Apríl 1994

Fréttir af WordPerfect

Nýlega tilkynnti WordPerfect fyrirtækið í Bandaríkjunum að ekki myndu koma út nýjar útgáfur af WordPerfect ritvinnsluforritinu fyrir DOS. Sögðu þeir að aðaláherslan yrði lögð á að þróa WordPerfect fyrir Windows og Windows NT. Samt sem áður mun fyrirtækið sjá um þjónustu við notendur WordPerfect fyrir DOS og einnig munu koma út minni háttar útgáfur til að leiðrétta villur og annað slíkt í forritinu.

Novell, sem framleiðir NetWare nethugbúnaðinn, hefur keypt WordPerfect fyrirtækið. Einnig hefur Novell keypt Quattro Pro töflureikninn af Borland. Með þessum kaupum er Novell orðið næst stærsta fyrirtækið á sviði PC hugbúnaðar á eftir Microsoft. Þessi kaup munu væntanlega ekki breyta neinu um þá ákvörðun WordPerfect að hætta að framleiða WordPerfect fyrir DOS.

Af músum og mönnum

PC notandi í Bandaríkjunum hringdi í tölvufyrirtæki og var við það að missa þolinmæðina. Hún sagði að hún gæti engan veginn kveikt á nýju Dell tölvunni sinni, sama hvað hún reyndi. Tæknimaður hjá fyrirtækinu, fullvissaði sig um að tölvan væri í sambandi og spurði síðan konuna hvað gerðist þegar hún ýtti á ræsihnappinn.

"Ég hef margýtt á þetta fótstig en það gerist ekkert," svaraði konan. "Fótstig?" spurði tæknimaðurinn forviða. "Já," sagði konan, "þetta litla, hvíta fótstig með ræsihnappinum." Tæknimaðurinn áttaði sig þá á því að "fótstigið" sem virkaði ekki var músin sem fylgdi tölvunni.

Hjá öðru fyrirtæki fékk viðgerðamaður í tölvudeild upphringingu og var kvartað yfir biluðum prentara. Viðgerðarmaðurinn fór og sótti prentarann og þegar hann var opnaður fannst inni í honum dauð mús. Hún hafði fengið raflost og olli því að prentarinn fór ekki í gang aftur.

Nýr Uppi

Reiknistofnun hefur gefið út nýja útgáfu af Uppanum. Þessi útgáfa byggir á Kermit 3.13. Þeir sem sem hafa notað Uppann til að tengjast Gegni ættu að hafa samband við Reiknistofnun og fá þessa nýju útgáfu þar sem til stendur að gera breytingar á Gegni á næstunni. Eldri útgáfur Uppans munu ekki virka eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar.

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ