RHÍ Fréttir

nr. 31 maí 1997

  

  

Veiruvá

Veirur hafa að undanförnu valdið nokkrum usla í einmenningstölvum starfsmanna H.Í. Flestar eru þessar veirur gamlir kunningjar og árvissir gestir tölvunotenda.

Helstu ógnvaldarnir

Mikið hefur borið á fjölvaveirum (Macro viruses) og hefur veira sem nefnd er "Concept³ verið þar á-berandi. Fjölvaveirur eru bundnar við ákveðin forrit og eru oftast bæði virkar á PC- og Macintosh tölvum. Umrædd "Concept³ veira sem finnst í nokkrum afbrigðum smitar grunn-skjalið (template) "Normal.dot³, sem valið er sjálfkrafa í Microsoft Word ritvinnsluforritinu þegar það er opnað. Í kjölfarið smitast öll skjöl sem vistuð eru í forritinu. Einkenni sýk-inga geta verið margvísleg eftir afbrigðum veirunnar, en algeng einkenni eru t.d. þau að Word vill aðeins vista skjöl sem .dot í stað .doc, eða þá að forritið neitar að vista skjöl á disklingadrifið. Af öðrum flokkum veira má nefna ræsigeiraveirur sem smita ræsigeira (boot sector) PC tölva. Algengar veirur í þessum hópi eru "Form³ veira og "J&M³ veira. Afleiðingar smits af völdum þessara veira geta verið þær að ekki er unnt að ræsa tölvuna á eðlilegan máta. Til þess að eyða ræsigeiraveirum þarf oftast að ræsa tölvuna upp með ósýktum ræsidisklingi (boot disk) og eyða veirunni í kjölfarið. Helsta smitleið tölvuveira í einmenningstölvum eru sýktir disklingar.

Fyrir utan hefðbundnar veirur hefur nokkuð borið á því að fólki hafi verið sendar vafasamar keyrsluskrár sem viðhengi við tölvupóst. Slíkar skrár eru skaðlausar svo lengi sem þær er eru ekki keyrðar, en séu þær keyrðar geta þær valdið skaða í samræmi við hugmyndaauðgi höfunda þeirra.

Nýlega var svona póstur á ferðinni undir nafninu "Merry Christmas³. Ef skráin var keyrð birtist sakleysislegt uppsetningarforrit sem gaf til kynna að nú væri verið að setja upp stór-skemmtilegt forrit á tölvunni. Á meðan forritið gaf til kynna að verið væri að setja upp eitthvað nytsamlegt, var það í raun að þurrka út öll gögn af harða disknum.

Hvað er til varnar?

Reiknistofnun hefur nú hafið sérstakt átak gegn tölvuveirum. Sett hefur verið upp vefsíða þar sem hægt er að nálgast upplýsingar tengdar veirum og vörnum gegn þeim. Þar er hægt að nálgast þau veiruforrit sem fást án endurgjalds á veraldarvefnum auk leiðbeininga um notkun þeirra. Auk notkunar veiruforrita ætti fólk að vera á verði gagnvart sýktum disklingum og síðast en ekki síst að opna ekki póstviðhengi frá ókunnum sendendum án umhugsunar.

Þar sem erfitt er að birta mynd af tölvuveirum látum við þessa mynd af Herpesveiru nægja.

 

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð