RHÍ Fréttir |
nr. 30 febrúar 1997 |
|
|
|
|
FréttamolarDouglas Brotchie StarfsmannamálStarfsmannabreytingar voru tíðar hjá Reiknistofnun síðasta sumar, og á haustmánuðum síðasta árs urðu mestu sviptingar sem orðið hafa í starfsmannahaldi um langan tíma. Fimm starfsmenn kvöddu stofnunina á haustmánuðum, þeir Guðmundur Bjarni Jósepsson, Jörg P. Kück, Örn F. Ásgeirsson, Richard Allen og Steingrímur Birgisson. Við þökkum þeim öllum fyrir dugmikið starf í þágu stofnunarinnar og um leið óskum þeim velfarnaðar á nýjum starfsvettvöngum. Í sparnaðarskyni verður ekki ráðið í tvær af þeim stöðum sem hafa losnað. Ráðinn hefur verið til stofnunarinnar Steingrímur Óli Sigurðarson. Hann mun starfa við notendaþjónustu, í víðari merkingu þessa orðs, og kemur til með að vinna mjög náið með Ragnari Stefáni starfsbróður sínum. Steingrímur Óli kemur til okkar með tæplega tíu ára starfsreynslu í svipuðu starfi. Eins og oft vill verða með nýja starfsmenn kemur hann með nýjar hugmyndir og ferska innsýn sem kemur ábyggilega til með að gagnast stofnuninni vel. Fleiri góðir menn bættust við starfsliðið á haustmánuðum. Elías Halldór Ágústsson kom til starfa eftir að hafa öðlast fjölbreytta reynslu að undanförnu á ýmsum sviðum. Starfsvettvangur hans hjá Reiknistofnun verður við kerfisstjórn og notendaþjónustu þar í kring. Sigfús Jóhannesson rafmagnstæknifræðingur hefur einnig ráðið sig til stofnunarinnar. Eftir margra ára starf hjá SKÝRR býr hann yfir mikilli kunnáttu á rekstri tölvukerfa. Hann kemur til með að fást við skipulagningu og kerfisstjórn á Informix gagnasafnskerfi Reiknistofnunar. Síðast bera að nefna að Margrét ritari stofnunarinnar hefur farið í þriggja mánaða leyfi til Danmerkur. Á meðan Margrét er í Danaveldi mun Jenný Guðmundsdóttir sjá um afgreiðslu og önnur skrifstofustörf hjá stofnuninni. GjaldskrárbreytingStjórn Reiknistofnunar ákvað síðastliðið sumar að gera breytingu á taxta fyrir útselda vinnu starfsmanna. Þessi taxti hafði haldist óbreyttur í fimm ár og var orðinn afbrigðilega lágur. Hækkun í taxtanum sem um ræðir tók gildi 1. september. X.25 tengingFrá því 1990 hefur Reiknistofnun boðið upp á X.25 tengingu við IBM RS/6000 tölvu, "heklu", og áfram um háskólanetið. Tenging þessi var mikið notuð fyrst um sinn, en á síðasta ári hefur notkunin dottið alveg niður. Notendur eru teljandi á fingrum annarrar handar og umfang notkunar er vart mælanlegt. Á sama tíma þarf að borga tiltölulega háar fastar upphæðir til Pósts og síma fyrir fasttengingu við X.25 pakkanetið. Til þess að notkunin standi undir kostnaði þyrfti að hækka þennan lið í gjaldskrá Reiknistofnunar allverulega. Þess í stað var ákveðið að leggja niður X.25 tengingu við Reiknistofnun frá og með síðustu áramótum. Tilkynning þess efnis var send þeim fáu notendum sem höfðu nýtt sér X.25 tengingu við stofnunina á síðasta ári. Úr tölvuverumSíðasta sumar fór fram endurskoðun á starfi leiðbeinenda í tölvuverum. Starfsemi leiðbeinenda hefur í kjölfarið verið endurskilgreind, vinnutími þeirra samræmdur og boðleiðir milli þeirra og stofnunarinnar efldar. Nýtt fyrirkomulag tók gildi við upphaf háskólaárs. Með þessum ráðstöfunum eykst svo um munar gagnsemi og árangur vinnuframlags leiðbeinenda. MúsarmotturEinar J. Skúlason hf. hefur sýnt velvild í garð skólans með því að gefa nokkra tugi af góðum músamottum til notkunar í tölvuverum RHÍ. Mikil þörf er á þessum smáhlutum, sem hafa mikið að segja fyrir góða og nákvæma notkun þessa jaðartækis. Einnig hefur reynslan sýnt að tölvumýs sem lifa og hrærast á nýrri og hreinni músamottu lifa við betri heilsu og hafa meiri lífslíkur en gengur og gerist (meðal tölvumúsa ...). Er tölvudeild EJS færðar þakkir fyrir þetta framlag. Kvótar á notkun mótaldaÍ lok september á síðasta ári voru teknir upp kvótar á notkun nemenda á innhringimótöldum RHÍ. Ekki hafði verið unnt að anna eftirspurn sem var eftir þessari þjónustu. Alvarleg misnotkun nokkurra nemenda og mikil notkun annarra hefur leitt til þess að mjög erfitt hefur verið fyrir notendur að ná inn. Margir starfsmenn tengjast háskólanetinu með mótöldum og því mjög mikilvægt að línurnar séu ekki alltaf uppteknar. Með kvótakerfinu ættu fleiri notendur að eiga jafnari möguleika á að geta tengst innhringimótöldunum. |
|
Notendaþjónusta RHÍ, 16. febrúar 2000 |
Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ