RHÍ Fréttir

nr. 32 desember 1997

  

  

 

Fjarkennsluver opnað í Odda

Nýtt og fullkomið fjarkennsluver hefur nú verið opnað í kjallara Odda. Fjarkennsluverið eða myndsímaverið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Pósts og Síma. Tækjabúnaðurinn í verinu var lánaður af Pósti og Síma til tveggja ára og voru forsendurnar fyrir því þær að fyrirtækið vill fá frekari reynslu og kynningu á búnaðinum. Innan Háskólanna er áhugi á að reyna þennan búnað meðal annars í þeim tilgangi að auka tengsl skólanna og nýta sérfræðiþekkingu á báðum stöðum á nýjan og þægilegan máta. Guðrún Geirsdóttir er verkefnisstjóri þessa verkefnis og segir hún að innan kennslufræðinnar sé sérstakur áhugi á þessari tækni, þar sem þetta sé sérstakt viðfang innan fræðigreinarinnar, tækni sem eflaust er komin til að vera. Búnaðurinn í verinu er af gerðinni PictureTel og er hann með því fullkomnasta sem hægt er að fá í slík ver um þessar mundir. Þessi búnaður samanstendur af skjáum, myndavélum, tölvu og púlti með stjórnborði. Með stjórnborðinu er auðvelt að stýra því hvað fjarendinn sér hverju sinni og er þannig mögulegt að skipta á milli töflu, glæru, nemenda, kennara, tölvu og myndvarpa. Búnaðurinn er keyrður í gegnum símstöð af gerðinni Alcatel sem staðsett er í Aðalbyggingu, en þetta er tilraunastöð Pósts og síma með samnetsmöguleika (ISDN). Notaðar eru þrjár ISDN grunnlínur sem gefa 384 KB á sekúndu. Þessa dagana standa yfir samningar um kaup Háskóla Íslands á stöðinni og verður hún væntanlega uppsett í maí á næsta ári.

Þótt búnaðurinn sé keyrður á samneti hér er tæknin þó ekki bundin við símalínur.Að sögn Guðrúnar var búnaðurinn prufukeyrður nýlega með sameiginlegri málstofu nemenda og kennara í uppeldis og menntunarfræði við H.Í. og H.A. Umræðuefni málstofunnar var fjarkennsla á háskólastigi. Guðrún segir næstu skref verða að fá fleiri kennara og nemendahópa til að reyna tæknina við kennslu og sem lið í auknu samstarfi háskólanna.

Áhugasamir geta aflað sér frekari upplýsinga hjá Guðrúnu Geirsdóttur

gudgeirs@hi.is
s: 5254574

 

Fyrsta kennslustundin í nýja verinu í Odda. Þátttakendur eru nemendur og kennarar við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

 

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Fyrri blöð