RHÍ Fréttir

nr. 23 desember 1994

  

  

Saga Reiknistofnunar Háskólans

Oft hefur maður heyrt eða séð skrifað að Reiknistofnun hafi verið stofnuð 1976. Meira að segja var hátíðlega haldið upp á tíu ára afmæli stofnunarinnar 4. apríl 1986. En sagan er í raun og veru lengri, eða allt frá 1964, og er í þremur hlutum. Má með sanni tala um að Reiknistofnun hafi farið í gegnum þrjú æviskeið: Reiknistofnun hin eldri, Reiknistofnun hin nýrri, og þar á milli Reiknistofa Raunvísindastofnunar.

Reiknistofnun hin eldri

Reiknistofnun hóf starfsemi sína 1964 í kringum IBM 1620 vél sem Framkvæmdabankinn gaf Háskólanum í tilefni af tíu ára afmæli sínu, 10. febrúar 1963. Kaupverð var þá 2,8 milljónir króna, eftir að reiknaður var inn sá 60% afsláttur sem IBM veitti vísindastofnunum frá raunverði. Ármann Snævarr sem þá var háskólarektor sagði við afhendingu gjafabréfsins að þetta væri ein mesta gjöf sem Háskólanum hefði nokkru sinni borist. Rafheilinn, eins og fyrirbærið var kallað í dagblöðum, var settur upp í desember 1964 í kjallara húss Raunvísindastofnunar sem þá var enn í byggingu.

Bersýnilega var ekki hægt að kalla tæki þetta "tölvu" þar sem það orð hafði ekki enn verið fundið upp. Það kom fyrst fram árið 1965 í samtali milli Sigurðar Nordals og Magnúsar Magnússonar. Magnús var ennfremur fyrsti forstöðumaður stofnunarinnar.

Til glöggvunar skal það tekið fram að þegar IBM 1620 var fyrst sett upp var hún með 40.000 stafa minni og inntaks/úttakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari. Sem sagt, seguldiskar voru ekki enn komnir og ekki heldur prentari. Síðan kom seguldiskur með fyrsta vísi að frumstæðu stýrikerfi, og prentari. Loks var minnið stækkað í 60.000 stafi.

Reiknistofnun Mark II

Í kringum 1973 var Reiknistofnun færð til í skipulagi, og gerð aðstofnun innan Raunvísindastofnunar Háskólans. Það fyrirkomulag virðist ekki hafa heppnast sérstaklega vel, eins og best sést á því að forstöðumaður kom strax með tillögu um að Reiknistofu Raunvísindastofnunar yrði skipt í Reiknifræðistofu og Reikniþjónustu. Forstöðumenn stofnunarinnar á þessu tímabili voru þeir Þorkell Helgason, Oddur Benediktsson og Jón Þór Þórhallsson. Vélbúnaðurinn var áfram IBM 1620.

Reiknistofnun hin nýrri

Nýjasti kafli í ævisögu Reiknistofnunar byrjaði við komu IBM 360/30 vélar árið 1976. Með sérsamningi við IBM á Íslandi fékk Reiknistofnun endurgjaldslaus afnot af tölvunni í þrjú ár (sem síðan urðu fjögur). Skipulagsbreyting átti sér stað á sama tíma og reglugerð var gefin útaf Menntamálaráðuneytinu 11. mars 1976 um starfsemi stofnunarinnar. Þar er hlutverk hennar skilgreint í þremur liðum:

  • Annast rekstur reiknimiðstöðvar við Háskóla Íslands til úrvinnslu verkefna kennara og nemenda og annarra starfsmanna
  • Annast reikniþjónustu fyrir aðila utan Háskólans
  • Gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum til kynningar á nýjungum

Sú reglugerð var í gildi í fjórtán ár, eða þangað til ný reglugerð var gefin út 14. mars 1990 eftir langan aðdraganda og undirbúning. Í henni er hlutverkið útvíkkað nokkuð og við tekur ný skilgreining í átta liðum. Meðal annars bættist þar við að:

  • vera háskólaráði og einstökum deildum til ráðuneytis um upplýsinga- og tölvutækni
  • byggja upp og reka upplýsinga- og gagnanet fyrir Háskóla Íslands og annast þjónustu við notendur
  • koma upp og reka, í nánu samráði við deildir, aðstöðu fyrir nemendur allra deilda til kennslu og náms
  • fylgjast með alhliða þróun í tölvutækni
  • hafa yfirsýn yfir eign, notkun og þekkingu Háskóla Íslands á tölvubúnaði
  • tryggja vitneskju starfsmanna og nemenda um þá þjónustu sem stofnunin veitir

Forstöðumenn Reiknistofnunar eftir að hún var gerð aftur að sjálfstæðri stofnun 1976 hafa verið:

  • Jón Þór Þórhallsson, 1976 - 1977
  • Páll Jensson, 1977 - 1987 (með árshléi 1982 - 1983)
  • Jóhann Gunnarsson, 1982 - 1983 (og var einnig framkvæmdastjóri 1983 - 1987)
  • Helgi Þórsson, 1987 - 1991
  • Douglas A. Brotchie, 1991 -

Frekari þróun tölvukosts

PDP 11/34 var keypt og sett upp 1977. Hún var aðallega notuð til að stýra Calcomp tölvuteiknara. Vélin var endurnýjuð með PDP 11/60 1978 og keyrð til 1980.

Ein af stærri, stefnumarkandi ákvörðunum í sögu Reiknistofnunar var kaup á VAX 11/780 árið 1980. Vélin var keypt samkvæmt tillögu Páls Jenssonar forstöðumanns og Guðmundar Magnússonar stjórnarformanns. Vélin var keyrð í tíu ár og ekki tekin úr notkun fyrr en 1990.

1984 var áðurnefnd VAX vél yfirhlaðin og brýn þörf á að bregðast við því. Þá var gripið til þess ráðs að kaupa VAX 11/750. Ný vél, sem gefið var nafnið "katla" var notuð til að dreifa álagi og sér í lagi til að sinna ritvinnslu. Þessi vél átti einnig langa og farsælalífdaga og var ekki tekin úr almennri notkun fyrr en 1992.

Næst kom til sögunnar IBM 4341 sem var gjöf frá IBM á Íslandi tilstofnunarinnar og var gefið nafnið "esja". Vélin var afhent 28. ágúst 1985 og uppsetning stóð yfir 1986. Tilgangurinn á bak við gjöfina var að gera notendum kleift að tengjast EARN rannsóknaneti í Evrópu. Það reyndist erfitt að útfæra þessa hugmynd á sannfærandi hátt og notkuninni var hætt eftir tiltölulega skamman tíma, í kringum 1987/88.

Nútíma vélastefna Reiknistofnunar hófst með kaupum á HP 9000/840 1987. Fyrst þá var farið að veita almenna UNIX þjónustu og framtíðaráherslan færð þangað úr VMS hugbúnaðar- umhverfi. Lengi vel var "krafla" eins og hún hét og heitir enn aðal vinnuhestur stofnunarinnar og miðdepill notendaþjónustunnar. Vél þessi er enn í notkun en er þó komin á efri ár og einungis keyrð til að sinna fáeinum afmörkuðum verkefnum.

Í febrúar 1990 kynnti IBM athyglisverða nýja vélafjölskyldu, IBM RISC System/6000. Eftir töluverðar vangaveltur var ákveðið að festa kaup á vél úr þessari fjölskyldu, vélargerð 540, til að þjóna hlutverki sérstakrar reiknimiðstöðvar. Vélin var keypt í samráði og samvinnu við hóp góðra manna, eðlisfræðinga og veðurfræðinga, sem fengu tryggðan aðgang að reikniafli gegn því að taka þátt í kaupunum með Reiknistofnun. Sú vél er keyrð enn í dag og hefur reynst raunvísindamönnum og veðurfræðingum mjög gagnleg. Samhliða kaupum á vélargerð 540 voru keyptar tvær minni vélar úr sömu fjölskyldu sem vinnutæki starfsmanna.

Nýjasta fjölnotendavél stofnunarinnar er HP 9000/750, keypt sumarið 1991. Sú vél er sú öflugasta og um leið í rúmmáli sú minnsta sem hefur þjónað háskólafólki á vegum Reiknistofnunar í þrjátíu ára sögu hennar.Svo fyrirferðarlítil er vél þessi að þegar taka átti ljósmynd fyrirfréttabréf HP í tilefni afhendingarinnar, var töluverðum erfiðleikum háð að greina tölvuna á myndinni, svo lítil er hún. Stefnt er að því að vernda þá fjárfestingu sem þegar hefur verið lagt út í með því að bæta við vélina í áföngum eftir þörfum. Við vélina er tengd DAT segulbandsstöð og geisladiskalesari, og minni hefur nýlega verið stækkað í 96 MB. Til stendur að framkvæma vélargerðarbreytingu alveg á næstu dögum til að auka reikniafköst vélarinnar til muna og frekari þróun er á döfinni.

Húsnæði

Starfsemi Reiknistofnunar fór fyrst fram í kjallara Raunvísindastofnunar frá því að IBM 1620 var sett upp þar í desember 1964. Þar voru bæði vélasalur og aðstaða starfsfólks. Þegar IBM 360 kom var sú vél sett upp í tölvusal sem komið hafði verið fyrir í VR I,húsi Verkfræði- og raunvísindadeildar, og flest starfsfólkið hafðiaðstöðu í timburhúsi við suðurenda VR I, hús sem var í daglegu tali kallað "Sumarhús". Tölvuveri fyrir einmenningstölvur var komið upp í "Sumarhúsi" 1983 eða '84 og starfsliðið flutti í enn eitt timburhúsið, "Sumarhöll", sem stóð þar sem Tæknigarður stendur nú. Í tímans rás var svo allri kjarnastarfsemi stofnunarinnar (vélasal og skrifstofuhúsnæði) komið undir eitt þak á ný í nýreistum Tæknigarði nóvember 1988.

Sumarhús. Í þessu húsi hafði Reiknistofnun aðsetur frá 1974 - 1983. Myndin er tekin 1976 eða 1977 eftir eldsvoða sem varð í húsinu. Vélarsalur Reiknistofnunar var á þessum tíma í VR I sem sést í bakgrunni og slapp því allur vélbúnaður óskemmdur úr eldinum utan einn skjár sem bráðnaði. Ljósm: Þ.S.

Merkir áfangar

IBM 1620 var fyrsta tölvan sem fengin var til landsins til vísindalegra og fræðilegra útreikninga. Samkvæmt samtímaheimildum var 1620 ekki fyrsta vélin sem sett var upp hér á landi - þann heiður átti 1401 vél Skýrsluvéla - en háskólavélin var langtum stærri, með tíu sinnum meira minni. Við komu 1620 hófst einnig innreið forritunarmála í líkingu við þau sem við þekkjum í dag, nefnilega Fortran II. Stefna ríkisins virðist lengi vel hafa verið að vera með tvær vélar á vegum ríkisins, hjá SKÝRR til að sjá um skýrslugerð og í Reiknistofnun Háskólans til að sjá um vísindaleg og verkfræðileg rannsóknaverkefni. Fyrsti tölvuteiknarinn (Calcomp) sem fenginn var til landsins var settur upp 1978 og tengdur við PDP-11 vél. VAX væðing hófst með stórhuga ákvörðun um að fá til landsins VAX 11/780. Ekki voru síður mikilvægir þeir hugbúnaðarpakkar sem settir voru upp á vélinni, t.a.m. tölfræðipakkarnir SAS og SPSS og líka NAG forritasafn. Reiknistofnun hefur alla tíð lagt áherslu á, og lagt fram mannskap til að taka þátt í, þá grundvallar og þýðingarmiklu starfsemi að aðlaga tölvubúnað og öllu því tilheyrandi að íslenskum aðstæðum.

UNIX væðing sem hófst hjá RHÍ með kaupum á HP 9000/840 árið 1987 eftir töluverðar umræður og vangaveltur hefur líka reynst farsæl og haft mikil áhrif.

Í kjölfarið fylgdi uppsetning háskólanets, sem er mjög stórt ogsamanstendur af mörgum samtengum Ethernet netum, tengt m.a. með glerþráðum. Þróun þessa nets er sökum stærðarinnar og dreifðra háskólabygginga af skiljanlegum ástæðum flókin, og hefur verið framkvæmd í áföngum. Þriðji þróunaráfangi stendur nú yfir.

Úr fyrsta vélasal Reiknistofnunar. Þarna má sjá að prentari og diskastöðvar hafa bæst við tækjakost stofnunarinnar. Ljósm: Þ.S

Reiknistofnun í dag

Hlutverk Reiknistofnunar hefur breyst í gegnum tíðina eins og eðlilegt og óhjákvæmilegt er með hliðsjón af breytingum sem hafa orðið á tölvutækni og notkun hennar á síðastu þrjátíu árum. Hún er ekki lengur reiknimiðstöð þjóðarinnar - reikniafl er ódýrt, eins og velkunnugt er, og orðið útbreitt og almenningseign. Stofnunin er frekar orðin að þekkingar- og þjónustumiðstöð, þar sem áhersla er lögð á þjónustu við háskólasamfélagið.

Einn mjög mikilvægur þáttur í núverandi starfsemi er skipulagning og rekstur Háskólanets, en eins og komið var að áður er háskólanet óvenjulegt, margslungið og flókið í uppsetningu og rekstri. Netið er þegar orðið þýðingarmikið fyrir starfsemi skólans, og mikilvægið fer stöðugt vaxandi.

Í þessu sambandi er rétt að nefna starfsemi SURÍS, Samtök umupplýsinganet rannsóknaaðila á Ísland. Reglulegu tölvusambandi við útlönd var fyrst komið á með brautryðjendastarfsemi innan Hafrannsóknastofnunar. SURÍS var stofnað í febrúar 1987 til þess að taka þátt í norrænu samstarfi á sviði reksturs rannsóknaneta. Samkomulag var gert um að færa tilheyrandi rekstur til Reiknistofnunar 1989 og er sá rekstur nú umfangsmikill og ómissandi fyrir vísinda- og fræðistarf í landinu með yfir 4000 tölvur tengdar netinu af hálfu 70 stofnana og fyrirtækja.

Meðal þeirra nýrri verkefna sem Reiknistofnun hefur tekið að sér að undanförnu er að hýsa og keyra kerfi Lands- og Háskólabókasafna, "Gegnir". Það samstarf hefur einkennst af farsælu samstarfi milli kerfisbókavarða bókasafnanna og tæknisérfræðinga Reiknistofnunar.Ýmsar spennandi nýjungar og brautryðjandi þróunarverkefni eru í athugun eða undirbúningi hjá Reiknistofnun og væntanlega mun afrakstur þeirrar starfsemi birtast félögum Skýrslutæknifélagsins í framtíðinni, annað hvort á vettvangi ráðstefna félagsins eða á síðum Tölvumála.

Lokaorð

Hvorki hefur gefist hér pláss né tími til að fjalla um starfsliðstofnunarinnar né stjórn hennar og stefnumörkun og er það miður.

Þessir málaflokkar verða að bíða betri tíma. Við undirbúning þessarar stuttu greinar hef ég fengið ómetanlega hjálp, fúslega veitta af Helga Þórssyni, Jóhanni Gunnarssyni, Jóni Þór Þórhallssyni og Oddi Benediktssyni og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir. Rangfærslur eða missagnir sem kunna að leynast í innihaldinu eru að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð höfundar. Sá tími sem var til ráðstöfunar til að skrifa greinina var af ytri ástæðum af mjög skornum skammti og í reynd ekki tíundi hluti af því sem efnið á skilið. Ég vona að lesendur fyrirgefi glappaskot sem kunna að vera af þessum sökum. Efnið á sem sagt betra skilið en þessi fátæku orð og ég vona að tækifæri gefist bráðlega til að taka saman almennilega sögu Reiknistofnunar Háskólans sem er svo nátengd sögu tölvumála hér á landi.

Þessi grein hefur áður birst í Tölvumálum. Hún er birt hér með smávægilegum breytingum með góðfúslegu leyfi hlutaðeigandi.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ