RHÍ Fréttir

nr. 22 október 1994

  

  

Fréttabréf Reiknistofnunar

Fréttabréf Reiknistofnunar hefur nú komið út í núverandi formi í eitt ár. Á þessum tíma höfum við aflað okkur dýrmætrar reynslu varðandi útgáfu þess og höfum við fengið að heyra gagnlega gagnrýni. Fréttabréfinu hefur verið vel tekið og lengist áskrifendalistinn stöðugt.

Útgáfa

Hingað til hefur blaðið verið gefið út tvisvar á misseri, átta síður í senn. Með hliðsjón af þeirri eftirspurn eftir upplýsingadreifingu frá stofnuninni sem ég hef orðið var við ætla ég að reyna að stækka blaðið eða auka útgáfutíðni þess.

Dreifingarstefna

Ákveðið var í upphafi að senda blaðið ekki óumbeðið til allra starfsmanna skólans. Nóg er af óumbeðnu lesefni á okkar starfsvettvangi og ég vildi ekki bæta við pappírsflæðið að óþörfu.

Ákveðið var að senda heldur blaðið til viðskiptamanna Reiknistofnunar innan háskólans og til þeirra sem þess óska. Að sjálfsögðu mega allir starfsmenn skólans sem þess óska fá blaðið sent til sín í innanhússpósti þeim að kostnaðarlausu. Einnig getur hver og einn óskað eftir því að vera tekinn af dreifingarlista blaðsins.

Efnisval

Erfitt hefur reynst að setja saman blað svo að öllum líki. Efnið sem við höfum yfir að ráða er afar fjölbreytt og oft á tíðum þungt í vöfum fyrir þá sem ekki eru að vinna við það dags daglega. Einnig höfum við stundum lent í þeirri gryfju að leggja áherslu á málefni sem er kannski hjartans mál einstaks starfsmanns án þess að það endilega höfði til stórs hóps lesenda.

Við ætlum að hugsa meira um efnisval í blaðinu og hafa fastmótaðri ritstjórnarstefnu, og stefna um leið að því að hafa meiri fjölbreytni og meira fyrir notendur sem eru ekki mjög tækja- eða tölvusinnaðir. Langar mig að stækka blaðið um að minnsta kosti helming, því að af nógu efni er að taka.

En ég vil biðja lesendur að sýna þolinmæði og skilning við yfirlestur blaðsins og hafa í huga að það er eðlilegt og óhjákvæmilegt í blaði af þessu tagi að innihaldið nái ekki jafnt til allra - það er svo gott sem fyrirfram útilokað. Ef þú, lesandi góður, finnur eina grein sem þú hefur gagn af þá er tilgangnum náð og útkoma blaðsins réttlætt.

Ég væri ánægður og þakklátur að fá viðbrögð frá lesendum, athugasemdir sem lúta að innihaldi blaðsins.

Með von um gott og ánægjulegt samstarf.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ