Sigfús Magnússon
Um miðjan mars síðastliðin komu á markað nýjar gerðir Macintosh tölva sem bera nafnið Power Mac. Eftir þessum tölvum hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu því með þeim hefst nýtt tímabil í sögu Macintosh tölva.
Tölvurnar nota nýja fjölskyldu örgjörva (PowerPC sem er afrakstur samvinnu Apple, IBM og Motorola) en hún er margfalt aflmeiri en Motorola 680x0 gjörvarnir sem hingað til hafa verið notaðir í Macintosh. Tölvurnar hafa geysilegt afl og með þeim ætlar Apple að bjóða besta hlutfall verðs/afkastagetu (e. price/performance) á markaðnum.
Hermun
Hið mikla afl sem býr í Power Mac mun ekki nýtast nú á fyrstu mánuðum tölvanna. Til að forrit geti nýtt sér aflið þurfa þau að vera "native", þ.e. vera skrifuð sérstaklega fyrir Power Mac og það eru fæst forrit ennþá - en búast má við að flest forrit verði komin "native" á markaðinn nú í haust. Í staðinn keyra forritin hermuð (e. emulated) og þannig verður hraði dýrustu og bestu Power Macintosh tölvunnar svipaður og hraði Mac LC 475. Keyri forrit hins vegar "native" er hraði þeirra 200-500% meiri en hraði hraðvirkustu Macintosh tölva (Quadra 840AV) hingað til.
Uppfærslur á eldri Macintosh tölvum
Apple hefur ákveðið að bjóða uppfærslur fyrir nokkrar eldri tegundir Macintosh tölva. Þessar uppfærslur verða af tveimur megin gerðum. Önnur gerðin verður spjald sem stungið verður í rauf í Quadra tölvunum en hin gerðin verður nýtt móðurborð sem hægt verður að setja í flestar gerðir Quadra tölva og í Mac IIvi og Mac IIvx. Búist er við að fyrri gerðin komi til með að kosta í kringum 100 þús. kr. en móðurborðið verður eitthvað dýrara. Apple er í samstarfi við nokkra framleiðendur hröðunarspjalda til að hægt verði að bjóða Power Mac uppfærslur fyrir sem flestar tegundir eldri Macintosh tölva.
Windows á Mac
Macintosh notendur hafa getað keyrt Windows forrit í nokkurn tíma með hjálp SoftWindows forritsins. Á hraðvirkustu Quadra tölvum hefur útkoman verið vægast sagt ömurleg. Windows forritin hafa flest getað keyrt en hraði þeirra hefur verið algjörlega óþolandi. Núna býðst hins vegar Power Mac notendum tækifæri til að nota nýja "native" útgáfu af Soft-Windows en með henni eru afköstin með ágætum. Power Mac 8100 með SoftWindows keyrir á svipuðum hraða og hraðvirk 386 tölva eða hægvirk 486. Með SoftWindows er nú kominn möguleiki fyrir Macintosh notendur að nota þau örfáu forrit sem eru til á Windows en ekki á Macintosh og einnig geta notendur verið með forrit í gangi í báðum umhverfunum og flutt gögn á milli á einfaldan hátt.