RHÍ Fréttir

nr. 34 maí 1998

  

  

 

 

Sagan skráð á netið

Þorkell Heiðarsson
thorkell@rhi.hi.is

Að þessu sinni kemur viðmælandi RHÍ Frétta frá Landsbókasafni Íslands. Þorsteinn Hallgrímsson aðstoðarlandsbókavörður er verkfræðingur að mennt og hefur starfað sem forstöðumaður tækniþróunar safnsins frá árinu 1994.

Viðamikið tölvukerfi í Þjóðarbókhlöðu

Að sögn Þorsteins er í Þjóðarbókhlöðu rekið viðamikið tölvukerfi með hátt í 180 PC tölvum. Þar af eru um 80 fyrir almenna notendur og um 90 fyrir starfsfólk. Kerfið er keyrt á þremur Sun Spark tölvum sem nota aftur Solaris stýrikerfið.
Ein vélin þjónar starfsmönnum og ein þjónar almennum notendum og er jafnframt gátt út í háskóla. Þriðja vélin sér um internetþjónustu auk þess sem hún er nýtt í ýmiss konar tilraunastarfsemi. Auk þessa er rekinn sérstakur geisladiskaþjónn sem tekur 28 diska og er aðgengilegur yfir netið. Bókasafnskerfið Gegnir sem flestir þekkja og Norræni vefþjónninn eru síðan keyrðir á sérstökum þjónum. Þorsteinn segir mjög góða samvinnu hafa verið við RHÍ um nokkra rekstrarþætti og hafi starfsmenn RHÍ séð um rekstur á UNIX þjónum og Gegniskerfinu ásamt miðlæga hluta nets safnsins.

Uppfærsla á búnaði nauðsynleg

Flestar PC tölvurnar í Þjóðarbókhlöðu eru af kynslóðinni 486, búnar Windows 3.11 stýrikerfinu. Bráðnauðsynlegt er orðið að uppfæra stýrikerfið á þessum vélum og fara að minnsta kosti upp í Windows 95. Að sögn Þorsteins verður í því sambandi að gera greinarmun á starfsmönnum og almennum notendum.
Væntanlega verði hafist handa við að uppfæra stýrikerfi starfsmanna í Win95 með núverandi vélbúnaði. Stóra vandamálið sé hins vegar uppfærsla á stýrikerfi notendavéla, þar sem samræma þurfi kerfið tölvuverum RHÍ og bjóða stúdentum upp á sömu þjónustu og áður. Ljóst er að Windows 95 nægi ekki til þess að halda upp öruggu netumhvarfi og því þurfi að nota Windows NT og til þess að það sé mögulegt þurfi að uppfæra vélbúnaðinn.
Þrátt fyrir að þetta sé forgangsmál hjá stofnuninni er svigrúm til tækjakaupa mjög lítið í ár m.a. vegna launahækkana starfsfólks. Því er ljóst að uppfærsla tölvubúnaðar mun bíða enn um sinn, en vonandi fæst fé til þess á fjárlögum 1999.

Ný bókasafnstækni

Fram til þessa hefur safnkostur bókasafna einkum verið prentað efni og bókfræðilegir geisladiskar með tilvísunum í prentað efni. Þorsteinn segir að talsverðar breytingar hafi orðið og búast megi við að þær verði enn meiri á næstu árum því bókasöfn standi á tímamótum vegna þeirrar byltingar í upplýsingatækni sem fari nú í hönd með sívaxandi útgáfu rafræns efnis og dreifingar þess um Alnetið ásamt aðgengi að efni á rafrænu formi í erlendum gagnabönkum.
Vægi þessa efnis vex hröðum skrefum sérstaklega þó í tæknigreinunum. Hann segir að nú séu þessi aðföng að mestu leiti viðbót við það sem fyrir sé og oft sé áskrift að slíkum gagnasöfnum dýr. Af þeim sökum eigi safnið fjárhagslega erfitt með að nýta þessar upplýsingaleiðir sem skyldi. Auk þessa séu tæknilegir örðugleikar í veginum, en þá sé þó auðveldara að leysa.
Þorsteinn segir að auk utanaðkomandi rafræns efnis séu mörg bókasöfn að gera tilraunir með yfirfærslu eigin efnis yfir á stafrænt form. Hér er helst um að ræða efni sem erfitt er að veita aðgang að, er viðkvæmt eða aðeins til á einum stað   handrit, myndrænt efni og fleira. Hann segir mikilvægan þátt í þessu vera varðveislusjónarmiðið, þ.e. að nota stafrænu gerðina sem varðveisluafrit í stað ljósmynda eða örfilma.

Sagnanet

Landsbókasafnið hefur hafið stórt verkefni á þessu sviði sem kallast sagnanetið. Verkefni þetta er unnið í samvinnu við háskólann í Cornell og Stofnun Árna Magnússonar. Verkefnið felst í því að færa íslenskar fornsögur og rímur yfir á stafrænt form og útbúa í framhaldi vefviðmót sem gerir efnið aðgengilegt notendum, m.a. í gegnum internetið. Verkefnið er mjög umfangsmikið að sögn Þorsteins, enda eru handritin um 380.000 blaðsíður og eru flest handritana geymd á Landsbókasafninu en elstu handrit fornsagna um 40.000 blaðsíður eru geymd í Árnastofnun. Áætlað er að verkið taki 3 ár og verði lokið um mitt árið 2000 og nú vinna 8 manns að verkinu hjá Landsbókasafninu. Þar hefur verið sett upp stafræn myndavél til að yfirfæra handritin á stafrænt form. Prentuðu ritin verða yfirfærð á stafrænt form í Cornell ýmist frá örfilmum eða með stafrænni myndavél. Forritun fer fram í Landsbókasafninu og vinnur Björn L. Þórðarson, sem útskrifast frá tölvunarfræðiskor HÍ í vor, að því. Þorsteinn segir áætlaðan kostnað um 92 milljónir króna og ástæða þess að Landsbókasafnið gat ráðist í þetta verk sé fyrst og fremst sú að Andrew W. Mellon stofnunin veitti safninu til þess 600.000 bandaríkjadala styrk. Ríkisstjórnin hafi einnig komið myndarlega á móti með 21 milljón króna, Eimskip, Landsíminn og Sölumiðstöð Hraðfrystihúsana hafi veitt 4 milljónir, Rannís 4 milljónir og afgangurinn komi aðallega frá Cornell og Landsbókasafninu.

sagnanet.jpg (32209 bytes)Vefsíða Sagnanetsins. Á vefnum sem er í smíðum um þessar mundir er hægt að skoða dæmi um stafræna yfirfærslu fornrita. Slóðin er: www.bok.hi.is/cgibin/saganet

 

Landsbókasafnið ætlar að nýta upplýsingatæknina enn betur í eigin starfi og til þess að verða við óskum og kröfum notendanna. Samtímis er mikilvægt að það missi ekki sjónar á hefðbundnu hlutverki sínu sem miðstöð þekkingar og fróðleiks sem fólk vill leita til. Þorsteinn segir hið tvíþætta hlutverk safnsins sem þjóðbókasafn og háskólabókasafn gefi því tækifæri til þessa en það sé um leið vandasamt því safnið verði ávallt að gæta þess að reyna að sinna báðum hlutverkum eins vel og kostur er. Til þess þurfi auk rekstrarfjár hæft starfsfólk, gott skipulag, góða aðstöðu og gott samstarf við Háskólann og aðra samstarfsaðila.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Fyrri blöð