RHÍ Fréttir

nr. 30 febrúar 1997

  

  

Vafrað um vefinn

Daði Kárason

Nokkuð hefur verið um að notendur hafa haft samband við Reiknistofnun með spurningar varðandi hvaða vafra (e. browser) sé best að nota. Valið stendur oftast milli Navigator frá Netscape eða Internet Explorer frá Microsoft. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að notendur séu ráðvilltir þegar kemur að vali á vafra. Varla líður sá mánuður að annaðhvort fyrirtækjanna lýsi því ekki yfir að nú hafi vafri þess verið endurbættur og muni þessar endurbætur endanlega gera útaf við keppinautinn. Microsoft virðist hafa nokkuð til síns máls í þessum efnum því markaðshlutdeild Explorer mældist mest tæp 20% undir lok síðasta árs en það er gríðarleg aukning því hlutdeild Explorer var einungis um 5% í upphafi ársins. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Navigator fallið úr um 90% niður í rúm 70%. Telja má að hluta af aukningu hlutdeildar Explorer megi rekja til þess að Microsoft lætur sinn vafra fylgja með Windows 95 og Windows NT stýrikerfunum og nær þannig beint til notenda stýrikerfanna. Slagurinn er reyndar einna mestur um nýja notendur þ.e. notendur sem tengjast Interneti í fyrsta skipti. Þetta kemur einna helst fram í Bandaríkjunum þar sem fyrirtækin leggja mikla áherslu á að koma sínum vafra inn í pakkann sem notandinn fær afhentan þegar hann fær aðgang að netinu hjá einhverri internetþjónustunni.

Af þessu má sjá að samkeppnin milli fyrirtækjanna er geysimikil, sem kemur einna helst notendum og auglýsingastofum til góða. Samt sem áður hafa samanburðarprófanir leitt í ljós að þegar á heildina er litið er ákaflega lítill munur á vöfrunum tveimur. Tölvutímarit víða um heim hafa verið iðin við að bera saman nýjustu útgáfur vafranna og eru niðurstöður oftast á þann veg að vafrarnir skiptast á að vinna og í hvert skipti með jafnlitlum mun. Forritin bjóða upp á ákaflega svipaða möguleika svo að hið endanlega val byggist í langflestum tilvikum á persónulegu mati notandans en ekki eiginleikum sem annar vafrinn hefur en hinn ekki. Samt sem áður má tína til nokkur stærri atriði, t.d. inniheldur Gold útgáfa Navigator ritil sem auðveldar mjög vefsíðugerð.

Í dag bera nýjustu útgáfur beggja vafranna útgáfunúmerið 3.01. Útgáfa 4.0 af Navigator er væntanleg innan tíðar enda hefur Netscape sent völdum aðilum útgáfuna til prófunar. Herma fregnir að í þeirri útgáfu sé stigið enn eitt skrefið í þá átt að gera Navigator að hluta af hópvinnukerfi í ætt við Lotus Notes. Svipaða sögu er að segja af Explorer. Nýjasta útgáfa hans er væntanleg á markað og lumar Microsoft víst á nokkrum nýjungum. Stefna Microsoft mun vera sú að gera Explorer að óaðskiljanlegum hluta Windows stýrikerfa fyrirtækisins. Microsoft hefur reyndar lagt mikla áherslu á að láta forrit á sínum vegum falla sem best að Internetinu og má í því sambandi nefna nýjasta afkvæmi fyrirtækisins, Office 97 forritapakkann.

Telja má Netscape til tekna hversu iðið það hefur verið við að gefa Navigator út fyrir mismunandi stýrikerfi. Þótt mest áhersla hafi verið lögð á Windows útgáfur vafrans hafa Macintosh og Unix útgáfur fylgt skammt á eftir. Þetta hefur gefið Navigator ákveðið forskot enda vafrinn allsráðandi meðal notenda þessara stýrikerfa. Microsoft hefur tekið sig á á síðustu mánuðum og undir lok síðasta árs sendi fyrirtækið frá sér útgáfu 3.0 af Explorer fyrir Windows 3.x. Í byrjun janúar kom svo sama útgáfa Explorer fyrir Macintosh og herma fregnir að Unix útgáfa sé í burðarliðnum. Telja má víst að samkeppni fyrirtækjanna muni fara harðnandi frekar en hitt á nýju ári. Því má búast við að þetta ár verði með þeim viðburðaríkari, a.m.k. á vafrasviðinu.


Nýjustu útgáfu Internet Explorer má nálgast hjá Microsoft
Nýjustu útgáfu Netscape Navigator má nálgast hjá Netscape

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf