RHÍ Fréttir |
nr. 24 febrúar 1995 |
|
|
|
|
Kristján Gaukur Kristjánsson Hugleiðingar um hættur tölvaTölvur eru komnar inn í líf okkar flestra og með hverju ári sem líður fjölgar þeim neysluvörum, tækjum og tólum sem er stýrt eða framleidd af tölvum. Af þeim sem lesa þessa grein getur enginn sagst hafa sloppið við tölvutæknina, þessi grein er jú skrifuð á tölvu. Er ekki komið nóg? Getum við þolað það að allt okkar líf sé tölvustýrt? Á öðrum stað í þessu fréttabréfi er lítill kafli um það hversu hættulegar tölvur geta verið námi með því að forða okkur frá því að hugsa. Tölvur eru vissulega orðnar að öflugum einkaþjónum sem geta nýst manninum á flestum sviðum og má segja að ekki sé til sú námsgrein (eða það áhugasvið) sem ekki hafi notið góðs af einhverjum hugbúnaði. Hérna er sem sagt komið tæki sem gerir námsfólki það mögulegt að leggja öllu sem hingað til hefur heitið námsgögn og innan skamms verður hægt að þekkja námsmenn á skólatölvunni sem koma mun í stað skólatöskunnar. Er þetta þróun sem við viljum sjá? Þjóðfélag okkar byggir á samskiptum og upplýsingastreymi. Maðurinn fann upp ritmálið til þess að auðvelda dreifingu upplýsinga. Síðar, með aukinni tæknivæðingu, komu blýantar og önnur ritföng. Öll sú þróun hefur stefnt að því að gera sem flestum kleift að taka þátt á sem einfaldastan hátt. Nú er svo komið að tölvurnar eru að taka yfir þetta samskiptaform með því að rafvæða og innbyggja gömlu tólin okkar í hugbúnað sem ekki aðeins nýtist okkur gömlu notendum þeirra, heldur einnig fjölda fólks sem áður hafði ekki tækifæri eða getu til þess að vera með. Ber okkur að kenna að draga til stafs með blýanti og strokleðri? Ber okkur að sjá til þess að allir geti framkvæmt grunnaðgerðir stærðfræðinnar á blaði með blýantinn einan að vopni? Í fljótu bragði virðast ofangreindar hugleiðingar að mestu leyti vera menningarspursmál. Hvort rétt sé að halda í þá þekkingu og þær aðferðir sem fyrri kynslóðir höfðu yfir að ráða. Hvort bókin eigi áfram að vera miðpunktur menningar okkar. En hvað er bók annað en framsetning á hugmyndum okkar og hví ber að meta einn framsetningarmáta umfram annan? Er tölva nokkuð annað en tæki til þess að setja fram þekkingu okkar og hugmyndir á meðfærilegri hátt? Að þeim gefnum forsendum þá er tölvan tól sem nýtist við upplýsingaöflun og lausn vandamála, ef sá sem hana notar kann að nýta sér þá möguleika, og þessir möguleikar eru svo miklu víðtækari heldur en nokkuð það annað sem á undan hefur komið að okkur ber að leggja mikla áherslu á að kenna fólki að nýta sér þá. Hvað með nemandann sem ekki vill kunna sjö sinnum töfluna? Hér verðum við að spyrja okkur hvort utanbókarlærdómur á því sem við höfum talið grunn þekkingu sé nauðsynlegur. Er ekki nóg að við kennum þessum nemanda að kalla fram þessa þekkingu þegar minnst varir? Einnig verður að taka tillit til þess hvort að það nám sem nemandinn er í (þeir hæfileikar sem hann á að búa yfir að náminu loknu) krefjist utanbókarlærdóms. Þar hlýtur jú að koma til kasta kennarans sem á að prófa skilning nemandans á námsefninu og hæfileika hans til að leysa verkefni með þeim tólum sem til staðar eru. Þekking án skilnings getur jú verið allt að því hættuleg. Nú má spyrja: týnum við ekki öllu manngildi ef við einblínum of mikið á tölvur? Svar: maðurinn er í eðli sínu félagsvera og tölvur einar og sér geta ekki breytt því. En auðvitað ber að hugsa rækilega um það á hvern hátt þessi tól eru nýtt og hlúa að þeim sem vilja þróa tölvutæknina á þann hátt að manngildi og þroski eflist. Það verður ekki gert með því að útskúfa þessari tækni því að það yrði eflaust til þess að hún lenti inn á mannfjandsamlegri þróunarbraut sem erfitt yrði að snúa af. Taki menn þessi tól í sátt og stuðli að því að þau séu notuð á uppbyggilegan hátt frá fyrstu skrefum alls náms verður fljótlega hægt að segja: Tölvur: Þarfasti þjónninn! |
|
Notendaþjónusta RHÍ, 16. febrúar 2000 |
Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ