RHÍ Fréttir

nr. 31 maí 1997

  

  

Hjálmtýr og vefurinn


Hjálmtýr í vefstólnum..

Í þessu tölublaði RHÍ frétta er boðið upp á nýjan lið. Þar er ætlunin að ræða við starfsmann Háskólans um vefnotkun hans bæði í leik og starfi. Hjálmtýr Hafsteinsson ríður á vaðið en hann er dósent við tölvunarfræðiskor ásamt því að vera í stjórn RHÍ. Hjálmtýr hefur notað vefinn nánast frá upphafi og er vefurinn orðinn hluti af daglegu lífi hans. Vefinn notar hann til þess að fylgjast með fréttum af ýmsum toga, til upplýsingaöflunar og til samskipta, m.a. við nemendur sína. Skipta má vefnotkun Hjálmtýs í nokkra flokka sem fylgja hér á eftir:

Fréttir á vefnum

Meðal þeirra staða sem Hjálmtýr heimsækir daglega eru staðir sem tengjast fréttaefni. Á vefnum má finna fjölmarga staði með slíku efni og er innhaldið eðli málsins samkvæmt síbreytilegt. Helstu staðirnir af þessu tagi sem Hjálmtýr heimsækir eru þessir:

  • www.news.com - fréttir um nánast allt sem er að gerast í tölvuheiminum.
  • www.nando.net - fréttastofa þar sem hægt er að fylgjast með fréttum almenns eðlis ásamt íþróttum í Bandaríkjunum.
  • www.telegraph.co.uk - þangað sækir Hjálmtýr upplýsingar um enska boltann.

Þessir staðir bjóða uppá ítarlegar fréttir um allt milli himins og jarðar. Oft á tíðum leitar Hjálmtýr ítarlegri upplýsinga um fréttir sem birtst hafa í smáklausum á síðum hérlendra dagblaða á fyrrgreindum stöðum á vefnum.

Rannsóknir

Með tilkomu vefsins eru rannsóknir úti í heimi gerðar mun aðgengilegri en áður. Hægt er að fá upplýsingar um allt það nýjasta, en oft á tíðum birta menn rit sín á vefnum áður en erindi eru flutt á ráðstefnum eða greinar birtast í fagtímaritum. Þetta er afar mikilvægt í jafn lifandi fræðigrein og tölvunarfræðin er. Hins vegar er enginn einn staður sem safnar saman tengingum við þessar síður og því fylgist Hjálmtýr vel með heimasíðum þeirra sem starfa á áhugasviði hans.

Kennsla

Vefurinn er orðinn mikilvægur þáttur í kennslu. Vefinn notar Hjálmtýr til dreifingar á efni til nemenda í námskeiðum sem hann kennir (sjá "Heimasíðan er sem miðstöð" Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 19. árg. 1997), en einnig til að skoða hvernig önnur sambærileg námskeið erlendis eru uppbyggð. Algengt er að háskólar erlendis séu með vefsíður fyrir námskeið og eru þar jafnvel fyrirlestrar nám-skeiðsins. Hjálmtýr ber oft saman námskeið sín og önnur sem notast við sömu kennslubók og skoðar hvernig kennarinn hefur ákveðið að nálgast efnið. Nokkuð er um að útgáfufyrirtæki námsbóka séu með vefsíður fyrir bækur sem þau gefa út. Á þessum vefsíðum eru oft ýmiskonar ítarefni eins og myndir úr bókunum sem hægt er að setja á glærur eða á heimasíður námskeiða sem nota viðkomandi bækur. Einnig er að færast í aukana að forrit sem skýra einhverja þætti bókanna séu á þessum vefsíðum.

Útgáfa

Hjálmtýr segist nota sína eigin heimasíðu til dreifingar á ýmsu efni. Heimasíðan er nokkuð stöðluð og minnkar það viðhaldsvinnu við hana. Á síðunni má meðal annars finna greinar eftir Hjálmtý og tilvísanir í vefsíður sem hafa að geyma efni tengt áhugamálum hans, t.d. hlaupasíðurnar sem hafa að geyma ýmsar upplýsingar um hlaupaíþróttina.

Topp tíu listinn

Hér á eftir fer síðan topp tíu listi Hjálmtýs yfir vefsíður.

Leitarvélar:

  • Yahoo. Ítarlegir og velflokkaðir listar.
  • Altavista. Besta og hraðvirkasta leitarvélin á Vefnum.

Almennar fréttir:

  • Nando Times. Vel uppsettar og vandaðar bandarískar fréttir.
  • Electronic Telegraph. Gott enskt dagblað. Sérstaklega ítar-legar fréttir af enska boltanum.

Tölvublöð og fréttir:

  • Tölvublöð. Listi yfir flest tölvutímarit sem hafa Vefsíður.
  • News.com. Daglegar fréttir úr tölvuheiminum. Rannsóknar- og kennsluefni:
  • CS Web Servers. Listi yfir tölvunarfræðideildir háskóla í Bandaríkjunum.
  • Computer Architecture. Heimasíða kennslubókar með mikið af ítarefni og villulista. Gott dæmi um kosti Vefsins sem dreifingar-miðils.

Almenn tímarit:

  • Slate. Mjög áhugaverðar greinar um pólitík og það sem efst er á baugi hverju sinni. Útgefið af Microsoft(!), en nær að vera óháð.
  • Runner's World. Hlaupatímaritið Runner's World hefur daglegar fréttir og fróðlegar greinar.
  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Fyrri blöð