RHÍ Fréttir

nr. 31 maí 1997

  

  

 

Skýr stefna INTIS skilar árangri

Sigurður Jónsson, framkvæmdarstjóri INTIS

INTIS eða Internet á Íslandi hf. er tæpra tveggja ára í formi hlutafélags en á sér langa forsögu undir hatti SURÍS og hefur þróast í nánum tengslum við háskóla- og rannsóknasamfélagið eins og Internetið hefur gert víðast hvar. Háskóli Íslands hefur lagt áherslu á að eiga aðild að félaginu og láta sig viðgang þess varða.

Stefna INTIS hefur verið og er að reka blandað net, ISnet, og sameina krafta fyrirtækja og mennta- og menningarstofnana til að reka sem hagkvæmastan aðgang að Internet. Opinberir aðilar og einkaaðilar eiga INTIS nokkurn veginn að jöfnu en eignaraðild og viðskipti ríkisins hafa smám saman farið minnkandi og einkaaðila að sama skapi aukist.

Stefna INTIS er nú að skila þeim árangri að þrefalda bandvídd ISnet til útlanda úr 2Mbit í 6Mbit og lækka gjaldskrár um leið. Þetta er uppskeran af áralangri baráttu fyrir lækkun á grunnsamböndum til útlanda og því að meginþorri notenda hefur kosið að skipa sér undir merki ISnet. Almennur vilji virðist loks vera að vakna meðal þjóðarinnar til að skapa skilyrði fyrir eðlilegri þróun Netsins með möguleikum á "stafrænni stóriðju³. Þetta kemur m.a. fram í mun sveigjanlegri verðstefnu Pósts og síma hf.

Þjónusta INTIS

Fyrsta boðorðið í þjónustu INTIS er áreiðanleiki og rekstraröryggi. Undanfarna mánuði hefur verið rennt styrkari stoðum undir þjónustuna með auknu tölvuafli, endurnýjun neteftirlitskerfa og uppsetningu varaaflgjafa.

Stærsti áfanginn í aukinni þjónustu er þó opnun nýs 2Mbit sambands til Ameríku 14. mars sem innan skamms verður stækkað í 4Mbit. Með þessu er komið á samand frá ISnet til beggja átta frá Íslandi með tilheyrandi rekstraröryggi.

Erlend samskipti

INTIS rækir samstarf við önnur rannsóknanet á Norðurlöndum með því að fara með aðild að samstarfsvettvangi þeirra í NORDUnet í umboði Háskóla Íslands. Þetta norræna samstarf hefur verið einn af hornsteinum í tengslum Íslendinga við hið alþjóðlega Internet og megum við enn margt læra af frændum vorum ekki hvað síst framsýni þeirra í framlögum til uppbyggingar á IP-grunnnetum innanlands.

Nú eru miklar hræringar í netvæðingu menntastofnana vestanhafs sem ganga undir nafninu Internet 2 og felast í hraðvirku neti menntastofnana með stuðningi ákveðinna fyrirtækja og beinum framlögum ríkisins. NORDUnet fylgist náið með þessari þróun enda gæti hún haft mikil áhrif langt út fyrir Bandaríkin.

Internetráðstefna í sumar

Næsta NORDUnetráðstefna um Internetið, sú 16. í röðinni, verður haldin á Íslandi 29. júní til 1. júlí. Ráðstefnan er öllum opin og fer fram á ensku. Fjallað verður um umdeild lagasjónarmið á Internetinu, starfsemi símafélaga og hlutverk þeirra á Netinu, netvæðingu á Norðurlöndum, í Evrópu og Ameríku, margvíslega samræmingu og skipulagningu sem fara þarf fram til að tækniþróunin og hagnýting hennar haldist í hendur. Um Internet 2 fjallar Raman Khanna frá Stanfordháskóla, formaður stefnumótunarnefndar átaksins. Við heyrum af margvíslegri reynslu við að koma gagnasöfnum á Netið og og sjá til þess aðgangur að þeim sé góður gegnum veraldarvefinn. Menn munu velta fyrir sér áhrifum Netsins á menntun og menningu, höfundarrétt og dreifingu upplýsinga sem að mörgu leyti eru óráðnar og spennandi gátur. Síðast en ekki síst verður tekist á við tæknilega þróun. Hörð glíma fer stöðugt fram við að finna nýjar og betri tæknilegar lausnir til að mæta auknum kröfum um afköst og öryggi. Unnið er hörðum höndum við endurbætur á IP samskiptastaðlinum, tilraunir fara fram með hraðvirkari sambönd og menn leita leiða til að spara bandvídd. Undir þessum hatti tala m.a. Yakov Rekhter hjá CISCO, upphafsmaður "tag switching³ hugtaksins, Bob Braden, Cengiz Alaettinoglu og Rik Farrow, allt tæknimenn í fremstu röð.

Námskeið um eldvarnir og annað öryggi á Netinu

Að ráðstefnunni lokinni heldur Rik Farrow námskeið um framfarir við gerð eldvarnarveggja og önnur öryggismál á Netinu. Rik skýrir mismunandi afköst og öryggi ólíkra leiða við uppsetningu eldvarnarveggja og bendir á mikilvæga þætti sem oft verða útundan t.d. þegar fylgst er með tilraunum til innbrota.

Sigurður Jónsson

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Fyrri blöð