RHÍ Fréttir

nr. 29 apríl 1996

  

  

Strandverðir meira spennandi en Internetið?

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Reiknistofnun hefur í mörg ár rekið innhringiþjónustu fyrir notendur sína. Á síðustu misserum hefur eftirspurnin eftir þessari þjónustu aukist svo að þau mótöld sem til staðar eru anna henni ekki, þrátt fyrir að háhraðamótöldum hafi verið fjölgað um 100% í desember á síðasta ári.

Við mælingar á notkun mótalda í nóvember á kom í ljós að Reiknistofnun á óvæntan bandamann sem dregur úr notkun mótalda einu sinni í viku. Hér er átt við engann annan en strandvörðinn Pamelu Anderson Lee!

Milli klukkan 19 og 20 á laugardögum dregur umtalsvert úr notkun innhringimótaldanna. Eins og sjá má á línuritinu hér að neðan tekur það stóra dýfu laust eftir klukkan 19 og notkunin fer ekki að aukast fyrr en eftir klukkan 20.


Notkun háhraðamótalda hjá Reiknistofnun einn laugardag í nóvember í fyrra

Gífurleg notkun
Mælingin var gerð þegar flestir nemendur voru að hefja próflestur fyrir jólapróf og hefur það eflaust dregið úr notkun mótaldana. Þrátt fyrir það sést að á þessum tíma var nær vonlaust að ná inn nema milli 6 og 12 á morgnana. Rétt er að taka fram mælingin var gerð áður en 28.800 bps mótöldin voru sett upp.

Ástandið skánaði lítið eitt þegar nýju mótöldin voru sett upp en fljótlega upp úr áramótum var allt komið í sama farið aftur og erfitt að ná inn.

Í febrúar tengdust 900 mismunandi notendur innhringimótöldunum. Aðilar sem selja Internetaðgang segja að ekki megi fleiri en 10 - 15 notendur vera um hvert mótald. Þetta þýðir að Reiknistofnun þyrfti að eiga og reka 60 - 90 háhraðamótöld til að anna eftirspurninni svo vel væri. Í dag eru háhraðamótöldin 24 talsins.

Úrbætur
Undanfarið hafa tillögur til úrlausnar þessum vanda verið ræddar innan Reiknistofnunar. Ljóst er að ýmsar leiðar bjóðast en þær henta ekki allar jafn vel.

Þau mótöld sem Reiknstofnun rekur í dag eru öll stök og þurfa mikið eftirlit. Fullvíst er að ekki verður varið út í að fjölga slíkum mótöldum. Önnur leið er að kaupa mótaldarekka (e. modem rack) sem hægt er að stýra fullkomlega og fylgjast með á tölvuskjá en slíkur búnaður er mjög dýr.

Lagðar hafa verið tillögur fyrir stjórn Reiknistofnunar og verður gerð grein fyrir niðurstöðum síðar.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ