RHÍ Fréttir |
nr. 32 desember 1997 |
|
|
|
|
Sæþór L. Jónsson slj@rhi.hi.is Fréttir af netmálum 1997 Hér að neðan eru nokkrir punktar um framkvæmdir í netmálum HÍ 1997. Spurt hefur verið hvort ekki sé að verða búið að leggja tölvulagnir í öll hús, en svo er ekki. Þá má búast við að þegar loks verður búið að endurnýja í eldri húsum og leggja nýlagnir þar sem þær hafa ekki verið fyrir, þá verði allt orðið úrelt. Það er mín skoðun að kostnaður við tölvu- og símanet verði að skoða sem rekstrarlið en ekki fjárfestingu og afskrifa á 5-10 árum. Nýtengingar Nú er lokið lagningu innanhússnets á Grensásvegi 12 þar sem Líffræðistofnun HÍ er til húsa. Nú þegar hafa um 12 tölvur og prentarar verið verið tengdar netinu. Húsið er tengt HÍnet með 28.8 kbps mótöldum á fastri leigulínu. Það léttir starfsmönnum mikið að þurfa ekki að berjast daglangt við að tengjast yfirhlöðnum mótöldum RHÍ og vonandi þarf enginn að aka með tölvupóstinn sinn í framtíðinni frá Grensásvegi 12. Nýjar og breyttar lagnir Lokið er lagningu nútíma tölvunets 100BaseT í 3. hæð í Haga, Penthouse hæðinni. Hagi og Neshagi 16 tengjast HÍnet með 2 Mbps örbylgjutengingu við Árnagarð. Starfsmenn Raunvís eru að mestu fluttir á svæðið. Endurnýjaðar hafa verið lagnir í tölvuveri í Árnagarði um leið og borð og stólar, en 10 Pentíum tölvur úr Odda 103 voru fluttar í Árnagarð. Þá voru lagðar sérstakar netlagnir fyrir nýja tölvuverið í Læknagarði sem verið er að setja upp. Tilraunir með nettengingar Tilraunin með að nettengja Skólabæ með innanhúss ISDN línum frá tilraunasímstöð HÍ hefur gefist vel. Það er gert með því að önnur innanhúss ISDN línan er tengd við beini í vélasal RHÍ, en hin er framlengd með sérstökum ISDN framlengingum yfir 19.2 kbps fasta leigulínu í Skólabæ. Þar af leiðir að nettengingin er innanhúss upphringing í gegnum nýju Alcatel tilraunastöð P&S , sem telur engin bæjarlínuskref. Ein 8 hús eru nú tengd á 19.2 kbps leigulínum, en stefnan er að færa þau sem hægt er yfir á ISDN innanhússtengingu. Nýtt húsnæði Síðla sumars var ákveðið að setja niður nokkra starfsmenn og meistaranema í Íþróttahúsið, sem þá var ónettengt. Ákveðið var að leggja varanlegt innanhúsnet á þá staði sem átti að nýta. Þá var ákveðið að tengja húsið með ljósleiðara við Aðalbyggingu HÍ. Því verki lauk um mánaðarmót sept.- okt. Þá áskotnaðist HÍ kjallarinn í Nýja Garði. En fyrirhugað var að hann yrði afhentur um mitt ár 1998. Brugðist var hart við og lagt tölvu- og símanet í húsið. Uppi hafa verið hugmyndir um að setja þar niður tölvuver RHÍ, en húsnæðið er allt heldur óhentugt, mjó og löng herbergi og burðarveggir sem óárennilegt er að saga niður. Húsið er annars í glimrandi ljósleiðaratengingu. Ljósleiðaralagnir Grafin hafa verið ljósleiðararör inn í byggingu Félagsstofnunar Stúdenta við Hringbaut þar sem Stúdentaráð er til húsa, en þeir munu verða tengdir nú í vetur. Og þar sem leiðin lá framhjá Jarðfræðahúsi HÍ var upplagt að læða röri inn í það og settur niður brunnur til móts við húsið mitt. Verið er að ganga frá ljósleiðaratengingunni þessa dagana. Endurnýjun netlagna í Aðalbyggingu Hafin er tangarsókn við endurnýjun netsins í Aðalbyggingu HÍ. Tekin er ein hlið í einni álmu í senn. Lokið hefur verið við framhlið fyrstu hæðar. Endurnýjunin fylgir gjarnan annarri endurnýjun og endurskipulagningu í húsinu. Í nemendaskrá er til dæmis fyrirhuguð endurskipulagning næsta sumar og verða þá allar netlagnir á þeirri hlið endurnýjaðar. Lokið er lagningu nets í kjallara norðurenda hjá jarðfræðingum og í öllu svæðinu sem áður hýsti bókasafnið. Læknadeild netvædd Byrjað er á netlögnum í Læknagarði. Gerður hefur verið samningur við verktaka og verður 5. hæð tekin fyrir fyrst. Því verki lýkur um miðjan nóvember. Læknagarður er mikið hús og mun duga okkur fram eftir ári. Vegna lengdar lagna verður að staðsetja tölvulagnaskáp á hverri hæð, en í hann er síðan lagður ljósleiðari og símastofn. Skipulagning á netlögnum í Eirbergi er hafin og stefnt að því að leggja þær fyrir áramót. Æskilegt er að styrkja nettengingu hússins við HÍnet og kemur þar örbylgjutenging helst til greina. En með 2 Mbps örbylgjutengingu opnast leið fyrir opnun tölvuvers í Eirbergi. Þá verður nettengingin ekkilengur flöskuháls, en einhver annar tekur við. Í Eirbergi hefur hingað til eingöngu verið boðið upp á PhoneNet en nú verður breyting á og PC menningin getur haldið innreið sína. Verið er að ljúka við innanhúslagnir í Sóltúni 1. Þar eru til húsa starfsmenn Læknadeildar. Þá verður húsið tengt HInet í beinu framhaldi. Tvö hús kvödd Tvö hús fóru úr okkar þjónustu. Þau eru Loftskeytastöðin og Græna Myllan. Loftskeytastöðin fer til Pósts og Síma hf. sem símaminjasafn, en Myllan verður að eftirlitsskúr við nýja Náttúrufræðahúsið í Vatnsmýrinni. Næg verkefni framundan Þrátt fyrir þetta er ekki útlit fyrir að við verðum uppiskroppa með verkefni, því ótengd eru hús eins og Grensásvegur 11 og Mannfræðistofnun HÍ svo nokkuð sé nefnt. Fréttir af netmálum verða í framtíðinni skráðar á slóðina : http://www.rhi.hi.is/atburdarskra/
|
|
Notendaþjónusta RHÍ, 16. febrúar 2000 |