RHÍ Fréttir

nr. 36 janúar 2000

Stúdentagarðarnir nettengdir

 

Þorkell Heiðarsson
thorkell@hi.is


Um áramótin var lokið við að tengja 454 íbúðir á Stúdentagörðum Félagsstofnunar við Háskólaneti (Hinet). Einn tengill er í hverri íbúð og herbergi. Netkerfið er sítengt allan sólahringinn og er með 10 Megabita/sek (Mbit/s). flutningsgetu í báðar áttir. Til samanburðar er ISDN innhringisamband 0.064 Mbit/s. Með þessu fá stúdentar aðgang að HInet með sömu bandbreidd og starfsmenn HÍ hafa á skrifstofum sínum eða tölvuverum. Ekki er fyrirsjánlegt í nánustu framtíð að slík tenging verði í boði á almennum markaði til heimila. 

Lengi staðið til

Tenging Stúdentagarðana hefur verið fyrirhuguð frá upphafi. Röralagnir fyrir ljósleiðara milli húsa voru að mestu lagðar við byggingu húsana. Verkið var unnið í samvinnu Reiknistofnunar Háskóla Íslands (RHÍ) og Félagsstofnunar Stúdenta (FS). RHÍ sá um lagningu ljósleiðara að Eggertsgötu 14 sem tengist ljósleiðarakerfi HÍ. Jafnframt lagði RHÍ til leiðarbeini og aðstoðaði við hönnun kerfisins sem og uppsetningu á búnaði. FS sá um allar ljósleiðaralagnir milli húsa á Stúdentagörðunum, ásamt uppsetningu á tengiskápum.

Ódýr þjónusta

FS sér um að innheimta netþjónustugjald krónur 1.460 á mánuði. Af því renna 623 krónur til RHÍ í bandvíddargjald, sem fer upp í greiðslu á Internetum-ferð. Stúdentagarðar flestra háskóla í nágrannalöndum eru tengdir háskólanetunum með svipuðum hætti og var leitað að fyrirmyndum bæði austan- og vestanhafs. Vonir standa til að þessi aukna þjónusta mælist vel fyrir hjá íbúum Stúdentagarðana, auk þess sem þjónustan ætti að stuðla að minna álagi á tölvuver RHÍ á háskólasvæðinu. 

 

Hraðara internetsamband

 
Háskóli Íslands hefur fyrstur opnað 10Mbita samband við internetið í gegnum INTIS. Áður var Háskólinn með 2Mbita samband. 
Nýja sambandið ætti því að gefa háskólasamfélaginu verulega aukið svigrúm fyrir samskipti, kennslu og rannsóknir á Netinu. 
Á myndinni eru fulltrúar Háskólans og INTIS við undirritun samningsins.
 

Efnisyfirlit Næsta síða Útgáfuyfirlit