RHÍ Fréttir

nr. 27 desember 1995

  

  

Jörg P. Kuck

Hugbúnaðarframboð í tölvuverum RHÍ

Eins og fram kom í síðasta tölublaði RHÍ Frétta hafa átt sér stað umfangsmiklar breytingar í tölvuverunum í sumar hvað varðar netlagnir, húsgögn og ekki síst uppfærslu á vélbúnaði. Tölvuverunum fjölgaði einnig og er nemendunum nú boðið upp á tölvuaðstöðu í VR-II svo og í Eirbergi og á Vitastíg, þar sem námsbrautirnar í Hjúkrunarfræði og Sjúkraþjálfun eru til húsa. Þar með eru tölvustofurnar og tölvuverin á ábyrgð RHÍ orðin níu talsins.

Margir notendur munu einnig hafa tekið eftir nokkrum breytingum á hugbúnaðarframboði í tölvuverum RHÍ. Boðið er upp á ýmsan hugbúnað á nýju Pentium tölvunum sem hefði verið illkeyranlegur á gömlu einmenningstölvunum. Það er markmið þessa greinakorns að kynna í stuttu máli helstu forritin í tölvuverunum í dag.

Framboð forrita í tölvuverum ræðst aðallega af tveimur þáttum:

a) þörfum nemenda á nauðsynlegum hugbúnaði til að sinna daglegum störfum sem háskólanám hefur í för með sér. Hér er aðallega um að ræða hugbúnað eins og ritvinnsluforrit, töflureikni, tölfræðiforrit og forrit til að tengjast fjölnotendatölvum RHÍ. Slíkur hugbúnaður er að jafnaði eins uppsettur í öllum tölvuverunum ef aðstæðurnar leyfa. RHÍ ber kostnað af þessum hugbúnaði ásamt kostnaði við stýrikerfi, gluggaumhverfi og netstýrihugbúnaði.

b) þörfum kennara og nemenda á ýmsum hugbúnaði sem oftast er notaður í kennslu einstakra áfanga eða við það að leysa sérhæfð verkefni. Forrit af þessum toga eru yfirleitt ekki sett upp alls staðar heldur einungis í sumum tölvuverum. Forritin CBS (tölfræðiforrit fyrir viðskiptafræði, Oddi 102 og 103) eða Pro-Cite (gagnagrunnur fyrir bókasafnsfræðinga í Odda og í Árnagarði) tilheyra þessum flokki svo dæmi séu tekin. Uppsetning þessa hugbúnaðar er kostuð að öllu jöfnu af kennurum, deildum eða skorum. Ritvinnsluforrit og töflureiknir eru ef til vill mikilvægustu tólin sem námsmaður í Háskóla þarf á að halda. Ritgerðasmið, frágangur verkefna og uppsetning gagna á töfluformi og í línuritum er daglegt brauð allra sem eru að fást við rannsóknir af einhverjum toga.

Boðið er upp á Word 6.0a og Excel 5.0a á öllum Pentium tölvum í tölvuverunum í VR-II, í Odda og í Vetrarhöll en eldri útgáfur af þessum forritum eru uppsettar alls staðar annars staðar. Þó að Word sé eitt vinsælasta ritvinnsluforrit allra tíma geta nemendur valið á milli fjölda annara ritvinnsluforrita og ritla. WordPerfect 5.0, Word Perfect fyrir Windows 5.1 og MicroEmacs eiga sér fasta (en sennilega fáa) notendur sem ekki eru tilbúnir að yfirgefa þau vinnuumhverfi sem þykja notaleg og hentug til að leysa aðkallandi verkefni. Þess má geta að PowerPoint 4.0 (forrit til að búa til kynningarefni og glærur) er aðgengilegt í tölvuveri í VR-II.

Á undanförnu ári hefur verið ein helsta ósk bæði kennara og nemenda að sett yrði upp í tölvuverum forrit með grafísku notendaviðmóti fyrir upplýsingaleit á Veraldarvefnum (World-Wide-Web). Staðreynd er að notkunin á Interneti hefur aukist mjög með tilkomu flakkaforrita eins og Mosaic og NetScape og segja má að slík forrit séu sannkölluð „Killer Applications“ fyrir Internet. RHÍ býður í dag nemendum Háskólans aðgang að NetScape 1.2N á öllum Pentium tölvum í tölvuverum sínum. Í öllum tölvuverum geta nemendur tengst Internetinu með telnet bæði í MS-DOS og í Windows umhverfinu. Benda má á að ekki er boðið upp á þessa þjónustu í tölvustofum í Eirbergi og á Vitastíg enn sem komið er vegna þess að þessi hús eru ekki ennþá að fullu tengd háskólanetinu.

Í tölvuverunum í Odda er að finna hugbúnað sem einungis er settur upp þar. Sem dæmi mætti nefna forritin RATS 4.20 (hagrannsóknarforrit, 32-bita útgáfur fyrir DOS og Windows), SIMUL8 (hermiforrit, reyndar einnig uppsett í VR-II), TOK (bókhaldsforrit) og Lagasafn Íslands (gagnagrunnur íslenskra laga með Hypertext-linkum, aðgengilegur fyrir allt að 10 notendur í einu).

XVision er fullkominn X-miðlari fyrir Windows. Það gerir notendunum kleift að keyra ýmis verk á UNIX-tölvu samhliða í mismunandi gluggum, t.d. "xclock" í einum glugga, tölvupóstkerfið "elm" í öðrum og "netscape" í þriðja glugganum. XVision útgáfa 5.6 er sett upp í VR-II og á Hyundai P590 tölvunum í Vetrarhöll en útgáfa 6 er á leiðinni.

Ýmsir þýðendur eru á boðstólum í tölvuverum RHÍ og ber þar helst að nefna Borland C++ 3.1 ásamt fylgiforritum svo og Turbo Pascal 6.0 sem eru aðgengileg í öllum tölvuverunum. Þess má geta að forritunarumhverfið Delphi er sett upp á vegum tölvunarfræðiskorar í stofu #2 í Vetrarhöll.

AutoCAD er það hönnunarforrit sem e.t.v. hefur náð mestri útbreiðslu á meðal verkfæðinga í heimi í dag. Reiknistofnun er með 10 notendaleyfi af AutoCAD sem hún hefur uppfært reglulega. Nýjasta útgáfan er R13_c3 sem er uppsett í tölvuveri í VR-II þar sem forritið á helst heima.

SPSS 6.1.2 er 32-bita Windows forrit til að setja upp og leysa ýmis tölfræðileg verkefni. Forritið er víða notað bæði í kennslu og við lausn heimaverkefna einkum í Félagsvísindadeild og í Viðskipta-og hagfræðideild. Vegna mikilvægrar stöðu SPSS má keyra forritið í öllum tölvuverunum að Árnagarði undanskildum. Fyrir þá sem þurfa að leysa stærðfræðileg vandamál er boðið upp á forritin Matlab og MapleV í Vetrarhöll #2 og í VR-II.

Hér hefur verið stiklað á stóru um hugbúnaðarframboð í tölvuverum RHÍ. Tæmandi lista yfir forrit má nálgast í Gopher eða á World-Wide-Web undir /HI/Stofn/RHI/Ver/pc_hugb.html.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ