RHÍ Fréttir

nr. 23 desember 1994

  

  

Steingrímur Birgisson

Gopher hjá Reiknistofnun

Hvað er Gopher?

Gopher er upplýsingaveita sem tölvunotendur með aðgang að tölvuneti Háskóla Íslands geta notfært sér. Þar er meðal annars að finna Upplýsingakerfi Háskóla Íslands ásamt tengingu við aðrar upplýsingaveitur um hinn víða heim Internetsins. Gopher er með öflugustu tækjum sem í boði er við leit upplýsinga og aðgang að þeim, hvort sem er á texta- formi, pökkuðu formi, í keyrsluskrám, o.s.frv.

Gopher er aðgengilegur á Unix fjölnotendavélum RHÍ (Hengill og Hekla), á Makkavélum með Turbo-Gopher og þar að auki er einnig hægt að tengjast honum í gegnum World Wide Web (sjá síðar).

Hvað er í boði?

Í Gopher er að finna margbreytilegar upplýsingar um Háskóla Íslands og tengingar við aðra Gopherþjóna út um allan heim.

Þar er að finna meðal annars upplýsingar um RHÍ og þá þjónustu sem stofnunin veitir, þá má einnig finna upplýsingar um tölvuver, aðgengilegan vél- og hugbúnað og allt um hvernig hægt er að tengjast tölvuneti Háskólans með innhringimótaldi.

Hægt er fletta upp á víðtækum upplýsingum um félagsstarf stúdenta og finna þar sitthvað um Félagsstofnun stúdenta, nemendafélög og stúdentaráð.

Þá er hægt að skoða dagbók og próftöflur frá Kennslusviði, yfirlit kennslu og prófa eftir deildum, og allt um skipan prófa í stofur um leið og það er opinberað frá Kennslusviði.

Upplýsingar um það helsta sem er á döfinni tengt HÍ s.s. eins og fyrirlestrar, ráðstefnur, málstofur og -þing ásamt ýmsum uppákomum er einnig að finna í Gopher undir lið sem heitir Á döfinni.

Aðrir upplýsingaþjónar sem tengdir eru við Gopher eins t.d. Usenet ráðstefnur (þ.e. net- fréttir), aðrir Gopher upplýsingaþjónar úti í heimi sérhæfðir fyrir efna-, eðlis-, læknis-, hjúkrunar-, líf- og lögfræði, þá er hægt að gera efnisorðaleit í upplýsingaþjónum um allan heim að einhverju tilteknu málefni með Veronica.

Hægt er að tengjast upplýsingaþjónum bókasafna um víðan heim í gegnum Gopher hvort sem er innanlands eða utan.

Í Gopher má lesa allt um ferðir og tímaáætlun SVR og Almenningsvagna, hægt er fletta upp á gengi dagsins og sjónvarpsdagskrá vikunnar.

Fletta má í fundargerðum frá Stjórnsýslu HÍ og framkvæma leit í þeim eftir uppgefnu orði, frá alþjóðaskrifstofu er að finna handbók um styrki til náms eða hugsanlegra annarra starfa víðsvegar um heiminn, þá eru þar einnig að finna upplýsingar frá Rannsóknar- og Starfsmannasviði.

Í símaskrá Háskólans í Gopher má finna símanúmer hjá stúdent, kennara eða starfsmanni eftir t.d. nafni eða notendanafni viðkomandi á tölvuneti HÍ.

Farið í geislaplötubúðir með Gopher

Dæmi um þá möguleika sem leynast í Gopher er til dæmis að tengjast við verslanir með geislaplötur á Interneti. Í aðalvalmynd er valið Aðrir upplýsingaþjónar sem býður upp á þjónustu á Interneti gegnum Telnet, þar má finna lið undir nafninu Other Resources, undir þeim lið er að finna alls kyns þjónustur s.s. NASA gagnbanka o.s.frv. Í lið sem ber nafnið Miscellaneous resources er að finna nokkrar þjónustur sem sérhæfa sig í verslun með tónlist, en þær heita CDnow! : the internet music store, Compact Disc Connection og Compact Disc Europe. Í þessum verslunum er hægt t.d. að versla geisladiska með greiðslukorti, en vert er að kynna sér gaumgæfilega þá greiðsluskilmála sem verslanirnar setja upp áður en verslað er, en þeir geta verið æði mismunandi.

Hvers vegna ekki World-Wide Web?

Það er í stöðugri endurskoðun hvort færa eigi Upplýsingakerfi Háskólans alfarið frá Gopher yfir í World-Wide Web (W3), en eins og staðan er í dag þá hefur það upplýsingavægi sem World Wide Web býður umfram Gopher ekki enn réttlætt þá umbreytingu þar sem meðal annars eru til staðar myndir og jafnvel hljóð. Þar að auki á meðan notendur með aðgang að tölvuneti Háskólans hafa ekki allir aðgang að W3 þá er það vart réttlætanlegt gagnvart þeim að loka þá úti frá Upplýsingakerfi Háskólans með því að færa það yfir í W3. Hins vegar þá er hægt að nálgast Upplýsingakerfi Háskólans engu að síður í W3 með URL (Uniform Resource Locator) tengingu við Gopherþjón RHÍ í gegnum gopher://gopher.rhi.hi.is.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ