RHÍ Fréttir

nr. 30 febrúar 1997

  

  

Ný tölva upplýsingakerfis stjórnsýslu Háskólans

Sigfús Magússon

Í nóvember síðastliðnum festi RHÍ kaup á nýrri tölvu en sú tölva er sem stendur öflugasta tölva stofnunarinnar. Tölvan er af gerðinni Sun Ultra Enterprise 150 og byggir á hinum öfluga UltraSparc örgjörva frá Sun. Hlutverk nýju tölvunnar (sem hefur hlotið nafnið Keilir) er að keyra Informix gagnasafnskerfi stjórnsýslu Háskólans sem í daglegu tali nefnist UKSHÍ (Upplýsinga Kerfi Stjórnsýslu Háskóla Íslands). Keilir leysir af hólmi tvær eldri tölvur Reiknistofnunar, þær Öskju og Dyngju sem eru af gerðinni IBM RS/6000.

Nýja tölvan er mjög frábrugðin þessum tölvum. Askja og Dyngja eru komnar nokkuð til ára sinna (6 ára) og vegna aldurs þeirra og afkasta hefur varlega verið farið í að bæta við nýjungum í UKSHÍ. Nú verður hins vegar breyting á. Nýja tölvan er mjög öflugur þjónn þar sem rekstaröryggi og afköst fara fremst í flokki. Keilir er með 128 MB minni og fimm 2,1 GB diska sem skipta má út án þess að slökkva þurfi á tölvunni (e. hot-pluggable).

Aðalgagnasafn upplýsingakerfisins verður geymt á tveimur diskum sem verða speglaðir (geyma báðir sömu upplýsingar) en það gerir það að verkum að ef annar diskurinn bilar þá glatast engin gögn. Því má kippa bilaða disknum úr meðan tölvan er í gangi og stinga inn nýjum diski án þess að það hafi áhrif á rekstur kerfisins. Tölvan hefur pláss fyrir 12 diska af þessu tagi. Keilir er fyrsta Sun Ultra Enterprise 150 tölvan sem kemur til landsins og hefur hún vakið mikla athygli fyrir útlitshönnun, en eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, er hér á ferðinni fallega hönnuð tölva.

Á sama tíma og Keilir verður tekinn í notkun verður ný útgáfa af Informix einnig tekin í notkun. Útgáfan er nokkuð breytt frá þeirri útgáfu sem keyrir nú á tölvum RHÍ. Með nýju útgáfunni fylgir vefþjónn sem einfaldar mjög tengingar við gagnagrunninn þannig að nú verður auðveldara að veita aðgengi að UKSHÍ yfir vefinn. Þetta þýðir að notendur koma til með að geta notað einhvern vafra (t.d. Netscape Navigator) til að nálgast hluta af UKSHÍ. Verður þetta vafalaust til að einfalda aðgengi deilda skólans að upplýsingum um nemendur og starfsmenn. Nú er unnið að því hjá RHÍ að gera deildum, skorum og stofnunum skólans kleift að fylgjast með launakostnaði gegnum UKSHÍ, en þetta verður fyrsti hluti af aðgengi þessara eininga að starfsmannakerfi skólans. Gera má ráð fyrir að þessi hluti kerfisins verði tilbúinn í mars á þessu ári.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ