RHÍ Fréttir

nr. 35 apríl 1999

 

Aldamótavandinn

  
 Ragnar Már Vilhjálmsson 
rmv@rhi.hi.is  


Undanfarin misseri hefur Reiknistofnun unnið markvisst að því að yfirfara eigin kerfi og tölvubúnað með hliðsjón af þeim vanda sem kann að skapast um aldamótin. 
Reiknistofnun mun því sjá til þess að háskólanetið, tölvur og hugbúnaður sem eru á ábyrgð Reiknistofnunar, þ.m.t. tölvuver muni vera 2000 samhæfður. 

En í hverju er 2000 vandamálið fólgið?

Vandinn er sá að unnið er með dagsetningar á tveggja stafa formi, ddmmáá (dagur, mánuður, ár). Þetta hefur það í för með sér að eldri tölvur og hugbúnaður vinna eingöngu með tölur á bilinu 00-99. Í tölvuheiminum er hugtakið "eldri" afskaplega afstætt. Þannig getur vandann jafnvel verið að finna í ekki eldri en þriggja ára tölvum. 

Hugbúnaður

Vandamálinu getum við skipt upp. Annars vegar viðurkennir hugbúnaður „00" ekki sem ártal og hins vegar, þegar reikna þarf út tíma milli tveggja dagsetninga, þar sem annað ártalið er t.d. 1997 og hitt 2011, verður niðurstaðan ekki 14 heldur 86 ár. Ástæðan er sú að hugbúnaðurinn vinnur aðeins með tvo stafi sem ártal þ.e. 97 og 11. Hér er ekki um tæknilegt vandamál að ræða heldur lítur það einungis að framkvæmd, þ.e. með hvaða hætti forritarar hafa hagað vinnu sinni. Ef ekki er brugðist við þessu vandamáli í tíma, getur rekstraröryggi þeirra stofnana sem byggja starfsemi sýna á slíkum kerfum verið í hættu. 

Vélbúnaður

Vélbúnaðarvandamál eru einnig til staðar. Einhver hluti þeirra einmenningstölva sem er í notkun kemur til með að sýna rangar dagsetningar þann 1. janúar árið 2000 og síðar. Til þess að koma í veg fyrir þetta þarf að uppfæra BIOS-kubba (Basic input output system) sem eru í tölvunum, en þeir halda utan um dagsetningar í tölvunni. Flestir framleiðendur vélbúnaðar hafa komið með lausnir á þessu og bjóða m.a. upp á BIOS-uppfærslur. 

Að lokum

Reiknistofun hefur komið á fót vefsíðu þar sem er að finna helstu vélbúnaðar- og hugbúnaðarframleiðendur. Starfsmenn Háskólans er eindregið hvattir til að skoða þessa vefsíðu:
www.rhi.hi.is/thjonusta/2000_vandamal.html 
og / eða hafa samband við notendaþjónustu RHÍ, tölvupóstur help@hi.is, sem mun veita nánari upplýsingar um hvað þarf að hafa í huga fyrir árið 2000 svo að tölvan og hugbúnaður teljist 2000 samhæfður. 

 

 

Efnisyfirlit Fyrri síða Næsta síða Útgáfuyfirlit