RHÍ Fréttir

nr. 25 apríl 1995

  

  

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Nýir prentarar í tölvuverum

og litaprentun hjá Reiknistofnun

Reiknistofnun hefur fest kaup á tveimur nýjum geislaprenturum til notkunar í tölvuverum.

Um er að ræða afar fullkomna og hraðvirka Hewlett-Packard LaserJet 4Si MX PostScript geislaprentara. Annar prentarana hefur verið settur upp í Vetrarhöll og hinn í stofu 102 í Odda.

Prentararnir geta prentað allt að átján síðum á mínútu og taka skúffurnar samtals 1.000 síður. Hægt er að setja í prentarana búnað sem gerir kleift að prenta báðum megin á síðu. Prentararnir hafa einnig mun meiri hámarksupplausn en prentararnir sem fyrir voru, eða 600 punkta á tommu, sem gefur kost á mun vandaðri útprentun en áður.

Geislaprentaranum sem fyrir var í Vetrarhöll var skipt út fyrir þann nýja en prentarinn í Odda er viðbót þar sem gamli geislaprentarinn var settur upp í stofu 103. Notendur í stofu 103 prenta sjálfkrafa á gamla prentarann en hafa möguleika á að senda útprentanir á þann nýja. Nýi prentarinn er að sjálfsögðu sjálfgefinn í stofu 102

Prentarinn í Vetrarhöll hefur sama auðkenni og áður, vh1laser. Nýi prentarinn í Odda fékk auðkenni gamla prentarans, od1laser og gamli prentarinn hefur fengið auðkennið od2laser.

Litaprentun
Búið er að setja upp og nettengja nýjan litaprentara sem Reiknistofnun keypti fyrir skömmu.

Prentarinn, sem er bleksprautuprentari af gerðinni Hewlett-Packard 1200C/PS, er Ethernet tengdur og er með PostScript túlki. Hann hefur auðkennið tg5color.

Allir þeir sem hafa notendanúmer hjá Reiknistofnun geta prentað á prentarann og kostar hver síða á við 10 síður á venjulegum geislaprentara.

Hægt er að prenta á glærur í prentaranum. Nota þarf sérstakar glærur til þess og hægt er að kaupa þær hjá Reiknistofnun. Reiknistofnun býður einnig upp á tvenns konar pappír. Annars vegar pappír sem er sérstaklega gerður fyrir bleksprautuprentara og hins vegar hágæðapappír sem er notaður þegar meiri gæða er krafist.

Prentarinn er staðsettur á skrifstofu ritara Reiknistofnunar á annarri hæð í Tæknigarði og er einungis hægt að sækja útprentanir þegar ritarinn er við.

Það er tilvalið að minna á að á skrifstofu ritarans er einnig litaskanni sem Reiknistofnun býður aðgang að. Bæði þessi tæki bjóða upp á skemmtilega möguleika við skýrslugerð og annað þar sem myndir og litur geta haft mikið að segja.

Nánari upplýsingar um notkun skannans og litaprentarans veitir Margrét Friðgeirsdóttir, ritari, í síma 4761 og í tölvupósti, margretf@rhi.hi.is.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ