kerfinu og eru því samhæfðari og traustari.

Finder

Þrátt fyrir að aukinn hraði hafi ekki verið yfirlýst markmið Apple með System 7.5 þá gátu þeir ekki annað en bætt ýmislegt sem hefur verið kvörtunarefni hjá notendum um langan tíma. Meðal þess sem er nú hraðvirkara er afritun skráa í Finder. Einnig mun lestur skráa vera mun hraðvirkari. Hér er upptalning á þeim hlutum sem breyttir eru og bættir í Finder:

  • Stigskipt Apple-valblað tryggir auðveldari aðgang að möppum í Apple-valblaðinu ásamt fljótlegu endurvali á skjölum, forritum og miðlurum sem nýlega hafa verið notuð
  • Endurbætt "Finna"-skipun leyfir opnun skjala beint úr "Finna"-glugganum
  • Staðsetja má minnismiða á skjáborðinu
  • Læsing Kerfismöppu og forritamöppu kemur í veg fyrir að mikilvægum skrám sé eytt af misgáningi
  • Úrklippur, minnisblöð og Smáriti leyfa flutning á upplýsingum á milli skjala með því einfaldlega að velja hlutinn, draga hann yfir í annað skjal og sleppa honum þar
  • Script Editor tekur upp þær skipanir sem framkvæmdar eru þannig að hægt er að láta tölvuna endurtaka þær sjálfvirkt
  • Felligluggi minnkar óreiðuna á skjáborðinu með því að leyfa gluggum að falla saman þannig að hægt er að komast að aftari gluggunum á einfaldan og þægilegan hátt
  • Stuðningur við harða diska allt að 4 gígabætum
  • Inniheldur klukku í valrönd, sjálfvirkan af-rofa og nýjan hugbúnað fyrir spilun hljómdiska

PowerTalk

Líkt og með marga hluti System 7.5 var PowerTalk til fyrir tíð System 7.5, en PowerTalk var hluti af System 7 Pro sem var á markaðnum í smá tíma til að rugla kaupendur. PowerTalk er búnaður til samskipta við aðrar tölvur og tæki. Með honum býðst tölvupóstur sem þarfnast ekki miðlara og margt fleira. Þegar PowerTalk hefur verið sett upp birtist pósthólf á skjáborði notanda. Pósthólfið inniheldur allan póst - hvort sem hann er að koma frá eða á leið til annarra einkatölva, gagnabanka, póstþjóna, faxtækja, raddpóstkerfa eða annars. Hægt er að fá búnað til að tengja pósthólfið við notendanafn hjá RHÍ þannig að notendur geta þá sent póst beint úr sínu uppáhaldsforriti, hvort heldur sem það heitir Word eða ClarisWorks. Með lyklakippu PowerTalk, sem einnig birtist á skjáborði, þarf notandi aðeins að slá lykilorð sitt inn einu sinni til að fá aðgang að öllum þeim skráarmiðlurum sem hann hefur aðgang að.

QuickDraw GX

Stærsta tæknilega nýjungin í System 7.5 er QuickDraw GX. Til að byrja með munu sennilega flestir notendur sleppa innsetningu QD GX vegna minnisþarfar

og vegna skorts á stuðningi búnaðinn í forritum. Aðalkostir QD GX snúa að útprentun. Notendur geta sett upp prentaratákn á skjáborðið og með hjálp"draga-sleppa" geta þeir síðan dregið skjöl á prentarann, bæði úr ritvinnslunni og af diski. Einnig geta notendur, með hjálp QD GX, búið til skjöl sem aðrir notendur geta skoðað og prentað út, óháð því hvort þeir eigi til þau forrit eða þær leturgerðir sem notaðar voru til að búa til skjalið.

Apple-leiðsögn

Í System 7 steig Apple fyrsta skrefið í átt til samhæfðs hjálparkerfis. Notendum gafst kostur á því að kveikja á svokallaðri bóluhjálp og með aðstoð hennar spurt tölvuna "Hvað er ..." spurninga. Þetta fyrirkomulag dugir hins vegar ekki í þeim tilvikum þar sem notandinn þarfnast meiri aðstoðar og vill spyrja "Hvernig get ég/á ég..." spurninga. Í System 7.5 er hjálparfyrirkomulaginu mikið breytt. Bóluhjálpin er enn til staðar en við hefur bæst Apple- leiðsögn. Í Apple-leiðsögn býðst notandanum víxlverkandi - skref fyrir skref - leiðbeiningar fyrir kerfishugbúnað og notkun Macintosh tölva. Apple-leiðsögn getur leitt notandann í gegnum ferli sem hann biður um. Til dæmis getur notandinn spurt Apple-leiðsögn "Hvernig á að prenta" og er hann þá leiddur í gegnum það ferli þar sem tölvan beinir athygli hans að aðalatriðum með því t.d. að draga rauða hringi utan um þá.

Ættu notendur að skipta í System 7.5?

Þeir notendur sem treysta tölvum sínum til að keyra System 7 ættu að skipta í 7.5, sér í lagi þeir sem eru nú að nota System 7.0 eða 7.0.1. Kerfið er öruggara auk þess að vera mun fullkomnara. Þegar notandinn hefur notað kerfið í smá tíma getur hann vart hugsað sér að skríða aftur í fornöld og fara að nota eitthvað eldra.

Apple leiðsögn

Á efri myndinni hér að ofan hefur notandinn spurt Apple-leiðsögn hvernig á að prenta.

Neðri myndin sýnir dæmi um hvernig Apple-leiðsögn segir notandanum hvað hann eigi að gera, hér með því að draga rauðan hring utan um atriði.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ