RHÍ Fréttir

nr. 29 apríl 1996

  

  

Athuganir vinnuhóps um Windows 95

Sigfús Magnússon

Nokkru áður en nýtt stýrikerfi, Windows 95, kom á markaðinn frá Microsoft fengu starfsmenn RHÍ tilraunaeintak í hendurnar og voru strax hafnar tilraunir með uppsetningu á stýrikerfinu, bæði með tilliti til uppsetningar á háskólanetinu og einnig í tölvuverum RHÍ. Nú hefur verið unnið markvisst að tilraunum með uppsetningu Windows 95 í tölvuverum RHÍ í nokkra mánuði. Þessi skýrsla fjallar í stuttu máli um þetta annars flókna mál og greinir frá helstu niðurstöðum.

Uppsetning og rekstur í dag
Áður en fjallað verður um tilraunir með uppsetningu Windows 95 í tölvuverum RHÍ er best að fjalla lítillega um uppsetningu og rekstur á tölvum í tölvuverunum í dag. Í tölvuverum og tölvustofum RHÍ eru í kringum 135 tölvur og keyra þær flestar Windows 3.x stýrikerfi frá Microsoft. Í tengslum við endurnýjun og fjölgun tölva síðastliðið vor og sumar var ráðist í að gera uppsetninguna örugga og viðhaldsfría og tókst það vonum framar. Tölvurnar nota s.k. BootP í ræsingu sem gerir það að verkum að stýrikerfi tölvanna (MS-DOS) er ekki geymt á innri diskum tölvanna heldur er það lesið yfir netið af netþjónum ásamt öðrum notendaforritum. Slík uppsetning minnkar hættu á t.d. vírussmiti, hindrar breytingar notenda á uppsetningu tölvanna og síðast en ekki síst auðveldar fyrirkomulagið umsjónarmanni tölvuvera að breyta uppsetningum allra tölvanna í einu og getur hann gert það frá skrifstofu sinni. Þess má geta að á síðasta ári fjölgaði tölvum í umsjón hans um 80% án þess að hann þurfi að eyða meiri tíma í rekstur þeirra og því má þakka vel heppnaðri uppsetningu tölvanna.

Netþjónar í tölvuverum hafa um árabil keyrt netstýrikerfið NFS. Eytt hefur verið miklum tíma í að útbúa umhverfi í tölvuverum sem þjónar hagsmunum bæði viðskiptavina stofnunarinnar og RHÍ, ásamt því að vera öruggt og hefur mikið verið fjárfest í þekkingu og búnaði. Það kerfi sem RHÍ hefur þróað er gott og er nemendum boðið upp á samræmt umhverfi óháð því í hvaða tölvuveri þeir vinna. Þeir geta nálgast heimasafn sitt frá öllum tölvum og kerfið gerir RHÍ t.d. kleift að gjaldfæra útprentun nemenda.

Niðurstöður
Nú hefur vinnuhópurinn, undir forystu Jörg P. Kück, sem settur var saman til að skoða uppsetningu á Windows 95 í tölvuverunum, unnið í nokkra mánuði. Helsta markmið hans var að finna lausn á uppsetningu Windows 95 án þess að fórnað yrði eftirfarandi þáttum sem nú eru til staðar í tölvuverum RHÍ:

  • Öryggi
  • Áreiðanleiki
  • Viðhalds- og rekstarkostnaður í lágmarki

Vinnuhópurinn hefur á síðustu mánuðum átt samskipti við umboðsmenn Microsoft, framleiðendur netstýrikerfa og netstýrihugbúnaðs ásamt því að hafa ráðfært sig við starfsmenn reiknistofnana hjá háskólum erlendis og sótt námskeið. Fljótlega tókst vinnuhópnum að setja upp Windows 95 á svipaðan hátt og Windows 3.x er sett upp í tölvuverunum í dag en fallið var frá þeirri lausn þar sem tölvurnar urðu óheyrilega hægvirkar og netumferð rauk upp úr öllu valdi. Síðan hefur verið unnið að því að skoða aðrar lausnir og enn sem komið er hefur engin lausn fundist sem komið gæti til greina en nokkrar hugmyndir hafa komið fram sem til stendur að prófa.

Ljóst er að Windows 95 passar ekki beint inn í það umhverfi sem RHÍ hefur þróað á undanförnum árum enda bjuggust varla bjartsýnustu menn við því. Hins vegar hefur komið á óvart hversu illa Windows 95 passar í umhverfið og í ljós hefur komið að ef ákveðið verður að setja upp Windows 95 í tölvuverum RHÍ í sumar þá koma til greina tveir möguleikar: 1. Setja upp Windows 95 á hverja tölvu og fórna þá öryggi, áreiðanleika sem um leið eykur viðhald. Slíkt myndi kalla á margföldun á rekstrarkostnaði við tölvuver RHÍ og fjölga þyrfti umsjónarmönnum tölvuvera. 2. Skipta um netstýrikerfi og kaupa búnað og þekkingu fyrir stórar fjárhæðir. Eins og áður hefur komið fram höfum við síðustu ár reitt okkur á NFS sem netstýrikerfi okkar og lætur nærri að fjárfestingar í hug- og vélbúnaði ásamt þekkingu starfs-manna okkar hlaupi á milljónum ef ekki tugum milljóna króna.

Framhaldið
NT og NFS og munum halda því áfram. Það yrðu hins vegar mistök að leggja allt kapp á að setja upp Windows 95 í tölvuverum nú í sumar þar sem það virðist hvorki þjóna hagsmunum okkar né viðskiptavina okkar. Þess má geta að þrátt fyrir að ýmsar athugasemdir og ábendingar hafi borist bæði starfsmönnum RHÍ og leiðbeinendum frá nemendum þá hefur engin slík beinst að stýrikerfum í tölvuverum.

Á næstu vikum og mánuðum munum við halda áfram að skoða ný net- og tölvustýrikerfi. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna okkur nýjar lausnir með það fyrir augum að hafa sem víðtækasta þekkingu til að ekki verði hætta á að við verðum tæknilega einangraðir. Við stefnum einnig að því að gera tilraunir okkar sýnilegri og þá með tilkomu tilraunatölvuvera.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Önnur fréttabréf RHÍ