RHÍ Fréttir

nr. 29 apríl 1996

  

  

Háskólanet, upplýsingatækni - löngun, áform og raunveruleiki

Douglas Brotchie

Reiknistofnun lagði fram fyrir áramótin tillögur að tveggja ára áætlun um nauðsynlegustu endurbætur og nýjungar í framþróun og útvíkkun háskólanetsins, í tengingarmálum húsa, innri netmál þeirra og fjölgun og endurbætur í almennum tölvuverum.

Meðal annars var lagt til:

  • Endurskipulagning á netmænu ("backbone") háskólanets og á innanhússnetum Aðalbyggingar, Odda og Tæknigarðs
  • Skipulagning og framkvæmdir: á innanhússneti Læknagarðs, í tengingarmálum Aragötu 3, Ármúla 1, Ármúla 30, Sóltúns 1, Læknagarðs, Norræna hússins, Nýja Garðs, Reykjavíkur Apóteks, og í sambandi við tölvuver í Læknagarði, Eirbergi og á Vitastíg
  • Skipulagning og framkvæmdir á nauðsynlegri endurnýjun á búnaði í tölvuverum í Eirberg, Odda, á Vitastíg og í Vetrarhöll
  • Fjölgun á innhringimótöldum
  • Skipulagning á netmálum náttúrufræðihússins.
Hér er nefndur aðeins hluti af þeim 34 efnisatriðum sem tillögur okkar tóku til. Við vorum hógværir í áætlunargerð, nefndum aðeins það brýnasta. Mörg þessara mála eru mjög aðkallandi; starfsmenn Reiknistofnunar gera sér sennilega manna best grein fyrir núverandi ástandi þar sem netið er annað hvort ekki komið til allra eða er ótryggt í rekstri þar sem það er til staðar. Þetta er daglegt viðfangs- og áhyggjuefni okkar; við sjáum mjög vel hvar skórinn kreppir.

Tillögur okkar voru í anda skýrslu sem unnin var í hittiðfyrra fyrir háskólaráð af nefnd sem hafði það hlutverk að koma með drög að stefnu í upplýsingatæknimálum fyrir HÍ. Skýrslan var gefin út af starfshópi í janúar 1995 og afgreidd af háskólaráði í nóvember sama ár.

Þegar þetta er skrifað er með öllu óvisst hvaða fjármagn verður skammtað og úthlutað til þessara málaflokka á yfirstandandi ári. Þar af leiðandi er ómögulegt að segja til um hvað hægt verður að gera. Hér eins og annars staðar er þrengt svo að skólanum að eðlileg útbreiðsla og notkun upplýsingatækni er gerð ókleif.

Á sama tíma er forvitnilegt og ekki síður ánægjulegt að lesa í nýútkomnum tillögum menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni ("Í krafti upplýsinga") að "nýta verður upplýsingatækni til að bæta menntun þjóðarinnar og þar með samkeppnishæfi hennar." Við getum ábyggilega öll tekið undir þá yfirlýsingu og við leitum logandi ljósi að tækifæri til að koma henni í framkvæmd.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ